Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Í hvaða skáldsögu koma fyrir flest nöfn á ám eða fljótum?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Það er óhætt að fullyrða að flest nöfn á ám eða fljótum komi fyrir í skáldsögu James Joyce Finnegans Wake. Gagnrýnendur telja að í fjórða og síðasta hluta bókarinnar, svonefndum Anna Livia Plurabelle-kafla, séu á bilinu 800 til 1.100 heiti á ám. Nákvæmasta talningin hljóðar upp á 1.036 fljótanöfn, ef mismunandi heiti yfir sömu á eru talin sem eitt og endurtekningum er sleppt.

Margir Joyce-fræðingar halda því fram að verk Shakespeares séu rauði þráðurinn í Finnegans Wake. Alls er að finna um 300 vísanir til Shakespeares og verka hans í þessu 628 blaðsíðna verki sem Joyce vann að í 17 ár og gaf út árið 1939. Höfundarverk Shakespeares er þessi vegna mikilvægur undirtexti (e. subtext) í verki Joyce.

Bandaríkjamaðurinn Robert H. Boyle er þó á öðru máli. Hann heldur því fram að vísanir í verk enska skáldsins gegni litlu hlutverki í þessari einkennilegu sögu James Joyce. Boyle bendir á að fjöldi vísana til vatna, fljóta og fiska yfirgnæfi algjörlega vísanir í verk Shakespeares. Fyrir utan rúmlega 1.000 nöfn á ám segist Boyle hafa fundið um 1.200 aðrar vísanir til fiska og vatna í verkinu.

Hlutur Shakespeares í Finnegans Wake er þess vegna rýr miðað við veröld fiskanna. Boyle hefur reiknað það út að meðaltali sé 0,48 vísun á hverri síðu Finnegans Wake í verk Shakespeares en hvorki meira né minna en þrjár og hálf vísun á síðu til vatna, fljóta og fiska. Að auki bendir Boyle á það að orðið ‘fin’ sem merkir uggi komi fyrir alls 25 sinnum í bókinni, fyrir utan öll skiptin sem það birtist í orðinu Finnegan. Boyle fullyrðir þess vegna að verk Shakespeares séu alls ekki rauði þráðurinn í texta Joyce heldur beri að líta á Finnegans Wake sem hina merkustu bók um stangveiði, nánar tiltekið með flugustöng!

Upptalningar af ýmsu tagi eru alls ekki óþekktar í skáldskap. Í Ilíonskviðu gríska skáldsins Hómers er svonefnt „Skipatal“ meginuppistaða annars þáttar kviðunnar. Þar er löng og nákvæm skrá yfir þátttakendur í herferðinni til Tróju og tölu skipa þeirra. Upptalningin minnir nokkuð á ættartölur í upphafi margra Íslendingasagna. Ýmsir telja að „Skipatalið“ í Ilíonskviðu sé forn og frumstæður skáldskapur, eldri en kviðan sjálf. Í sögunni Gargantúi og Pantagrúll eftir François Rabelais (1484-1553) er annar kunnur upptalningakafli í bókmenntasögunni. Þar eru í einni bendu talin upp nöfn á 217 leikjum. Nöfn á ám og fljótum í Finnegans Wake fylgja þessari hefð, en þó er sá munur á að Joyce spinnur nöfnin inn í textann í stað þess að telja þau upp í einni bunu.

Finnegans Wake er ekki auðveldur texti í lestri. Samtök í New York sem kenna sig við bókina birta á heimasíðu sinni lista um fjölda hjálpartexta sem auðvelda mönnum að lesa bókina. Gagnrýnendur sem hafa reynt að draga saman efni bókarinnar í nokkrum orðum telja að henni sé best lýst á þann hátt að hún sé skráning á draumkenndum hugsunum manns sem gengur undir nafninu Humphrey Chimpden Earwicker. Sumir gagnrýnendur telja þó að aðalpersónan heiti líklega Porter.

Ein útskýring á fjölda fljótanafna í Finnegans Wake felst í þeim orðum skáldsins sjálfs að einhvern tíma myndi drengur eða lítil stúlka í Tíbet eða Sómalíu, sem læsu bókina, gleðjast innilega þegar þau sæju þar nafnið á ánni sem rennur fyrir neðan litla þorpið þeirra.


Hér eru sautján nöfn á fljótum sem koma fyrir í Finnegans Wake:

  • Yse í Hollandi
  • Limmat í Sviss
  • Sankh á Indlandi
  • Giguela á Spáni
  • Minho í Portúgal
  • Skollis á Grikklandi
  • Honddu í Wales
  • Sonora í Mexíkó
  • Nuble í Chile
  • Isonzo á Ítalíu
  • Sittang í Búrma
  • Drammen í Noregi
  • Rima í Nígeríu
  • Hail í Arabíu
  • Yangtze í Kína
  • Olt í Rúmeníu
  • Maritz í Búlgaríu.

Heimildir og mynd

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

16.12.2002

Spyrjandi

Ármann Jónsson

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Í hvaða skáldsögu koma fyrir flest nöfn á ám eða fljótum?“ Vísindavefurinn, 16. desember 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2961.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2002, 16. desember). Í hvaða skáldsögu koma fyrir flest nöfn á ám eða fljótum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2961

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Í hvaða skáldsögu koma fyrir flest nöfn á ám eða fljótum?“ Vísindavefurinn. 16. des. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2961>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Í hvaða skáldsögu koma fyrir flest nöfn á ám eða fljótum?
Það er óhætt að fullyrða að flest nöfn á ám eða fljótum komi fyrir í skáldsögu James Joyce Finnegans Wake. Gagnrýnendur telja að í fjórða og síðasta hluta bókarinnar, svonefndum Anna Livia Plurabelle-kafla, séu á bilinu 800 til 1.100 heiti á ám. Nákvæmasta talningin hljóðar upp á 1.036 fljótanöfn, ef mismunandi heiti yfir sömu á eru talin sem eitt og endurtekningum er sleppt.

Margir Joyce-fræðingar halda því fram að verk Shakespeares séu rauði þráðurinn í Finnegans Wake. Alls er að finna um 300 vísanir til Shakespeares og verka hans í þessu 628 blaðsíðna verki sem Joyce vann að í 17 ár og gaf út árið 1939. Höfundarverk Shakespeares er þessi vegna mikilvægur undirtexti (e. subtext) í verki Joyce.

Bandaríkjamaðurinn Robert H. Boyle er þó á öðru máli. Hann heldur því fram að vísanir í verk enska skáldsins gegni litlu hlutverki í þessari einkennilegu sögu James Joyce. Boyle bendir á að fjöldi vísana til vatna, fljóta og fiska yfirgnæfi algjörlega vísanir í verk Shakespeares. Fyrir utan rúmlega 1.000 nöfn á ám segist Boyle hafa fundið um 1.200 aðrar vísanir til fiska og vatna í verkinu.

Hlutur Shakespeares í Finnegans Wake er þess vegna rýr miðað við veröld fiskanna. Boyle hefur reiknað það út að meðaltali sé 0,48 vísun á hverri síðu Finnegans Wake í verk Shakespeares en hvorki meira né minna en þrjár og hálf vísun á síðu til vatna, fljóta og fiska. Að auki bendir Boyle á það að orðið ‘fin’ sem merkir uggi komi fyrir alls 25 sinnum í bókinni, fyrir utan öll skiptin sem það birtist í orðinu Finnegan. Boyle fullyrðir þess vegna að verk Shakespeares séu alls ekki rauði þráðurinn í texta Joyce heldur beri að líta á Finnegans Wake sem hina merkustu bók um stangveiði, nánar tiltekið með flugustöng!

Upptalningar af ýmsu tagi eru alls ekki óþekktar í skáldskap. Í Ilíonskviðu gríska skáldsins Hómers er svonefnt „Skipatal“ meginuppistaða annars þáttar kviðunnar. Þar er löng og nákvæm skrá yfir þátttakendur í herferðinni til Tróju og tölu skipa þeirra. Upptalningin minnir nokkuð á ættartölur í upphafi margra Íslendingasagna. Ýmsir telja að „Skipatalið“ í Ilíonskviðu sé forn og frumstæður skáldskapur, eldri en kviðan sjálf. Í sögunni Gargantúi og Pantagrúll eftir François Rabelais (1484-1553) er annar kunnur upptalningakafli í bókmenntasögunni. Þar eru í einni bendu talin upp nöfn á 217 leikjum. Nöfn á ám og fljótum í Finnegans Wake fylgja þessari hefð, en þó er sá munur á að Joyce spinnur nöfnin inn í textann í stað þess að telja þau upp í einni bunu.

Finnegans Wake er ekki auðveldur texti í lestri. Samtök í New York sem kenna sig við bókina birta á heimasíðu sinni lista um fjölda hjálpartexta sem auðvelda mönnum að lesa bókina. Gagnrýnendur sem hafa reynt að draga saman efni bókarinnar í nokkrum orðum telja að henni sé best lýst á þann hátt að hún sé skráning á draumkenndum hugsunum manns sem gengur undir nafninu Humphrey Chimpden Earwicker. Sumir gagnrýnendur telja þó að aðalpersónan heiti líklega Porter.

Ein útskýring á fjölda fljótanafna í Finnegans Wake felst í þeim orðum skáldsins sjálfs að einhvern tíma myndi drengur eða lítil stúlka í Tíbet eða Sómalíu, sem læsu bókina, gleðjast innilega þegar þau sæju þar nafnið á ánni sem rennur fyrir neðan litla þorpið þeirra.


Hér eru sautján nöfn á fljótum sem koma fyrir í Finnegans Wake:

  • Yse í Hollandi
  • Limmat í Sviss
  • Sankh á Indlandi
  • Giguela á Spáni
  • Minho í Portúgal
  • Skollis á Grikklandi
  • Honddu í Wales
  • Sonora í Mexíkó
  • Nuble í Chile
  • Isonzo á Ítalíu
  • Sittang í Búrma
  • Drammen í Noregi
  • Rima í Nígeríu
  • Hail í Arabíu
  • Yangtze í Kína
  • Olt í Rúmeníu
  • Maritz í Búlgaríu.

Heimildir og mynd...