
Fyrsti píramídinn er talinn hafa verið reistur í Egyptalandi á árunum kringum 2650-2575 f.Kr. Þá ríkti faraóinn Djoser sem var af 3. konungsættinni. Arkitektinn var Imhotep, maður svo þekktur af fróðleik, vísdómi og stjórnvisku að síðar var hann dýrkaður sem lækningaguð bæði í Egyptalandi og Grikklandi (þar sem hann rann saman við guðinn Asklepíus). Fyrsti píramídinn er í Sakkara (Saqqarah) og er hann gjarnan kenndur við þann stað, en einnig af lögun sinni og nefndur þrepapíramídinn í Sakkara. Neðsta þrep hans var upphaflega sérstök bygging, gerð samkvæmt egypskri hefð um grafhýsi, svonefnd mastaba. Mastaban var 8 metra há og hver hlið um 63 metrar á lengd. Bætt var við hverja hlið og fleiri þrep byggð ofan á mastöbuna, alls sex mishá þrep um 60 metra há. Grunnflöturinn varð að ferhyrningi, 120 metra löngum og 108 metra breiðum.


Þess má geta að píramídarnir í Mið- og Suður-Ameríku eru taldir þó nokkuð yngri en þeir í Egyptalandi, byggðir á síðustu árhundruðunum fyrir Kristsburð. Heimildir og myndir:
- Um píramída, Imhotep, Djoser og skakka píramídann á vefsetri Encyclopædia Britannica
- Íslensk heimasíða um Sakkara. Skoðað 7.3.2003.
- What is Sakkara?
- Hver var fyrsti píramídinn? Hverjir byggðu hann? (Hrefna Ólafsdóttir)
- Hver hannaði fyrsta píramídann? (Birgir Ragnarsson)