- með því að drekka það
- úr fæðu
- með lífefnafræðilegum leiðum, það er að segja við oxun á fitu eða kolvetni.
Rannsóknir á selum og sæljónum benda til þess að fyrir utan að fá vatn úr fæðunni og í gegnum oxun á fitum og kolvetni, þá drekki þau einnig sjó. En hversu algengt það er meðal annarra sjávarspendýra vita líffræðingar ekki enda afar erfitt að fylgjast með slíku hátterni. Saltstyrkur í blóði og öðrum líkamsvessum sjávarspendýra er svipaður og hjá landspendýrum og öðrum hryggdýrum, eða um þriðjungur af saltstyrk sjávar. Það þýðir að þessi dýr drekka vökva sem er þrisvar sinnum mettaðri af salti en vökvinn í líkama þeirra. Slík neysla yrði öllum venjulegum landspendýrum (þar meðtöldum mönnum) að fjörtjóni. Mælingar á þvagi sela hafa leitt í ljós að saltstyrkur þess er allt að 2,5 sinnum meiri en sjávarins og 7-8 sinnum meiri en í blóði þeirra. Það bendir til að galdurinn sem gerir þessum sjávarspendýrum kleift að drekka sjó, liggi í lífeðlisfræði nýrnanna. Í nýrum spendýra fer vökva- og saltstjórnun fram í tveimur skrefum. Í fyrsta lagi rennur blóðið um svæði sem fínhreinsar það, svonefnda æðhnoðra (glomeruli). Smáar sameindir, svo sem sölt og vökvasameindir, síast úr blóðinu en stærri sameindir, til dæmis prótín og rauð blóðkorn, halda áfram ferðinni. Næst gengur hreinsaði blóðvökvinn inn í langa rás sem nefnd er nýrungslykkja eða sveigpípla (e. loop of Henle). Þar mest allt vatn sem eftir er sogað upp og afgangsvökvinn verður þeim mun saltari og fer úr líkamanum sem þvag. Kenningin sem hvað vinsælust er varðandi drykkju sjávarspendýra á söltum sjó, gerir ráð fyrir að þau hafi lengri nýrungslykkju og geti því sogað upp meira vatn en landspendýr. Nefna má að í rannsóknum á selum hefur komið fram að þeir gleypa talsvert af snjó til að ná í ferskt vatn. Slíkt er ekki mögulegt fyrir allar selategundir þar sem sumar þeirra lifa á svæðum þar sem aldrei fellur snjór. Heimildir og mynd:
- Eckert, R. ofl. 1988. Animal Physiology: Mechanisms and Adaptation. W.H. Freeman and Company. Boston
- www.kafarinn.is