Í annan stað sekkur mikið af því bergi sem gýs í gosbeltunum undan fargi yngra gosbergs. Blágrýtisstaflinn sem sést á yfirborði á Aust- og Vestfjörðum er hlaðinn úr hraunum sem runnið hafa langt út úr gosbeltum þess tíma, líkt og Þjórsárhraun, Skaftáreldahraun og Eldgjárhraun runnu á nútíma. Aldursgreiningar sýna að aldursbilið milli tveggja aðlægra hrauna í blágrýtisstaflanum er 6.000 til 10.000 ár. Samkvæmt rómuðu líkani Guðmundar Pálmasonar (1973), sem byggt er á rannsóknum Georgs Walker á Austfjörðum, var landsig í miðju gosbeltinu sem myndaði hraunin þar eystra að meðaltali 2,7 km á m.á. Hins vegar benda mælingar á landsigi í gosbeltunum til þess að staðbundið sig geti verið allt að 10 km á m.á. (1 cm á ári). Samkvæmt sama líkani renna um 1,5% hrauna út úr gosbeltinu, nefnilega um 10.000 km3 á 15 m.á., en 635.000 km3 „sukku“ niður í skorpuna (2. mynd). Sennilega er þetta talsvert of hátt hlutfall, því mestu munar um stóru hraunin — af 430 km3 sem talin eru hafa gosið á síðustu 10.000 árum nema þrjú stórgos (Þjórsárhraun, Eldgjárhraun, Lakagígahraun) um 65 km3, eða um 15%.
Í þriðja stað bera straumvötn um 0,025 km3 á ári til sjávar, eða 375.000 km3 á 15 m.á. Á móti kemur landris vegna flotjafnvægishreyfinga — yfirborð landsins helst í sömu hæð að meðaltali, þannig að það sekkur undan fargi en rís að sama skapi ef ofan af því er tekið. Ef eðlisþyngd skorpunnar er 2,8 tonn/m3 og möttulsins undir 3,4 tonn/m3, veldur 1 m rof á yfirborði 2,8/3,4 = 0,82 m landrisi á móti, nefnilega 18 cm eyðast. Landeyðing af þessum sökum er því mismunurinn, um 66.000 km3. Í fjórða stað hefur jökul- og sjávarrof á Austur- og Vesturlandi verið metið 57.000 km3, en landris á móti 47.000 km3, mismunur 10.000 km3. Þetta má taka saman í töflu:
Inn | Út | |
Nýmynduð hraun | 645* | |
Eyðing vegna kólnunar | 432 | |
Eyðing vegna árrofs | 66 | |
Strand- og jökulrof | 10 | |
Sökk hrauna í gosbeltinu | 137* | |
Alls | 645 | 645 |
- Brjóta sjórinn og vindurinn einhvern tímann Ísland niður svo að það verði að engu?
- Hversu gamlir eru mismunandi hlutar Íslands?
- Hvernig myndast sjávarrof við Ísland?
- Hvað er vatnsrof?
- Hvað er jökulrof? Hvernig verður jökulrof og landmótun jökla á Íslandi?
- Er heitur reitur undir Íslandi?
- Guðmundur Pálmason (1973). Kinematics and heat flow in a volcanic rift zone with application to Iceland. Geophys. J Roy. astr. Soc. 26: 515-535.
- Sigurður Steinþórsson (1987). Hraði landmyndunar og landeyðingar. Náttúrufræðingurinn 57: 81-95.