- Hvað eru til margar tegundir af vorflugum á Íslandi og hvenær eru þær mest á ferli?
- Hvað er vorfluga, hvernig lítur hún út og hversu margar tegundir hennar lifa hér á landi?
Vorflugur eru meðalstór skordýr, um 10-20 mm á lengd og með tvö pör af vængjum. Vængirnir hafa fáar þveræðar og þegar flugurnar sitja mynda framvængirnir háreist þak yfir dýrinu að aftanverðu. Fálmararnir eru mjóir og langir og svipaðir að lengd og vængir flugunnar. Flestar vorflugur eru brún- eða gráleitar og vekja ekki mikla athygli. Vorflugur eru skordýr með fullkomna myndbreytingu, það er að segja lífsstigin eru egg, lirfa, púpa og flugan sjálf. Vorflugnalirfur lifa allan sinn aldur í vatni, sumar tegundir í stöðuvötnum, aðrar í ám og lækjum. Lirfurnar finnast í vatni allan ársins hring, Fullorðin dýr fljúga um og eru á þurru en halda sig oftast nálægt ám og vötnum. Flugtíminn fer bæði eftir tegundum og landsvæðum. Sumar tegundir fljúga aðeins á vorin, aðrar (þær sem eru í mýrum) um mitt sumar og enn aðrar frá því í snemma á vorin og fram á haust. Hér á landi eru vorflugur á ferðinni á daginn þegar hlýtt er í veðri og lítill vindur. Vorflugur gegna mikilvægu hlutverki í vistkerfi vatna og eru étnar í miklum mæli af silungum og fuglum. Í heiminum eru um 7000 tegundir vorflugna, en 11 tegundir finnast á Íslandi. Mynd: Les insectes du Québec