Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stutt svar er „já“, en það gerist þó aðeins í sama mæli og bakteríur myndi ónæmi eftir sýklalyfjanotkun. Örverumengun í vatnslögnum til tannlæknastóla hefur verið þekkt vandamál í að minnsta kosti áratug en orsök hennar er myndun svokallaðrar „biofilm“ eða örveruþekju innan í plaströri sem dreifir vatni til tannlæknatækja í stólum.
Örveruþekja hefur verið vinsælt rannsóknarverkefni undanfarin ár. Þekjan myndast þegar vatn flæðir yfir yfirborð og bakteríur, aðallega frá umhverfinu, festast á þessu yfirborði og nærast á efnum sem eru í vatninu. Skýrasta dæmi um örveruþekju í tannlæknisfræði er tannsýkla, það er skán sem myndast á tönnum ef þær eru ekki nógu vel burstaðar. Tennurnar eru yfirborðið og vökvinn munnvatn sem ber með sér næringarefni fyrir bakteríur.
Nútíma tannlæknastólar eru með sótthreinsunarkerfi sem getur hreinsað burt þessa örveruþekju þó svo að bakteríurnar séu ekki hættulegar fyrir sjúklinga, ekki frekar en örverur í lofti, vatni og því umhverfi sem við lifum í dags daglega. Markmið sótthreinsunar er að minnka fjölda baktería og tryggja þannig að vatn sem kemur út úr tannlæknatækjum sé skaðlaust.
Almennt verka sótthreinsunarefni vel og ónæmi er ekki mikið vandamál ef efnin eru notuð rétt. Nútíma sótthreinsunarefni eru oft flókin samsetning kemískra efna með takmarkað geymsluþol. Þau eru oft mjög viðkvæm fyrir mengun til dæmis af völdum prótína. Gott dæmi á heimilum er þegar blæklór verður óvirkur eftir mengun af blóði, þvagi eða saur. Til þess að tryggja að sótthreinsunarefni virki eins og til er ætlast þarf það að vera rétt þynnt, hitastig þarf að vera rétt og gefa þarf efninu tíma til að verka.
Ýmis vandamál geta komið upp við sótthreinsun tannlæknastóla. Efni getur til dæmis orðið óvirkt vegna mengunar af prótíni í munnvatni, blóði eða skemmdum tannvefjum sem tannlæknir var að fjarlægja. Einnig getur það þynnst of mikið vegna vatnsmagns sem flæðir í gegnum plaströr í stólum eða það getur verið komið fram yfir síðasta söludag.
Það er ljóst að örveruþekja minnkar eftir meðferð með sótthreinsandi efnum þó að efnin nái kannski ekki að drepa allar bakteríurnar. Örverur sem lifa af slíka meðferð munu fljótlega fjölga sér að nýju og mynda nýja örveruþekju. Ef sýni er tekið eftir sótthreinsun og bakteríur ræktast enn, er það stundum túlkað sem ónæmi fyrir sótthreinsunarefni, en er í raun dæmi um endurmyndun örveruþekju.
Mikil vinna er nú í gangi við að þróa efni sem getur losað þessa örveruþekju úr plaströrum innan í tækjum eins og tannlæknastólum. Þó æskilegt markmið sé að vatn úr tannlæknastól verði alveg laust við bakteríur er það í raun ekki mögulegt. Örveruþekja mun alltaf myndast þegar vatn flæðir yfir flöt.
Niðurstöður nokkurra vísindagreina sem hafa birst undanfarin 5 ár benda til þess að aukinni notkun sótthreinsiefna á sjúkrahúsum fylgi aukin tíðni fjölónæmra baktería sem einangraðar hafa verið frá sjúklingum, starfsfólki og úr öðrum sýnum sem tekin eru á sjúkrahúsum. Dæmi um þetta eru svokallaðar MOSA bakteríur eða methicillin ónæmir stofnar af bakteríutegundinni Staphylococcus aureus og fjölónæmir stofnar af bakteríutegundinni Pseudomonas aeruginosa. Vandamálið hefur sérstaklega verið tengt notkun triclosan-sótthreinsunarefnis og hugsanlegt er að notkun triclosan geti leitt til fjölgunar ónæmra baktería í örveruþekju.
Það eitt er ljóst að fjölónæmir bakteríustofnar eru vaxandi vandamál á sjúkrahúsum og það getur tengst notkun sótthreinsiefna eins og við á um ofnotkun sýklalyfja. Það er kannski rétt að við getum sætt okkur við bakteríur sem detta af örveruþekju í vatnslögnum tannlæknastóla í trausti þess að ónæmiskerfi líkamans muni koma í veg fyrir sýkingu af völdum þessara baktería. Að sjálfsöguðu má þetta þó ekki fara úr böndum og einhver sótthreinsun í vatnslögnum tannlæknastóla er nauðsynleg, þó að hún ætti helst ekki að verða svo mikil að ónæmar bakteríur myndist.
Peter Holbrook (1949-2024) og Margrét O. Magnúsdóttir. „Geta örverur „vanist“ hreinsiefnum sem notuð eru til dæmis á tannlæknastofum?“ Vísindavefurinn, 22. apríl 2003, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3351.
Peter Holbrook (1949-2024) og Margrét O. Magnúsdóttir. (2003, 22. apríl). Geta örverur „vanist“ hreinsiefnum sem notuð eru til dæmis á tannlæknastofum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3351
Peter Holbrook (1949-2024) og Margrét O. Magnúsdóttir. „Geta örverur „vanist“ hreinsiefnum sem notuð eru til dæmis á tannlæknastofum?“ Vísindavefurinn. 22. apr. 2003. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3351>.