Þriðja bandormstegundin sem fræðilega séð gæti fundist hér í mönnum er lítill bandormur, Hymenolepis nana. Þessi ormur heldur sig alla jafna í músum og rottum en gæti einnig lifað í mönnum ef svo illa vildi til að músa- eða nagdýraskítur með þessum bandormseggjum í lenti í matvælum sem menn legðu sér síðan til munns. Tegundin er hér landlæg í nagdýrum. Stundum finnast bandormar í fólki sem hingað kemur frá útlöndum og hafa menn þá náð sér í smitið (egg eða sulli) erlendis. Þarna geta verið á ferðinni nokkrar tegundir bandorma og eru sumar þeirra vel þekktir sjúkdómsvaldar. Smitun getur til dæmis orðið við að snæða sýktan hráan eða illa soðinn fisk (þannig smitast menn af svonefndum breiða bandormi, Diphyllobothrium latum) eða við það að leggja sér til munns lirfusmitað hrátt og illa steikt nauta- eða svínakjöt (tegundirnar Taenia saginata, Taenia solium) sem ekki hefur verið hitað það mikið að lirfurnar í kjötinu dræpust.
Skoðið einnig önnur svör á Vísindavefnum um sníkjudýr eftir sama höfund:
- Hvaða ormar lifa í meltingarvegi fólks á Íslandi?
- Eru einhver sníkjudýr eða aðrar lífverur í eða á líkamanum, aðrar en rykmaurar?
- Hvaða dýr leynast í rúmum og teppum landsmanna?
- Karl Skírnisson, Sigurður H. Richter & Matthías Eydal. 2003. Prevalence of human parasites in Iceland: Past and present status. Chapter 4, pp. 34-44 in: Parasites of the Colder Climates (Ed. Hannah Akkuffo, Inger Ljungström, Ewert Linder and Mats Whalgren). Taylor & Francis, London and New York.
- Stabler and Howlett Veterinary Surgeons
- American Museum of Natural History