Allt þetta á enn frekar við um heita vatnið, að vísu með öfugu formerki, en munurinn á hita vatnsins og hita umhverfisins er miklu meiri í heita vatninu. Þess vegna geta aðstæður haft miklu meiri áhrif á heita vatnið. Þannig könnumst við öll við það, þegar við komum að heitavatnskrana sem hefur ekki verið notaður nýlega, að vatnið í honum getur verið alllengi að hitna eftir að við skrúfum frá. Þetta stafar af því að heita vatnið er yfirleitt ekki í einangruðum leiðslum inni í húsum og kólnar því í rörunum, einkum ef það fær að standa þar. En þegar vatnið hefur runnið úr krananum dágóða stund erum við búin að taka vatnið sem hafði kólnað og farin að fá heitt vatn til okkar viðstöðulaust frá meginlögn hitaveitunnar. Við getum meira að segja tekið eftir því að tíminn sem þetta tekur er mislangur eftir stöðum; ef pípurnar sem vatnið stendur í eru langar verður tíminn til muna lengri en ella. Margir hafa sjálfsagt orðið fyrir því að svokallað sírennsli kemur upp í kaldavatnslögn, til dæmis vegna þess að krani í vaski eða ventill í klósettkassa er óþéttur. Þegar slíkt gerist þarf ekki að hafa áhyggjur af því að vatnið volgni. Og það sem meira er: Leiðslurnar kunna að kólna alla leið frá inntaki í húsið og að þeim stað þar sem lekinn er. Rakinn í loftinu þéttist síðan á þessar köldu leiðslur og getur valdið skemmdum, bæði á þeim sjálfum og umhverfi þeirra. Sumir halda að þetta þéttivatn stafi af leka í leiðslunum en það er sem sagt ekki rétt. En engu að síður er hyggilegast að stöðva sírennsli af þessu tagi sem fyrst vegna skemmdanna sem það getur valdið. Mynd:
- Going-Well. Sótt 15.2.2010.