taka við ríkidæmi föður síns.
Þær byrjuðu ekki síðar en rétt fyrir aldamótin 800, meira en hálfri öld áður en Haraldur hárfagri fæddist. Á þeim tíma segir frá árásum norrænna víkinga á klaustur í Englandi; síðar lögðu þeir undir sig lönd á Írlandi, Skotlandi, Mön, Suðureyjar, Orkneyjar, Hjaltland og Færeyjar, áður en þeir náðu til Íslands. Þeir fóru rænandi með vesturströnd Evrópu og inn í Miðjarðarhaf, sóttu suður eftir fljótum Rússlands og réðust jafnvel á sjálfan Miklagarð, höfuðborg Austrómverska keisaradæmisins. Augljóst virðist að rétt sé að telja landnám Íslands hluta af þessari miklu hreyfingu, sem hélt svo áfram til Grænlands og meginlands Norður-Ameríku. Hvað olli þá víkingaferðunum og þar með landnámi Íslands? Á 19. öld var talið að offjölgun fólks á Norðurlöndum væri helsta orsökin, og var hún einkum rakin til þess siðar norrænna karlmanna að geta börn með mörgum konum, vera fleirkvæntir og halda frillur. Á 20. öld varð mönnum ljósara að offjölgun fólks á ákveðnum svæðum veldur sjaldan útrás; flest fólk lifir við skort heima fyrir, deyr út af í hungursneyðum og leysir offjölgunarvandann þannig tímabundið. Því var tekið að leita að jákvæðari orsökum víkingaferða. Giskað var á að kannski hefði þurrara loftslag gert járnvinnslu auðveldari og bætt þannig möguleika fólks á að nota verkfæri til að fá meira út úr náttúrunni. Í austurhéruðum Noregs hefðu menn lagt undir sig meira ræktarland; í þröngum fjörðum vesturstrandarinnar, þar sem þess var ekki kostur, hafi menn smíðað sér skip og vopn og lagt út á hafið. Loks hefur upphaf víkingaferða verið rakið til þess að íslamstrúar Arabar lögðu mikinn hluta Miðjarðarhafsins undir sig á 7. og 8. öld. Við það færðust verslunarleiðir kristinna manna norðar um Evrópu, Norðurlandamenn komust í kynni við millilandaverslun og fóru að smíða sér haffær skip til að geta stundað hana sjálfir. Þessa miklu sæfarendur hlaut fyrr eða síðar að reka vestur yfir Norður-Atlantshafið, þannig að þeir uppgötvuðu Ísland. Að vissu leyti er meira undrunarefni hvers vegna það byggðist ekki löngu fyrr, því ekki munu mörg jafnbyggileg lönd á jörðinni hafa verið óbyggð fólki svo lengi. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvaða vitneskju höfðu erlendar þjóðir um Ísland fyrir landafundi norrænna manna? eftir Gísla Gunnarsson
- Er rökrétt að fullyrða að landnámsmenn á Íslandi hafi verið víkingar? eftir Gunnar Karlsson
- Hvaðan komu víkingarnir og hvaða áhrif höfðu þeir í öðrum löndum? eftir Sverri Jakobsson
- Johannes Brøndsted: Vikingerne. København, Gyldendal, 1960.
- Haraldur Matthíasson: Landið og Landnáma I-II. Reykjavík, Örn og Örlygur, 1982.
- Andreas Holmsen: Norges historie fra de eldste tider til 1660. 3. utg. Oslo, Universitetsforlaget, 1961.
- Íslenzk fornrit I. Íslendingabók. Landnámabók. Jakob Benediktsson gaf út. Reykjavík, Fornritafélag, 1968.
- Wikipedia.is. Sótt 11.8.2010.