Lundahundar eru ættaðir frá Noregi og þar er að finna flesta einstaklinga af þessari tegund. Talið er að aðeins um 1.000 lundahundar séu til og er þetta því eitt sjaldgæfasta hundakyn í heimi. Hundarnir eru 32-38 cm á hæð yfir herðakamb og vega yfirleitt 6-7 kg. Lundahundurinn er líklega langelsta hundakynið á Norðurlöndum. Sumir halda því fram að afbrigðið hafi komið fram fyrir síðasta jökulskeið og tilheyri ekki tömdu hundategundinni Canis familiaris, heldur eldri tegund hundaættarinnar sem nefnist á fræðimáli Canis forus. Rannsóknir hafa gefið slíkum vangaveltum byr undir báða vængi. Vitað er að á víkingatímanum voru lundahundar notaðir bæði við fjárgæslu og fuglaveiðar á nokkrum eyjum í Lófótseyjaklasanum í Norður-Noregi. Vegna þess hversu afskekkt svæðið var, héldust hundarnir arfhreinir fram eftir öldum, líkt og íslenski fjárhundurinn hér á landi.
Lundahundar hafa aukaliðamót í hnakkagróf
og geta beygt höfuðið aftur um 180°.
Lundahundar komust að öllum líkindum fyrst í heimsbókmenntirnar eftir að ítalskur sjómaður, Perro Overini að nafni, strandaði skipi sínu við eina Lófótseyju árið 1432. Hann komst lífs af og hafði þar vetursetu. Þegar heim var komið ritaði hann bók sem vakti athygli manna. Ferðalangar fylgdu í kjölfarið og skrifuðu meðal annars um veiðar á lunda með þessum einstöku hundum en afbrigðið dregur einmitt nafn sitt af lundanum.
Lundahundar geta rétt framfæturna 90° til hliðar.
Norsku lundahundarnir voru lengi vel álitnir jafn verðmætir og góðar mjólkurkýr. Á 16. og 17. öld voru þeir talsvert fluttir út, meðal annars suður til Þýskalands. Vinsældir þeirra minnkuðu snarlega í Norður-Noregi eftir 1850 þegar menn hófu að beita netum og háfum við lundaveiðar. Þar með töpuðu hundarnir meginhlutverki sínu, þeir þóttu óþarfir og voru vanræktir. Á sumum stöðum réðust þeir á sauðfé vegna matarskorts og var sérstakur skattur lagður á eigendur þeirra. Það er helst Norðmanninum Sigurd Skaun að þakka að afbrigiðið er enn við lýði. Skaun var áhugamaður um hundarækt og þegar hann las gamlar greinar um óvenjulega lundaveiðihunda á tveimur eyjum Lófóts, ákvað hann að kanna hvort kynið væri ennþá til. Á eyjunni Værøy fann hann lundahunda sem enn voru notaðir til veiða. Skaun skrifaði grein í tímarit um þetta sjaldgæfa hundakyn árið 1925 og hvatti til ræktunar þess. Smám saman hófust norskir hundaáhugamenn handa við að bjarga kyninu og sérstakt félag um ræktun lundahunda var stofnað í Noregi árið 1962.
- RareBreed Network
- The Viking Answer Lady - hér má lesa um samskipti norrænna manna og dýra á tímum ásatrúar
- Norwegian Puffin Dog the Lundehund
- Breeds of Dogs: Lundehund
- Norwegian Lundehund Club of America
- Heimasíða F.C.I.: Federation Cynologique Internationale - á þessari síðu er að finna lýsingu og ræktunarmarkmið hvers hundakyns í hlekkjum í hægri dálki
Fjölmörg svör er að finna á Vísindavefnum um hunda og hundaafbrigði sem nálgast má með því að smella á efnisorðin neðst í svarinu. Áhugaverð svör eftir sama höfund: