Geta mýs og rottur klifrað upp lóðrétta fleti? Þarf maður að óttast að þessi dýr komist inn um opna glugga?Hér er einnig að finna svar við spurningunni:
Eru svartrottur með sogskálar?Af þeim fjórum tegundum nagdýra sem lifa eða hafa fundist hér á landi er svartrottan (Rattus rattus) mesta klifurdýrið. Hinar þrjár tegundirnar: húsamús, hagamús og brúnrotta, eru ekkert sérstaklega duglegar að klifra og geta ekki farið upp veggi nema þar sé mikið af misfellum. Svartrottan er mjög vel útbúin til klifurs. Undir hárlausum iljum hennar eru skorur sem auka mjög grip fótanna. Þetta eru þó ekki sogskálar eins og margir halda heldur djúpar skorur sem hjálpa dýrunum við að halda sér föstum þegar þau klifra. Svartrotturnar eiga afar auðvelt með að klifra upp húsveggi ef leiðsla liggur utan á þeim og einnig fara þær auðveldlega eftir símalínum eða köðlum.
Sé svartrottunni veitt eftirför leitar hún yfirleitt skjóls með því að klifra. Þær svartrottur sem halda til í byggingum finnast oftast á efri hæðum húsa, á þökum eða hanabjálkum. Svartrottur eru ennfremur algengar í trjám og gera sér oft hreiður þar, en slíkt er algerlega óþekkt meðal brúnrottunnar (Rattus norvegicus). Svartrottur fundust fyrst í Reykjavík svo vitað sé árið 1919. Þær eru algengar um borð í skipum og hafa einnig verið kallaðar skiparottur (e. ship rat). Um 1920 var algengt að finna svartrottur um borð í íslenskum togurum sem sigldu með fisk til Grimsby og Hull á Englandi og telja menn að þær hafi borist um borð í skipin frá hafnarsvæðum. Ólíklegt er að svartrottur setjist að hér að landi enda lifir brúnrottan hér og hún hefur nær alltaf betur í samkeppninni um fæðu enda eru hún stærri og sterkari. Hægt er að fræðast meira um rottur á Íslandi í svörum við spurningunum:
- Hvað eru stærstu rotturnar á Íslandi stórar? eftir JMH
- Hvenær varð fyrst vart við rottur á Íslandi? eftir Gunnar Karlsson