- Hvað er sólarljósið lengi á leið til jarðar? Hversu hratt fer ljósið í tómarúmi? (Magnús Björgvinsson)
- Hvað eru mörg ljósár til sólarinnar? (Ólafur Þorgeirsson)
- Hversu langan tíma tekur það ljósið að ná jörðu frá sólinni? (Óskar Pálsson)
- Hvað er ljósið lengi frá sólu til jarðar? (Gunnhildur Wessman)
- Hvað er ljósið lengi frá sólu til jarðar í meðalfjarðlægð? (Garðar Benediktsson)
Þó að ljóshraðinn í efni sé breytilegur getur hann samt aldrei orðið meiri en hraði ljóss í tómarúmi. Sá hraði er fasti (constant) sem er táknaður með bókstafnum c og er einn af allra mikilvægustu föstum náttúrunnar. Gildi hans í tölum er nálægt 300.000 km/s (kílómetrar á sekúndu) sem er afar stór tala miðað við flestar aðrar hraðatölur sem við þekkjum.Fjarlægð jarðar frá sólu er að meðaltali 149.500.000 kílómetrar (ein stjarnfræðieining, AU). Það tekur sólarljósið því að meðaltali 498,33 sekúndur að ferðast til jarðar, eða rétt rúmar 8 mínútur. Sólarljósið er því um það bil 8 ljósmínútur á leiðinni til jarðar.
Til samanburðar má nefna að ljósið getur farið sjö hringi í kringum jörðina á einni sekúndu, sólarljósið er um það bil 3 mínútur og 12 sekúndur á leiðinni til Merkúrs, en hinsvegar 5 klukkutíma og 3 mínútur að fara til Plútó. Heimildir og myndir:
- Á Vísindavefnum: Er hraði ljóssins breytilegur? Hve langt er milli jarðarinnar og Merkúríusar? Hvað er Plútó langt frá jörðu?
- Um ljósið, vefur Kristins R. Sigurbergssonar
Þetta svar var á sínum tíma eftir grunnskólanema á námskeiði Vísindavefsins sem haldið var í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.