Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Olía er fitukennt efni, yfirleitt fljótandi við herbergishita og leysist ekki í vatni. Henni er skipt í þrjá meginflokka: órokgjarnar olíur (jurtaolíur og lýsi), ilmolíur og jarðolíu. Jarðolía (hráolía) er seigfljótandi vökvi, dökkgrænn eða brúnleitur á litinn, margþætt blanda miðlungsþungra og eldfimra kolvatnsefna (kolvetna), meðal annars brennisteins, köfnunarefnis og súrefnis.
Flestir jarðfræðingar eru sammála um að jarðolía hafi myndast úr plöntu- og dýraleifum sem einkum hafa safnast saman á sjávarbotni, enda er hana nær eingöngu að finna í sjávarseti, oft í tengslum við saltmyndanir. Plöntuleifar í kolum benda eindregið til uppruna þeirra, en í jarðolíu eru engir steingervingar og þar að auki finnst hún aldrei í þeim jarðlögum þar sem hún hefur myndast. Líklega er hún fyrst og fremst mynduð úr leifum sviflífvera sem hafa fallið til botns og safnast fyrir í leirkenndu botnseti.
Leifarnar hafa síðan tekið ýmsum efnabreytingum í setlögunum fyrir tilstuðlan gerla og hvata, vaxandi þunga efri jarðlaga og hækkandi hitastigs. Jarðlagafargið þrýsti olíunni úr setlögunum sem hún myndaðist í, hún leitaði upp á við eftir sprungum og gropnum jarðlögum, til dæmis kalksteini eða sandsteini, og safnaðist síðan fyrir undir þéttum jarðlögum sem hún komst ekki í gegnum. Þess vegna menga olíulindir í sjónum ekki út frá sér.
Fyrsti olíuborinn í Titusville, Pennsylvaníufylki í Bandaríkjunum
Jarðolía hefur verið notuð að minnsta kosti frá því á fjórða árþúsundi f. Kr., en þá nýttu Súmerar hana við múrsteinagerð. Um miðja 19. öld (1859) hófst hins vegar olíuvinnsla í stórum stíl þegar farið var að bora eftir henni í Titusville í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Olíunotkun hefur á undanförnum árum verið um og yfir 40% af allri orkunotkun í heiminum, einkum á sviði samgangna, iðnaðar og upphitunar. Heimsframleiðsla jarðolíu árið 2000 var um 75 milljónir tunna á dag (27 milljarðar á ári). Þá hafði olíuframleiðsla vaxið um allt að því 1,5% á ári í nokkur ár, en raunar gera Samtök olíuútflutningsríkja, OPEC, ráð fyrir að framleiðslan verði komin í um 100 milljónir tunna á dag árið 2020.
Um það bil 90% af allri jarðolíu sem nú er dælt upp úr jörðinni, kemur frá færri en 30 olíusvæðum. Mestu framleiðslulöndin eru Sádi-Arabía með 8 milljónir tunna á dag, Bandaríkin með 6,5 milljónir, Rússland með 5,9 milljónir, Íran með 3,5 milljónir tunna og Kúveit með svipað magn. Gera má ráð fyrir að Írakar auki verulega framleiðslu sína á næstu árum.
Olíubor í austanverðri Sádí-Arabíu
Flestum er ljóst að olíubirgðir í jörðu eru takmarkaðar því að olía er ekki endurnýjanleg orkulind. Samkvæmt upplýsingum frá OPEC, er talið að olíubirgðir í jörðu séu nú alls um 1.000 milljarðar tunna. Þar á Sádi-Arabía mest, um 260 milljarða tunna, Írak um 110 milljarða, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Kúveit 95 milljarða tunna hvort um sig, Íran 92 milljarða, Venesúela 66 milljarða, Rússland 49 milljarða, Mexíkó 27 milljarða, Kína 24 milljarða, Bandaríkin 23 milljarða, Kasakstan 14 milljarða og Noregur 10 milljarða tunna. Önnur ríki eiga minni birgðir í jörðu.
Hefð er fyrir því að mæla jarðolíumagn í tunnum en hver olíutunna tekur 159 lítra. Ef upplýsingar OPEC standast, eru því um 159.000 milljarðar lítra til af olíu í jörðu.
Samkvæmt mati OPEC ættu þessar birgðir að endast í um 80 ár miðað við núverandi notkun. Hins vegar má benda á að hér er um álit seljanda að ræða, en ýmis umhverfissamtök eru ekki eins bjartsýn og telja að olía í jörðu muni aðeins endast í 40-50 ár, sem er vissulega mun styttri tími. Á síðustu árum hafa nýfundin olíusvæði gefið af sér um það bil fjórðung af olíuframleiðslunni.
Allt virðist því benda til þess að á næstu áratugum verði reynt að finna nýja orkugjafa sem geta komið í stað olíunnar. Meðan hún er ódýrasti kosturinn verður það þó líklega ekki gert af fullum krafti fyrr en verðið hefur hækkað talsvert vegna þverrandi birgða í jörðu og þar af leiðandi minna framboðs.
Myndir:
Leifur A. Símonarson. „Hversu margir lítrar af olíu eru til í heiminum?“ Vísindavefurinn, 28. júlí 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3616.
Leifur A. Símonarson. (2003, 28. júlí). Hversu margir lítrar af olíu eru til í heiminum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3616
Leifur A. Símonarson. „Hversu margir lítrar af olíu eru til í heiminum?“ Vísindavefurinn. 28. júl. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3616>.