Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) er talið að undir lok síðustu aldar hafi að minnsta kosti þriðjungur allra jarðarbúa fimmtán ára og eldri reykt. Tíðni reykinga er mjög breytileg á milli landa en almennt er hlutfall þeirra sem reykja nokkuð hærra í þróunarlöndum og í löndum Austur-Evrópu en á Vesturlöndum. Eftirfarandi tafla sýnir hlutfall fullorðinna sem reykja, bæði karla og kvenna, í þeim 15 löndum þar sem mest er reykt.
Karlar eru í miklum meirihluta þeirra sem reykja í heiminum en talið er að næstum milljarður karla reyki daglega. Hlutfall karla sem reykja er mun hærra í þróunarlöndunum, um 50% samanborið við iðnríkin þar sem hlutfallið eru um 35%. Í að minnsta kosti 18 löndum reykja meira en 60% allra fullorðinna karlmanna og fara þar „fremst“ í flokki Mongólía (67,8%), Kína (66,9%), Kenía (66,8%) og Kambódía (66%). Áætlað er að um 250 milljónir kvenna í heiminum reyki daglega. Öfugt við það sem gerist hjá körlum er mun hærra hlutfall kvenna í iðnríkjum sem reykja eða 22% á móti 9% í þróunarríkjum. Þess má þó geta að margar konur í Suður-Asíu tyggja tóbak en þær teljast ekki með hér þar sem þessar tölur ná eingöngu yfir reykingar en ekki alla tóbaksnotkun. Í að minnsta kosti 17 löndum er hlutfall kvenna sem reykja yfir 30%. Þótt konur í þróunarlöndunum reyki almennt minna en kynsystur þeirra annars staðar í heiminum í samanburði við karla eru nokkur þróunarlönd á lista yfir þau lönd þar sem konur reykja hvað mest. Þau lönd þar sem konur reykja mest eru Nárú (47%), Gínea (43,8%), Júgóslavía (42%), Venesúela (39,2%), Líbanon (35%) og Namibía (35%). Að lokum má geta þess að talið er að fleiri dauðsföll í heiminum megi rekja til tóbaksnotkunar en til alnæmis, eiturlyfja, umferðarslysa, morða og sjálfsvíga samanlagt. Áætlað er að af öllum þeim jarðarbúum sem eru á lífi í dag muni að minnsta kosti hálfur milljarður látast af völdum tóbaks. Þetta svar er byggt á upplýsingum af heimasíðu The Tobacco Free Initiative sem er sérstakt verkefni á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Nánari upplýsingar er að finna á eftirfarandi undirsíðum:
Land Alls Karlar Konur 1. Nárú 54 61 47 2. Gínea 51,7 59,5 43,8 3. Namibía 50 65 35 4. Kenía 49,4 66,8 31,9 5. Bosnía og Hersegóvína 48 - - 6. Júgóslavía 47 52 42 7. Mongólía 46,7 67,8 25,5 8. Jemen 44,5 60 29 9. Saó Tóme og Prinsípe 44,1 - - 10. Tyrkland 44 60-65 20-24 11. Rúmenía 43,5 62 25 12. Slóvakía 42,6 55,1 30 13. Kíribatí 42 56,5 32,3 14. Túvalú 41 51 31 15. Líbanon 40,5 46 35