- Á fyrra skeiðinu, frá því á fyrri hluta 10. aldar og fram á síðari hluta 13. aldar, var það sameiginlegt þing íslenska þjóðveldisins og löggjafarsamkoma þess. Lítið er vitað um starfshætti þingsins í fyrstu, en eftir að sæmilega traustar heimildir koma til var þingið sett saman af einum sjö aðgreindum stofnunum. Lögrétta var einkum löggjafarsamkoma. Fjórir fjórðungsdómar dæmdu í málum hver úr sínum landsfjórðungi. Fimmtardómur dæmdi í málum sem ekki tókst að ljúka í fjórðungsdómum, auk þess ýmsum málum sem risu af sjálfu dómstarfinu á þinginu. Loks var Lögberg opinber tilkynningavettvangur.
- Á síðara skeiðinu, frá því að landið kom undir konungsvald á síðari hluta 13. aldar og fram til um 1800, var lögréttan lengst af eina reglulega stofnunin á Alþingi. Hún var einkum dómstóll en lét jafnframt oft í ljós álit sitt á löggjafarmálum, einkum áður en konungseinveldi var leitt í lög á síðari hluta 17. aldar. Á síðari hluta 16. aldar var stofnaður sérstakur yfirdómur á Alþingi.
Eftir því sem best er vitað var Alþingi fyrsta stofnunin sem Íslendingar eignuðust sameiginlega. Á landnámsöld hefur flust hingað fólk frá ólíkum lagaumdæmum í Noregi og frá öðrum löndum. Eins og í öðrum nýbyggðum hefur verið hér sundurleit blanda fólks sem hefur verið vant ólíkum réttarreglum og venjum úr heimkynnum sínum. Það hefur talað ólíkar mállýskur af norrænu og einnig ólík tungumál. Það hefur haft ólíkar sjálfsmyndir; þeir sem komu úr Þrændalögum hafa kallað sig Þrændi, þeir sem komu úr Sogni hafa kallað sig Sygni, þeir sem komu frá Írlandi hafa litið á sig sem Íra. Á Alþingi var þessum ólíku réttarreglum, venjum, mállýskum, tungumálum og sjálfsmyndum stefnt saman. Þar, öllum öðrum stöðum fremur, hefur fólk lært að líta á sig sem Íslendinga. Sagt hefur verið að Alþingi hafi stofnað íslenska þjóð. Auðvitað hefur margt fleira átt hlut að því máli, en óhjákvæmilega hefur Alþingi farið með mikið hlutverk í þeim ferli. Gildi Alþingis fyrir þjóðina má því kalla ómetanlegt. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvenær var Alþingi stofnað? eftir Pál Emil Emilsson og Heiðu Maríu Sigurðardóttur
- Hvaða ár var merkilegast í sögu Íslands? eftir Gunnar Karlsson
- Hvað eru alþingismenn margir? eftir Ingunni Gunnarsdóttur
- Björn Þorsteinsson: Íslenzka þjóðveldið. Reykjavík, Heimskringla, 1953.
- Einar Arnórsson: Réttarsaga Alþingis. Reykjavík, Alþingissögunefnd, 1945 (Saga Alþingis I).
- Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Reykjavík, Mál og menning, 1992.
- Gunnar Karlsson: Iceland's 1100 Yrears. The History of a Marginal Society. London, Hurst, 2000.
- Gunnar Karlsson: "Upphaf þjóðar á Íslandi." Saga og kirkja. Afmælisrit Magnúsar Más Lárussonar (Reykjavík, Sögufélag, 1988), 21–32.
- Saga Íslands I–VI. Samin að tilhlutan Þjóðhátíðarnefndar 1974. Ritstjóri Sigurður Líndal. Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag, 1974–2003.