Gert er ráð fyrir en þó ekki gerð krafa um að nemendur hafi minnst lokið fjórum áföngum (12 einingum) í stærðfræði og 5 áföngum (15 einingum) í ensku. Reynslan sýnir þó að betri undirbúningur er mjög til bóta. B.S.-nám í hagfræði og í viðskiptafræði með áherslu á fjármál (val F) reynir meira á kunnáttu í stærðfræði en annað grunnnám og ættu nemendur á því sviði helst að hafa lokið a.m.k. 5 áföngum (15 einingum) í stærðfræði. Það er því ekki nauðsynlegt að hafa útskrifast af stærðfræðibrautum framhaldsskóla. Ekki er heldur nauðsynlegt að hafa lagt stund á viðskiptafræði, hagfræði eða skyldar greinar í framhaldsskóla. En fyrir nemendur sem koma ekki af stærðfræðibrautum er mælt með tveggja vikna undirbúningsnámskeiði í stærðfræði sem er haldið áður en kennsla hefst á haustin. Námskeiðið getur líka verið góð upprifjun fyrir nemendur sem koma af stærðfræðibrautum ef þeir telja að kunnáttan gæti verið betri. Flestar kennslubækur eru á ensku og er því mikilvægt að nemendur eigi auðvelt með að lesa enskan texta. Bækurnar eru oftast ekki á erfiðu máli, en gott getur verið að kaupa eina til tvær kennslubækur og glugga í áður en námið hefst. Með því fæst æfing í því að lesa á ensku og nemendur fá innsýn í hvernig kennslubækurnar eru uppbyggðar og auðveldara er að byrja námið strax af fullum krafti. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver er munurinn á hagfræði og viðskiptafræði? eftir Gylfa Magnússon
- Hvort er betra að fara í viðskiptafræði eða hagfræði ef maður hefur áhuga á að verða löggiltur endurskoðandi? eftir Gylfa Magnússon
- Mega þeir sem hafa B.A.-gráðu í hagfræði ekki kalla sig hagfræðinga, bara þeir sem eru með B.S.-gráðu? eftir Gylfa Magnússon
- Oddi © Bergþór Sigurðsson. Á Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn. Sótt 30.10.2008.