Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Vísindi og kristin trú eru án efa þær stofnanir vestrænnar menningar sem mest áhrif hafa haft á þróun hennar undanfarnar aldir. Því hefur hins vegar löngum verið haldið fram að grundvallarágreiningur hafi ríkt milli þessara stofnana síðan katólska kirkjan dæmdi Galíleó (1564-1642) í stofufangelsi fyrir að aðhyllast sólmiðjukenningu Kópernikusar. Þeir sem aðhyllast þessa skoðun benda einnig á gagnrýnina sem þjónar kirkjunnar settu fram gegn þróunarkenningu Charles Darwins (1809-1882), sem birtist í bókinni Uppruna tegundanna árið 1859. Rannsóknir vísindasagnfræðinga benda hins vegar til þess að þessi frægu dæmi teljist til undantekninga og sambúð vísinda og trúarbragða á þessu tímabili hafi yfirleitt verið frekar friðsamleg.
Það kann að koma sumum á óvart að árið 1951 fékk tilgátan um Miklahvell, sem þá var enn mjög umdeild, óvæntan stuðning frá kaþólsku kirkjunni þegar Píus XII páfi lýsti því yfir að hún samrýmdist hugmyndaheimi Biblíunnar. Sama gilti hins vegar ekki um þróunarkenninguna. Í páfabréfi (Encyclical) Píusar XII, Humani Generis frá árinu 1950 gat hann þess að svo lengi sem menn tækju tillit til nokkurra óumdeildra atriða ríkti engin mótsögn milli þróunar lífsins og trúarbragða. Lykilatriðið taldi Píus vera þá staðreynd að hugmyndin um þróun lífsins væri ekki kenning heldur tilgáta, með þeim eðlismun sem þar er á. Sköpun Guðs á Adam og Evu, eins og henni er lýst í fyrstu Mósebók, var talin jafn líkleg og hugmyndir þróunarfræðinnar.
Tæpum 50 árum síðar, nánar tiltekið árið 1998, tók Jóhannes Páll II páfi hugmynd Darwins um þróun lífsins í sátt. Í yfirlýsingu páfa leggur hann áherslu á að guðfræðingar verði að fylgjast vel með rannsóknaniðurstöðum raunvísindanna ef þeir eigi að geta afmarkað eigin rannsóknarsvið. „Í dag“, segir páfi síðan, „næstum því hálfri öld eftir birtingu páfabréfs Píusar XII, hefur ný þekking opnað augu okkar fyrir því að þróun er meira en tilgáta.“ Af þessum sökum talar páfi um „þróunarkenninguna“ og sættir sig við ályktanir hennar þar til kemur að mannshuganum, sem að hans mati getur ekki „sprottið upp af kröftunum í lifandi efni.“ Hér kemur Guð til skjalanna að mati Jóhannesar Páls II.
Viðhorf íslensku þjóðkirkjunnar til sambands vísinda og trúar almennt og sérstaklega til lýsingar fyrstu Mósebókar á sköpun mannsins og þróunarkenningarinnar hefur ekki verið rannsakað til hlítar. Rannsóknir mínar á viðtökum Íslendinga við þróunarkenningunni á árunum 1870-1940 benda til þess að ekki hafi orðið mikil átök milli kirkjunnar og þeirra sem aðhylltust þróunarkenninguna.
Á tímabilinu 1950-1959 birtust þrjár greinar eftir herra Sigurbjörn Einarsson biskup sem bera með sér að Sigurbjörn taldi mjög mikilvægt að jákvætt samband ríkti milli trúar og vísinda. Að hans mati er kristinn einstaklingur “sannfærður um, að þekking og trú geti ekki verið í raunverulegri andstöðu hvort við annað,” sem leiðir til þess að “vísindin geta verið guðsþjónusta og út frá þessum skilningi hafa margir hinna fremstu vísindamanna litið á starf sitt.” Því telur Sigurbjörn engan tvískinnung vera “í huga kristins vísindamanns milli þekkingarinnar, sem hann leitar og finnur og þeirrar trúar sem hann á.” Hugmyndir Sigurbjörns fela í sér að túlka beri sköpunarsögu Biblíunnar sem ljóðræna myndlíkingu en ekki vísindalega úttekt á tilurð jarðarinnar og lífsins sem hún hefur að geyma, sem endurspeglast í því að:
vísindaleg þekking og trúræn vitund eru sitt hvort, alveg eins og það er sitt hvort að vita allt, sem vitað verður um bein, æðar, taugar og vöðva í mannshendi og hitt að finna dýrmætt, langþráð vinarhandtak.
Þórir Kr. Þórðarson guðfræðiprófessor ítrekaði þetta viðhorf til fyrstu Mósebókar í ritlingi ætluðum grunnskólakennurum frá árinu 1986. Ef litið er sérstaklega á frásögnina um sköpun Adams og Evu þá segir Þórir orðin “Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd” vera myndmál, sem ráða megi af heildarmerkingu sköpunarsögunnar. Af þessu dregur Þórir þá ályktun að textinn sé:
ekki náttúrufræði heldur leikrænt trúarljóð, sem hefur siðferðilega merkingu. Ímyndin (maðurinn í Guðs mynd) merkir að maðurinn á að ganga erinda Guðs til eflingar lífríkinu.
Það virðist því nokkuð ljóst að ýmsir þjónar kirkjunnar hér á landi sjá enga þörf á því að reyna að skýra Adam og Evu með vísun í þróunarkenninguna því fyrsta Mósebók er ekki vísindatexti í þeirra augum. Þrátt fyrir þetta „hugsa flestir guðfræðingar enn og skrifa eins og Darwin, Einstein og Hubble hafi aldrei verið til,“ og hafa þeir því, að mati bandaríska guðfræðingsins John F. Haught, misst sjónar á „gjöf Darwins til guðfræðinnar.“
Steindór J. Erlingsson. „Hvernig útskýra kirkjunnar menn Adam og Evu út frá þróunarkenningunni?“ Vísindavefurinn, 22. nóvember 2004, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4620.
Steindór J. Erlingsson. (2004, 22. nóvember). Hvernig útskýra kirkjunnar menn Adam og Evu út frá þróunarkenningunni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4620
Steindór J. Erlingsson. „Hvernig útskýra kirkjunnar menn Adam og Evu út frá þróunarkenningunni?“ Vísindavefurinn. 22. nóv. 2004. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4620>.