Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er eða hefur verið líf á reikistjörnunni Mars?

Þorsteinn Þorsteinsson

Hugmyndir manna og kenningar um líf á Mars hafa tekið sífelldum breytingum með aukinni þekkingu á hnettinum. Í upphafi 20. aldar var ákaft rætt um kenningar Percivals Lowells, sem skoðaði Mars í sjónauka um árabil og taldi sig hafa greint viðamikið net skurða á yfirborði hnattarins. Ályktaði hann að vitsmunaverur hefðu grafið skurðina sem þjónuðu þeim tilgangi að flytja bræðsluvatn frá heimskautajöklunum til uppþornaðra svæða nær miðbaug. Um 1910 komu fram vandaðri kort af yfirborði Mars og var þessari kenningu þá hafnað af þorra vísindamanna, en lengi eimdi eftir af henni í margs konar skáldskap.

Fram yfir 1960 ræddu menn möguleika á að gróður gæti þrifist á Mars, því að ýmsir athugendur höfðu veitt athygli litarbreytingum sem virtust færast yfir hluta hnattarins að sumarlagi. Sumum sýndist jafnvel svæði þessi taka á sig grænan lit, en síðan kom í ljós að sáralítið súrefni er í andrúmslofti hnattarins (minna en 0,1%). Þótti þá víst að þetta gætu ekki verið grænar plöntur. Og um 1965 var ljóst orðið að litarbreytingarnar stöfuðu af miklum stormum sem þyrluðu upp ryki af yfirborði. Rykið var um tíma á sveimi í andrúmsloftinu en féll síðan á yfirborðið á ný og breytti lit þeirra svæða sem það settist á.

Árið 1976 lentu tvö könnunarför, Viking 1 og 2, á yfirborði Mars og gerðu þar jarðvegskönnun. Með tækjabúnaði um borð var gerð leit að ummerkjum um frumstætt líf og gáfu fyrstu tilraunir óvæntar niðurstöður. Bætt var næringarefnum í jarðvegssýni og virtist þá eiga sér stað upptaka, sem skýra mætti með tilvist örvera. Nánari rannsókn leiddi þó í ljós að í jarðveginum voru engar lífrænar sameindir, auk þess sem talið var að ólífræn efnahvörf gætu skýrt niðurstöður tilraunanna. Flestir vísindamannanna, sem að rannsóknum þessum komu, drógu því að lokum þá ályktun að lífverur gætu ekki þrifist í jarðvegi á Mars um þessar mundir.

Hugmyndir manna og kenningar um líf á Mars hafa tekið sífelldum breytingum með aukinni þekkingu á hnettinum.

Árið 1983 var rannsakaður loftsteinn sem fundist hafði á jaðri Suðurskautsjökulsins. Náð var sýnum af lofttegundum sem lokast höfðu inni í bólum í steininum og kom þá í ljós að hlutföll neons, argons, kryptons og xenons, auk tiltekinna samsætuhlutfalla þessara lofttegunda, voru samskonar og Viking-lendingarförin höfðu greint í andrúmslofti Mars nokkrum árum fyrr. Þetta var talin örugg sönnun þess að steinninn væri ættaður frá Mars og hafa nú alls fundist 12 loftsteinar af þessu tagi á yfirborði jarðar. Þar með opnaðist leið til könnunar á sýnum frá yfirborði nágrannahnattarins, án þess að senda þyrfti þangað geimför.

Einn þessara Marssteina fannst árið 1984 á Suðurskautsjöklinum og hefur vakið sérstaka athygli fyrir það að leiddar hafa verið líkur að því að í honum séu ummerki um líf á Mars fyrir nokkrum milljörðum ára. Er fjallað nánar um þetta mál í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er nú vitað um lofsteininn frá Suðurskautslandinu sem talinn var bera með sér merki um líf á Mars? Þar kemur meðal annars fram að rökin fyrir ummerkjum um líf í steininum eru hvorki óyggjandi né óumdeild.

En þó að þarna skorti nokkuð á vissu er hitt víst að sjálf spurningin um líf á Mars fyrr eða síðar hefur fengið byr undir báða vængi við þessar uppgötvanir. Hún er nú rædd af áhuga og alvöru á ný. Lífvænlegt er að vísu ekki á hnettinum um þessar mundir því að meðalhiti á yfirborði hans er um -58oC, sáralítið súrefni er í andrúmslofti og geimgeislar og útfjólublátt ljós eiga greiða leið að yfirborði. Lengst af hefur verið talið að ekkert vatn er í fljótandi formi væri að finna á yfirborðinu, en í september 2015 staðfestu vísindamenn hjá Nasa að fundist hafi árstíðabundið rennandi vatn á ákveðnum stöðum. Stöðuvötn gætu verið undir heimskautajöklum hnattarins og hugsanlegt er að jarðhiti bræði klaka í jarðvegi og þar með eru komin skilyrði þess að frumstæðar lífverur gætu þrifist.

En einkum horfa menn til þess tímabils snemma í sögu hnattarins, er vatn var á yfirborði og andrúmsloft þykkara en nú er. Þá ættu lífsskilyrði að hafa verið betri og er leitin að steingerðum leifum lífvera, sem þá kynnu að hafa þróast á Mars, einn aðalhvatinn að hinni rækilegu könnun hnattarins sem fyrirhuguð er á næstu áratugum.

Helstu heimildir og mynd:
  • D.S. McKay og 8 aðrir höfundar. "Search for Past Life on Mars: Possible Relic Biogenic Activity in Martian Meteorite ALH84001." Science, Vol. 273, 924-930.
  • The Planetary Report, janúar-febrúar 1997: Ýmsar fróðlegar og læsilegar greinar um Marssteininn og hina ítarlegu könnun hans. Auk þess fleiri greinar í sama tímariti.
  • Mynd: PIA02405.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 2. 10. 2015).

Vísindavefnum hafa borist nokkrar spurningar varðandi möguleika á lífi á Mars í nútíð og fortíð. Spurningarnar hljóða svo:

  • Er líf á Mars? Ef svo er hvernig lífverur lifa þar? Íris Björk Símonardóttir
  • Er möguleiki að smáörverur þrífist í andrúmslofti sem ríkir á Mars? (Er líf á Mars? Þá hvernig líf?) Ólafur Kári Sigurbjörnsson
  • Var einhvern tímann líf á Mars? Arnar Jan Jónsson, f. 1988

Höfundur

jarðeðlisfræðingur við Raunvísindastofnun

Útgáfudagur

18.4.2000

Spyrjandi

Íris Björk Símonardóttir,
Ólafur Kári Sigurbjörnsson
og Arnar Jan Jónsson
Pedro Hrafn Martinez, f. 1994

Tilvísun

Þorsteinn Þorsteinsson. „Er eða hefur verið líf á reikistjörnunni Mars?“ Vísindavefurinn, 18. apríl 2000, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=349.

Þorsteinn Þorsteinsson. (2000, 18. apríl). Er eða hefur verið líf á reikistjörnunni Mars? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=349

Þorsteinn Þorsteinsson. „Er eða hefur verið líf á reikistjörnunni Mars?“ Vísindavefurinn. 18. apr. 2000. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=349>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er eða hefur verið líf á reikistjörnunni Mars?
Hugmyndir manna og kenningar um líf á Mars hafa tekið sífelldum breytingum með aukinni þekkingu á hnettinum. Í upphafi 20. aldar var ákaft rætt um kenningar Percivals Lowells, sem skoðaði Mars í sjónauka um árabil og taldi sig hafa greint viðamikið net skurða á yfirborði hnattarins. Ályktaði hann að vitsmunaverur hefðu grafið skurðina sem þjónuðu þeim tilgangi að flytja bræðsluvatn frá heimskautajöklunum til uppþornaðra svæða nær miðbaug. Um 1910 komu fram vandaðri kort af yfirborði Mars og var þessari kenningu þá hafnað af þorra vísindamanna, en lengi eimdi eftir af henni í margs konar skáldskap.

Fram yfir 1960 ræddu menn möguleika á að gróður gæti þrifist á Mars, því að ýmsir athugendur höfðu veitt athygli litarbreytingum sem virtust færast yfir hluta hnattarins að sumarlagi. Sumum sýndist jafnvel svæði þessi taka á sig grænan lit, en síðan kom í ljós að sáralítið súrefni er í andrúmslofti hnattarins (minna en 0,1%). Þótti þá víst að þetta gætu ekki verið grænar plöntur. Og um 1965 var ljóst orðið að litarbreytingarnar stöfuðu af miklum stormum sem þyrluðu upp ryki af yfirborði. Rykið var um tíma á sveimi í andrúmsloftinu en féll síðan á yfirborðið á ný og breytti lit þeirra svæða sem það settist á.

Árið 1976 lentu tvö könnunarför, Viking 1 og 2, á yfirborði Mars og gerðu þar jarðvegskönnun. Með tækjabúnaði um borð var gerð leit að ummerkjum um frumstætt líf og gáfu fyrstu tilraunir óvæntar niðurstöður. Bætt var næringarefnum í jarðvegssýni og virtist þá eiga sér stað upptaka, sem skýra mætti með tilvist örvera. Nánari rannsókn leiddi þó í ljós að í jarðveginum voru engar lífrænar sameindir, auk þess sem talið var að ólífræn efnahvörf gætu skýrt niðurstöður tilraunanna. Flestir vísindamannanna, sem að rannsóknum þessum komu, drógu því að lokum þá ályktun að lífverur gætu ekki þrifist í jarðvegi á Mars um þessar mundir.

Hugmyndir manna og kenningar um líf á Mars hafa tekið sífelldum breytingum með aukinni þekkingu á hnettinum.

Árið 1983 var rannsakaður loftsteinn sem fundist hafði á jaðri Suðurskautsjökulsins. Náð var sýnum af lofttegundum sem lokast höfðu inni í bólum í steininum og kom þá í ljós að hlutföll neons, argons, kryptons og xenons, auk tiltekinna samsætuhlutfalla þessara lofttegunda, voru samskonar og Viking-lendingarförin höfðu greint í andrúmslofti Mars nokkrum árum fyrr. Þetta var talin örugg sönnun þess að steinninn væri ættaður frá Mars og hafa nú alls fundist 12 loftsteinar af þessu tagi á yfirborði jarðar. Þar með opnaðist leið til könnunar á sýnum frá yfirborði nágrannahnattarins, án þess að senda þyrfti þangað geimför.

Einn þessara Marssteina fannst árið 1984 á Suðurskautsjöklinum og hefur vakið sérstaka athygli fyrir það að leiddar hafa verið líkur að því að í honum séu ummerki um líf á Mars fyrir nokkrum milljörðum ára. Er fjallað nánar um þetta mál í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er nú vitað um lofsteininn frá Suðurskautslandinu sem talinn var bera með sér merki um líf á Mars? Þar kemur meðal annars fram að rökin fyrir ummerkjum um líf í steininum eru hvorki óyggjandi né óumdeild.

En þó að þarna skorti nokkuð á vissu er hitt víst að sjálf spurningin um líf á Mars fyrr eða síðar hefur fengið byr undir báða vængi við þessar uppgötvanir. Hún er nú rædd af áhuga og alvöru á ný. Lífvænlegt er að vísu ekki á hnettinum um þessar mundir því að meðalhiti á yfirborði hans er um -58oC, sáralítið súrefni er í andrúmslofti og geimgeislar og útfjólublátt ljós eiga greiða leið að yfirborði. Lengst af hefur verið talið að ekkert vatn er í fljótandi formi væri að finna á yfirborðinu, en í september 2015 staðfestu vísindamenn hjá Nasa að fundist hafi árstíðabundið rennandi vatn á ákveðnum stöðum. Stöðuvötn gætu verið undir heimskautajöklum hnattarins og hugsanlegt er að jarðhiti bræði klaka í jarðvegi og þar með eru komin skilyrði þess að frumstæðar lífverur gætu þrifist.

En einkum horfa menn til þess tímabils snemma í sögu hnattarins, er vatn var á yfirborði og andrúmsloft þykkara en nú er. Þá ættu lífsskilyrði að hafa verið betri og er leitin að steingerðum leifum lífvera, sem þá kynnu að hafa þróast á Mars, einn aðalhvatinn að hinni rækilegu könnun hnattarins sem fyrirhuguð er á næstu áratugum.

Helstu heimildir og mynd:
  • D.S. McKay og 8 aðrir höfundar. "Search for Past Life on Mars: Possible Relic Biogenic Activity in Martian Meteorite ALH84001." Science, Vol. 273, 924-930.
  • The Planetary Report, janúar-febrúar 1997: Ýmsar fróðlegar og læsilegar greinar um Marssteininn og hina ítarlegu könnun hans. Auk þess fleiri greinar í sama tímariti.
  • Mynd: PIA02405.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 2. 10. 2015).

Vísindavefnum hafa borist nokkrar spurningar varðandi möguleika á lífi á Mars í nútíð og fortíð. Spurningarnar hljóða svo:

  • Er líf á Mars? Ef svo er hvernig lífverur lifa þar? Íris Björk Símonardóttir
  • Er möguleiki að smáörverur þrífist í andrúmslofti sem ríkir á Mars? (Er líf á Mars? Þá hvernig líf?) Ólafur Kári Sigurbjörnsson
  • Var einhvern tímann líf á Mars? Arnar Jan Jónsson, f. 1988
...