Píramídinn mikli er einn af þremur stórum píramídum í Giza í Egyptalandi. Píramídarnir þrír eru kenndir við faraóanna sem létu reisa þá, konunga Fornegypta, en þeir tilheyrðu allir 4. konungsættinni sem ríkti á árunum 2575-2465 f.Kr. Píramídinn mikli er kenndur við Keops (eg. Khufu) og hann er elstur og stærstur píramídanna þriggja. Kefrens-píramídinn er aðeins minni en píramídi Keops, reistur af syni hans Kefren (eg. Khafre). Yngstur og langminnstur er píramídinn kenndur við Mýkerínos (eg. Menkaure), son Kefrens.
Píramídarnir í Giza eru mikil mannvirki og ekki er alveg ljóst hvernig þeir voru byggðir. Keops-píramídinn telst enn til mestu bygginga heimsins og Forngrikkinn Heródótus segir að það hafi þurft 20 ár og um 100.000 manns til að reisa hann. Ef sú tala stenst má gera ráð fyrir að vinna við píramídann hafi verið árstíðabundin, það er á meðan flóð stóðu yfir í Níl og ekki var hægt að vinna á ökrunum. Fornleifauppgröftur bendir til þess að minni vinnuhópur, um 20.000 manns, hafi búið við píramídann yfir allt árið.
Keops-píramídinn var upprunalega 147 m hár og meðalhliðarlengd 230 m. Kefrens-píramídinn var litlu minni eða 143 m á hæð og með hliðarlengd upp á 216 m. Mýkerínosar-píramídinn var “aðeins” 66 m hár og hliðar hans 109 m langar. Píramídarnir eru byggðir úr gulum kalksteini og voru klæddir að innan og utan með fínni, ljósari kalksteini. Sú klæðning er að mestu horfin að utan nema á toppi Kefrens-píramídans.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvar var fyrsti píramídinn? eftir Unnar Árnason
- Hverjir byggðu píramídana og hversu gamlir eru þeir? eftir Baldvin Inga Gunnarsson og Sindra Guðmundsson
- Hver eru sjö undur veraldar? eftir HMH
- Encyclopædia Britannica
- Myndir af píramídum af vefsetrinu History Link 101
Hvað heitir píramídinn sem stendur hliðina á Kefrenspíramídanum og er kallaður Píramídinn mikli?