Hvernig er lífhringur fiðrilda yfir árið?Fiðrildi eru ættbálkur skordýra sem heitir á latínu Lepidoptera. Lepidoptera þýðir hreisturvængjur, sem vísar til þess að hár á vængjum hafa umbreyst í hreistur. Þetta verða allir varir við sem snerta fiðrildi.
Skipta má fiðrildum í hávængjur (e. butterfly) og lágvængjur (e. moth). Hávængjur, sem einnig hafa verið kallaðar flögrur, reisa vængina lóðrétt upp í loftið en lágvængjur eru þau fiðrildi sem leggja vængina lárétt yfir bolinn. Á Íslandi lifa eingöngu lágvængjur en hávængjur berast hingað með loftstraumum frá Evrópu. Alls eru rúmlega 70 tegundir fiðrilda á Íslandi. Fiðrildi ganga í gegnum fullkomna myndbreytingu, það er að segja lífsstigin eru egg, lirfur, púpur og fiðrildin sjálf. Lirfurnar eru nefndar tólffótungar, en þær hafa 3 pör venjulegra ganglima og breytilegan fjölda fótatota eftir ættum innan fiðrildaættbálksins. Á tólffótungastiginu lifa flestar tegundir fiðrilda á laufblöðum plantna, en til eru tegundir sem éta efni úr dýraríkinu, til dæmis guli fatamölurinn sem lifir á ull og ullarvörum. Púpustigið er það stig þegar myndbreyting á sér stað frá lirfu til fullorðins fiðrildis. Á þessu stigi étur lífveran ekki. Fullorðið fiðrildi hefur ummyndaða munnlimi, rana sem notaður er til að sjúga upp fljótandi blómasykur úr blómum. Um leið frjóvga fiðrildin blómplönturnar. Flest fiðrildi á Íslandi hafa lífsferil sem tekur eitt ár. Oftast klekjast fiðrildi út seinni part sumars eða að hausti og verpa eggjum þar sem vænta má að fæða verði fyrir tólffótungana næsta sumar, til dæmis nálægt brumi trjáa. Eggin klekjast síðan um svipað leyti og brumin springa og fær þá lirfan nóg að éta. Lirfustigið er oftast um einn mánuður, en þá síga tólffótungar sumra tegunda (til dæmis haustfiðrildisins) niður til jarðar og verða að púpum í jarðvegi neðan við tréð eða runnann. Púpustigið varir síðan fram í september eða október hjá haustfiðrildinu, eða í 2-3 mánuði, þegar fullorðna fiðrildið skríður út og nýr lífsferill tekur við. Þar sem tólffótungarnir éta í flestum tilfellum laufblöð trjáa, runna eða gras (grasfiðrildi) eru þeir bundnir við vaxtatíma plantnanna og klekjast úr eggjum um leið og gróður fer að grænka. Það er þó ekki algilt því tegundir fiðrilda eru margar og til eru aðrar gerðir af lífsferlum. Til dæmis er lífsferill gula fatamölsins nokkuð öðruvísi, enda lifa þau dýr innandyra allt árið. Mynd: Af vef Námsgagnastofnunar © Oddur Sigurðsson
Smellið á efnisorðin neðst í svarinu til að lesa meira um fiðrildi á Vísindavefnum.