Hvað eru til margar tegundir af bakteríum á jörðinni og hve margar af þeim finnast á Íslandi? Hverjar eru stærstar og hverjar eru minnstar?Orðið baktería er á íslensku aðallega notað um þá gerla sem valda sjúkdómum en í þessu svari verður gerð grein fyrir þekktum fjölda gerla. Gerlafræðingar hafa greint og skráð rúmlega 4 þúsund tegundir af gerlum. Ekki hefur höfundur þessa svars tiltækar upplýsingar um hversu margar tegundir hafa fundist hér á landi. Fyrir fáeinum árum fundu þýskir vísindamenn langstærsta geril sem þekktur er. Hann fannst í jarðvegssýni frá Namibíu og reyndist vera um 750 µm í þvermál (0,75 mm) og er hann þess vegna sýnilegur án hjálpar smásjár. Þessi gerill er 100 sinnum stærri en sá sem áður var talinn stærstur en hann nefnist Epulospiscum fishelsoni og lifir í iðrum ákveðinnar fisktegundar. Gerilinn frá Namibíu er svo stór að ef við ímynduðum okkur að hann væri á stærð við steypireyð væri næststærsti gerilinn álíka lítill og músarungi. Þessi risi meðal gerla hefur hlotið fræðiheitið Thiomargarista namibiensis sem mætti nefna 'brennisteinsperla Namibíu' enda glóir gerillinn fallega líkt og ópalsteinn með bláum og grænum gljáa og gerlarnir vaxa saman í keðju líkt og perlufesti.
Hvað eru til margar tegundir af bakteríum á jörðinni?
Útgáfudagur
20.8.2004
Spyrjandi
Hans Friðrik Guðmundsson, f. 1991
Tilvísun
Jón Már Halldórsson. „Hvað eru til margar tegundir af bakteríum á jörðinni?“ Vísindavefurinn, 20. ágúst 2004, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4472.
Jón Már Halldórsson. (2004, 20. ágúst). Hvað eru til margar tegundir af bakteríum á jörðinni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4472
Jón Már Halldórsson. „Hvað eru til margar tegundir af bakteríum á jörðinni?“ Vísindavefurinn. 20. ágú. 2004. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4472>.