Svampvefurinn liggur undir stafvefnum. Frumur svampvefjar eru ávalar og dreifast óreglulega um vefinn. Þær liggja því ekki eins þétt saman og frumurnar í stafvefnum heldur er loftrúm á milli þeirra. Koltvíoxíð sem berst inn í laufblaði flæðir greiðlega um loftrúmið og inn í frumur svampvefjarins. Neðst er svo neðri yfirhúðin sem hefur vaxlag eins og efri yfirhúð til að draga úr vökvatapi en er frábrugðin að því leyti að þar er mikill fjöldi loftauga. Loftaugu (e. stoma) eru örlítil göt sem hleypa koldíoxíði inn í laufblaðið og vatnsgufu og súrefni út úr því. Svokallaðar varafrumur sjá um að opna og loka loftaugunum. Auk þessa eru viðaræðar og sáldæðar í laufblöðum en þær eru staðsettar í miðju laufblaðsins. Viðaræðarnar flytja vatn og steinefni frá rótum til laufblaða en sáldæðarnar flytja sykrur og önnur fæðuefni sem verða til við ljóstillífun frá laufblöðum til annarra hluta plöntunnar. Á Vísindavefnum er hægt að lesa meira um plöntur og laufblöð, til dæmis í svörunum:
- Er barrnál laufblað? eftir Þröst Eysteinsson
- Hvers vegna verða laufblöðin gul og rauð á haustin? eftir Ólaf Patrick Ólafsson
- Hvernig geta plöntur breytt koltvíoxíði í súrefni? eftir Kesöru Anamthawat-Jónsson
- Á hverju nærast tré? eftir Þröst Eysteinsson
- Roberts, M. B. V. (1988). Lífið. Reykjavík, Mál og menning
- Kimball's Biology Pages
- Digital Frog International