Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Samkvæmt grískri goðafræði var Karon ferjumaður sem flutti sálir látinna yfir fljótið Akkeron til undirheima, stundum sá hann um að ferja hina dauðu yfir fljótið Stýx.
Til forna tíðkaðist það að setja pening undir tungurót látinna til að þeir gætu greitt Karoni ferjutoll. Þeir sem höfðu ekki fengið tilhlýðilega útför áttu á hættu að reika um bakka Akkeronsfljóts í heila öld áður en Karon ferjaði þá yfir.
Karon rekur sálir látinna yfir í Hadesarheim eftir að hafa siglt yfir Akkeron. Hluti af verki Michelangelos í Sixtínsku kapellunni í Róm.
Akkeron var eitt af nokkrum fljótum Hadesarheims, hin fljótin nefndust til forna Stýx, Kókýtus, Flegeþon, Píriflegeþon og óminnisfljótið Leþe en úr því drukku sálir hinna látnu og gleymdu þá um leið sinni jarðlegu tilvist. Flegeþon og Píriflegeþon voru logandi eldfljót og stundum var talið að þau rynnu í Akkeron.
Í hinum Guðdómlega gleðileik eftir ítalska skáldið Dante (1265-1321) renna nokkur af undirheimafljótum Grikkja og Rómverja. Efst er Akkeron sem afmarkar hinn jarðneska heim frá víti og þar siglir Karon á ferju sinni. Nokkuð neðar er Stýx sem í meðförum skáldsins er mýrarfen frekar en fljót. Lýsing Dantes á Stýx er fengin úr Eneasarkviðu rómverska gullaldarskáldsins Virgils en hann er einnig leiðsögumaður skáldsins um undirheima.
Þriðja áin sem Dante og Virgill koma að er Flegeþon sem er logandi blóðfljót og þar er harðstjórum og morðingjum refsað.
Hluti af mynd eftir málarann Joachim Patinir (um 1485-1524) af Karoni að sigla yfir Stýx. Hér sést að Patinir ímyndar sér Styx sem fljót en ekki sem mýri.
Neðst í víti Dantes er hið ísilagða lón Kókýtus en þangað renna öll undirheimafljótin. Í lóninu liggja svikarar frosnir í ísnum og ber þar hæstan erkisvikarann Lúsífer sem sér um að stífla lónið. Hann blakar ógnarstórum vængjunum og lætur ískalda vinda leika um lónið svo allt frýs. Í Kókýtusarlóni eru einnig Júdas sem sveik Jesú og Brútus og Kassíus sem sviku Sesar. Örlög þessara þriggja eru að vísu heldur verri en annarra svikara, í stað þess að liggja frosnir í lóninu er þeim komið fyrir í kjafti Lúsífers sem tyggur þá.
Samkvæmt hinum Guðdómlega gleðileik er uppsprettu undirheimafljótanna að finna á Iðafjalli á eynni Krít. Þar er líkneski af hrumum öldungi og úr skurðum og sárum á líkneskinu renna tár gamla mannsins og mynda undirheimafljótin. Dante sótti líkinguna á öldungnum á Krít til Daníelsbókar (2:31-35) í Biblíunni. Höfuð líkneskisins sem er úr gulli er það eina sem grætur ekki enda táknar það gullöld mannsins fyrir syndafallið. Brjóst og handleggir eru úr silfri, búkurinn úr látúni, annar fóturinn er úr járni en hinn er gerður af leiri. Tárin sem mynda undirheimafljótin tákna syndir og sorgir mannkynsins.
Ferjumanninum Karoni var yfirleitt lýst sem þrekmiklum öldungi sem gat verið frekar skapstyggur. Hann átti meðal annars að gæta þess að lifandi menn kæmust ekki til undirheima og var eitt sinn refsað fyrir að hafa hleypt Heraklesi yfir fljótið í leyfisleysi. Ef lifandi menn komu með hina gullnu grein fengu þeir leyfi til að heimsækja hina látnu.
Nokkrir kunnir kappar úr goðsögum fóru til undirheima í lifandi lífi, meðal annars:
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað er vitað um ferjumanninn Karon í grískri goðafræði?“ Vísindavefurinn, 6. ágúst 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3639.
Jón Gunnar Þorsteinsson. (2003, 6. ágúst). Hvað er vitað um ferjumanninn Karon í grískri goðafræði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3639
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað er vitað um ferjumanninn Karon í grískri goðafræði?“ Vísindavefurinn. 6. ágú. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3639>.