Hvað er þekjuvefur?Dýravefir eru yfirleitt flokkaðir í stoðvefi, þekjuvefi, blóð, taugavefi og vöðvavefi. Í þessu svari er athyglinni fyrst og fremst beint að stoðvefjum og þekjuvefjum en þegar hefur verið fjallað um vöðvavefi í svari sama höfundar við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um vöðvavefi dýra? og um blóðvef í svari EDS við spurningunni Hvað er blóð? Umfjöllun um taugavef bíður betri tíma. Helstu einkenni stoðvefja eru þau að oftast er mikið bil á milli frumnanna sem mynda vefina og er svæðið á milli þeirra fyllt með fljótandi eða föstum efnum, svokölluðum tengiefnum. Annað einkenni stoðvefja er að frumurnar eru frekar ósérhæfðar þannig að við ákveðnar aðstæður geta frumur í tilteknum vef breyst í aðra gerð stoðvefja. Stoðvefir eru í öllum líffærum á milli annarra vefja. Hefð er fyrir því að skipta stoðvefjum upp í tvo flokka, lausan og fastan stoðvef, eftir gerð tengiefnisins á milli frumnanna. Í lausum stoðvef, öðru nafni bandvef, er mikið tengiefni á milli frumnanna í formi trefja. Síðan er hægt að flokka lausa stoðvefi frekar eftir innbyrðis hlutföllum ýmiss konar fruma og trefja. Einn slíkra flokka eru sinar sem hafa mjög hátt hlutfall trefja. Í föstum stoðvefjum seyta frumurnar efnasamböndum, oftast ólífrænum, sem mynda föst tengiefni. Ef slíkur vefur er skoðaður í smásjá má sjá að frumurnar koma fyrir sem eins konar eyjur umluktar hörðu efni, tengiefninu. Dæmi um mjög áberandi fasta stoðvefi í hryggdýrum eru bein og brjósk en uppistaðan í beinum er tengiefnið kalsínfosfat.

Brjóskvefur af undirgerðinni hyalinbrjósk en hann finnst meðal annars í nefi og öndunarvegi spendýra. Á myndinni má sjá frumur umluktar brjóski.
- Cell and Development Biology Online - Department of Zoology, University of Guelph. (Sótt 15.11.2004).
- Estrella Mountain Community College. Texti íslenskaður af ritstjórn Vísindavefsins. (Sótt 15.11.2004).