Endurskinshlutfall íss er líka mjög hátt, en er þó mjög háð sólarhæð. Íslenskur ís er sjaldan alveg hreinn. Ryk og sandörður í ísnum hitna í miklu sólarljósi og bræða hann furðuhratt. Stuttbylgjugeislar geta að deginum brætt ís ef lofthiti er undir frostmarki, bráðnunin er hins vegar treg nema hiti sé í lofti mestallan eða allan sólarhringinn. Mikla orku þarf til að bræða ís, enn meira þarf til að hann gufi beint upp. Varmaorkan sem bræðir ísinn á sér misjafnan uppruna: Frá sól (stuttbylgjugeislun), frá regni (leiðni), úr loftinu ofan hans (leiðni eða varmageislun) eða að neðan úr jörðinni (oftast leiðni). Auk þess getur þyngdaraflið komið við sögu, með því að flytja vatn ýmist niður í snjóinn/ísinn eða burt frá bráðnunarsvæðinu þannig að nýtt orkuríkara (hlýrra) vatn komi í stað þess sem kólnar við að bræða ísinn. Einnig getur núningur og varmi myndast þegar vatn rennur niður eftir ísyfirborði, orkan í bráðnunina kemur þá frá þyngdaraflinu – staðorka losnar. Rigning hefur áhrif á snjóbráðnun beint, enda er hún hlýrri en ísinn, auk þess sem hún getur hripað niður í snjóinn (síður í ís) og þar með hafið bræðslu á snjó langt undir yfirborði, miklu neðar en stuttbylgju- eða varmageislun sem að ofan getur. Í sólskini, hlýjum og þurrum vindi verður mikil bráðnun/uppgufun. Þá blandast það kalda lag sem liggur ofan á ísnum vel og sífelld aðfærsla er á hlýju og þurru lofti í stað þess sem kólnar og mettast samhliða bráðnuninni. Í rigningu gufar sáralítið upp. Í stuttu máli er svarið við spurningunni þetta: Yfir háveturinn er það yfirleitt hláka og rigning sem mest bræðir af snjó. Hlutur sólar og beinnar uppgufunar íss og snævar vex þegar kemur fram á vorið og þegar sól er hæst á lofti, dagur lengstur og loft þurrast getur hann orðið yfirgnæfandi. Jökla- og hjarnbráðnun á sumrin er sennilega langmest við þessi skilyrði fremur en í rigningu. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Af hverju er snjórinn hvítur? eftir Ara Ólafsson
- Hvað verður um hvíta litinn þegar snjórinn bráðnar? eftir Einar Örn Þorvaldsson
- Hvernig myndast snjókorn? eftir Trausta Jónsson