Vegalengdin sem dekkið fer í einum snúningi ræðst af virkum geisla eða radía dekksins, það er að segja fjarlægðinni frá miðju öxuls eða snúningsáss niður á veginn. Ef geislinn er r þá er þessi vegalengd
s = 2 p rþar sem p (pí) er óræð tala sem er nálægt brotinu 22/7, samanber önnur svör hér á Vísindavefnum um þessa tölu. En geislinn er auðvitað þeim mun lengri sem meira loft er í dekkinu og því fer dekkið þá lengri leið í hverjum snúningi. Ef snúningarnir eða umferðirnar eru margar þá margfaldast vegalengdin með fjölda þeirra. Ef tvö dekk fara sömu vegalengd en minna loft er í öðru, þá er geisli þess líka minni og það þarf að snúast fleiri snúninga. Slíkt getur vel gerst á bílum án þess að við tökum sérstaklega eftir því, meðal annars vegna svokallaðs mismunadrifs sem gerir það að verkum að tvö dekk sem eru að öðru leyti á sama öxli geta snúist mishratt. Á venjulegum heilum kerruöxli er þetta hins vegar ekki hægt nema með því að annað hjólið renni til á undirlaginu. Mismunadrif er nauðsynlegt á bílum til þess að þeir þurfi ekki að missa veggripið í beygjum. Hjólið sem er utar í beygjunni fer lengri leið en hitt og þarf því að geta snúist lengra eða meira en innra hjólið. Mynd af dekkjum: Studless tire 1.jpg á Wikipedia, the free encyclopedia