Í fréttum af slysum í álverum er stundum talað um að ljósbogi hafi myndast. Hvaða fyrirbæri er það?Ljósbogi er fyrirbæri sem myndast þegar rafstraumur fer um gas. Við þær aðstæður hitnar gasið mjög, fasabreyting verður og það myndast svokallað rafgas (e: plasma). Sameindir klofna upp í frumeindir sem síðan jónast og til verður súpa af neikvætt hlöðnum rafeindum og jákvætt hlöðnum jónum. Rafgasið leiðir rafstraum vel en til að fá fram rafgas við andrúmsloftsþrýsting þarf hátt hitastig eða yfir 7000 °C. Í ljósboga verður varmamyndun vegna rafstraums til þess að viðhalda rafgasi og er algengt hitastig milli 20000 og 30000 °C. Til eru allnokkrir iðnaðarferlar sem þurfa hátt hitastig og nýta ljósboga til að koma orku inn í kerfið. Þar má nefna kísil- og kísiljárnsframleiðslu, steinullarframleiðslu og eyðingu spilliefna. Rafgreiningarkerin í kerskála álvers eru öll raðtengd og bera jafnstraum sem fer um súrálsbráðina í kerinu milli kolarafskauts efst í henni og leiðandi efnis í botninum. Þegar unnið er við rafskaut kers er ávallt tengt framhjá kerinu. Slys geta hins vegar til dæmis orðið við það að kerið tengist inn í hringrásina áður en búið er að tengja kolarafskautið við leiðara sem á að flytja strauminn í það. Þá dettur straumurinn í kerfinu niður og spennan sem yfirleitt er dreifð á öll kerin í kerskálanum verður milli leiðarans og rafskauts þessa eina kers. Þetta er næg spenna til að jóna loftið og mynda ljósboga. Þar sem hitinn í rafgasinu hleypur á tugum þúsunda gráða verður gífurleg geislun frá ljósboganum og allt í næsta nágrenni sviðnar á augabragði áður en straumurinn rofnar aftur. Mynd:
- Flickr. Electric arc. Eigandi myndarinnar er Jeff Kubina. Birt undir leyfinu CC BY-SA 2.0. (Sótt 25.7.2019).