- Guðný Pálsdóttir: Hvað er maurildi?
- Unnsteinn Guðmundsson: Maurildi, til hvaða dýrategunda flokkast þau og hver er ástæða fyrir ljósadýrðinni sem þau gefa frá sér?
Maurildi (e. phosphorescence) er ljósfyrirbæri í hafinu sem stafar af lífljómun frá einfrumungum sem nefnast á fræðimáli Noctiluca sem þýðir bókstaflega „næturljós“, á ensku nefnast þeir seasparkle. Þetta eru skoruþörungar (Dinophyceae), einfrumungar af einum ættbálki svipunga (Dinoflagellata). Umdeilt er hvort skoruþörungar tilheyra plöntu- eða dýraríkinu en algengast er setja þá í sérstakt undirríki frumdýra (Protozoa) enda eru þeir ekki frumbjarga, þeir ljóstillífa ekki, heldur lifa á öðrum lífverum. Noctiluca eru með stærstu einfrumungum sem þekkjast í náttúrunni. Algengast er að þvermál þeirra sé 200 - 2.000 µm. Þeir hafa svipur eins og nafn ættbálksins gefur til kynna (og sjá má á myndinni) en hafa ekki kraft til að stjórna ferðum sínum. Í umfrymi þeirra eru loftbólur sem gera þeim kleift að fljóta í efstu lögum sjávarins. Ljósblossinn sem þessir einfrumungar gefa frá sér, verður vegna efnahvarfa fosfórsameinda. Þess má geta að orðið fosfór er komið úr grísku og mætti þýða sem „ljósberi“. Eiginleikar frumefnisins fosfórs birtast í því orði sem og í enska heitinu á maurildi. Efnahvörfin örvast vegna hafróts, til dæmis í brimi og oft má sjá fallega ljósadýrð þessara þörunga þegar skyggja tekur.
Lífljómun af völdum Noctiluca scintillans
Ólíkt flestum öðrum þörungum, eru tegundir ættkvíslarinnar Noctiluca rándýr sem éta smærri einfrumunga, hvort sem um er að ræða aðra þörunga (oftast kísilþörunga) eða smádýr, svo sem árfætlur (krabbaflær, Copepoda). Þær nota svipurnar við veiðar á þessum smáu lífverum. Í fæðubólum Noctiluca má því sjá ýmsar lífverur að meltast, en fæðubólur einfrumunga þjóna svipuðu hlutverki og magar stærri dýra. Einfrumungar þessir fjölga sér með svokallaðri kynlausri æxlun (jafnskiptingu eða mítósu) það er móðurfruman skiptir sér í tvær erfðafræðilega eins dótturfrumur.
Noctiluca scintillans. Smellið til að sjá stærri mynd.
Noctiluca-skoruþörungar eru ekki eitraðir eins og nokkrar tegundir einfruma þörunga hér við land og á hafsvæðum annars staðar á hnettinum. Kunnasta tegundin er Noctiluca scintillans. Hana má finna nánast um allann heim nema á köldustu hafsvæðum heimskautasvæðanna. Einnig má nefna Noctiluca miliaris af sömu ættkvísl skoruþörunga. Heimildir, myndir og frekari fróðleikur:
- Department of Marine Ecology, Göteborg University
- Channel Islands National Marine Sanctuary Online Classrooms
- Marea rossa a falconara da Noctiluca miliaris
- Molecular Expressions
- KINGDOM PROTISTA - Division Dinoflagellata
- Seafriends
- Microscopy-UK: Dinoflagellates
- Oxford English Dictionary á Netinu, leitarorð „phosphorus“ og „noctiluca" (landsaðgangur með notendanafninu iceland og lykilorðinu prioinfo)