Lengi fram eftir öldum hikaði fólk við að gefa nafnið María og notaði í þess stað Maríon eða Marín. Nafnið hafði þannig í hugum fólks einhverja trúarlega helgi þar sem María var móðir Jesú. Á 18. öld er síðan farið að gefa nafnið María og það er eitt vinsælasta kvenmannsnafnið í dag.
Þar sem nafnið Jesús er ekki notað sem eiginnafn hérlendis, en aftur á móti víða í kaþólskum löndum, hefur það ekki verið sett á mannanafnaskrá og ósk um slíka nafngjöf yrði að fara fyrir mannanafnanefnd. Vissulega má finna menn í þjóðskrá og í símaskrá sem heita Jesus eða Jesús en þeir hafa fengið nafn erlendis og flutt það með sér hingað til lands.
Beygingu nafnsins var breytt á áttunda áratug síðustu aldar. Fyrir þann tíma var hún þannig:
Nefnifall: Jesús Ávarpsfall: Jesú Þolfall: Jesúm Þágufall: Jesú Eignarfall: JesúÞessa beygingu þekkja flestir sem eru handgengnir Biblíunni frá 1914 og margir muna eftir sálmunum þar sem sungið var:
Ó, þá náð að eiga Jesúm ... og Víst ertu, Jesú [ávarpsfall], kóngur klár... .Nú hefur þessu verið breytt og sungið er:
Ó, þá náð að eiga Jesú ... og Víst ertu, Jesús, kóngur klár...Beygingin nú er:
Nefnifall: Jesús Þolfall: Jesú Þágufall: Jesú Eignarfall: JesúUm nafnalög, mannanafnaskrá og mannanafnanefnd má lesa á slóðinni www.rettarheimild.is/mannanofn