og alnafni lét reisa um aldamótin 1800.
Þórdís og Sigurður voru bæði af prestum komin. Faðir Þórdísar var séra Jón Ásgeirsson, prestur á Mýrum í Dýrafirði og síðar á Holti í Önundarfirði. Móðir hennar hét Þorkatla Magnúsdóttir. Heimildir greinir á um hvar Þórdís fæddist árið 1772, Mýrar í Dýrafirði er líklegasti staðurinn en einnig hefur bærinn Gerðhamrar í sama firði verið nefndur. Þórdís lést 1862 á Steinanesi í Arnarfirði, en þangað höfðu hjónin flust til dóttur sinnar Margrétar árið 1851. Foreldrar séra Sigurðar voru Ingibjörg Ólafsdóttir og séra Jón Sigurðsson. Sigurður fæddist á Stað á Snæfjallaströnd þar sem faðir hans var prestur, árið 1777. Jón Sigurðsson eldri tók við Hrafnseyrarsókn 1786 og Sigurður var vígður aðstoðarprestur föður síns 1802. Jón Sigurðsson eldri lést árið 1821 og færðist prestsembættið þá yfir á herðar Sigurðar. Sigurður var gerður að prófasti Ísafjarðarprófastsdæmis 15 árum síðar, árið 1836. Hjónin Þórdís og Sigurður hættu búskap árið 1851 og settust að hjá dóttur sinni Margréti, eins og áður er nefnt, að Steinanesi. Þar lést Sigurður 1855. Þau hjón eru jarðsett í Otradalskirkjugarði í Vestur-Barðastrandarsýslu en Steinanes er nyrsti bær þeirrar sýslu. Margrét sjálf hvílir hins vegar að Hrafnseyri Þess má geta að Jón Sigurðsson „forseti“ var skírður í höfuðið á móðurafa sínum Jóni Ásgeirssyni sem lést árið áður en Jón fæddist. Heppileg tilviljun réði því að hann varð við það alnafni hins afa síns. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Fyrir framan hvaða byggingu stóð minnisvarðinn um Jón Sigurðsson upphaflega? eftir Hallgrím Sveinsson
- Hver var röksemdafærsla Jóns Sigurðssonar fyrir aukinni sjálfstjórn Íslendinga? eftir Pál Björnsson
- Hvenær sagði Jón Sigurðson hin frægu orð "ég mótmæli þá í nafni konungs og þjóðarinnar því ranglæti sem haft væri í frammi"? eftir Helgu Láru Guðmundsdóttur
- Hvað voru Ný félagsrit? eftir Sverri Jakobsson
- Guðjón Friðriksson, Jón Sigurðsson: Ævisaga, Mál og menning, Reykjavík 2002
- Hrafnseyri við Arnarfjörð
- Íslendingabók