Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Nei, tölva verður ekki afkastameiri við það eitt að kæla örgjörvann. Góð kæling örgjörvans, sem og reyndar gott loftstreymi í tölvukassanum, getur hins vegar komið í veg fyrir mörg hitatengd vandamál í tölvum. Þau geta lýst sér í aukinni bilanatíðni íhluta, svo sem harðra diska. Einnig getur of hár hiti örgjörvans leitt til þess að tölvan ,,frjósi".
Það sem spyrjandi hefur ef til vill í huga með spurningunni er sú aðgerð að láta örgjörvann vinna hraðar en framleiðandinn (venjulega Intel eða AMD) auglýsir. Hægt er að kalla það yfir-klukkun í samræmi við enska orðið over-clocking en ef lesendur hafa betra orð á takteinum mega þeir gjarnan senda okkur skeyti. Þegar þetta er gert þarf að auka kælinguna og gæta þess að loftstreymið sé gott.
Framleiðsla örgjörva er flókinn og dýr iðnaður. Hugsum okkur nú að fyrirtæki þurfi að framleiða þrjár tegundir örgjörva, 1800, 1900 og 2000 MHz. Í stað þess að framleiða þrjár tegundir og nota til þess þrjár vélar eða þrenns konar uppsetningu á vélum, sjá framleiðendurnir þann kost vænstan að framleiða þrefalt magn af 2000 MHz örgjörvum og selja 2/3 hluta sem hægari örgjörva. Þeir prófa nú hvern örgjörva, því að örgjörvar geta verið misgóðir þótt þeir komi úr sama framleiðsluskammti. Þá örgjörva sem hægt er að keyra hraðast selja þeir sem 2000 MHz, næst besta skammtinn sem 1900 MHz og þann lakasta sem 1800 MHz.
Þetta er auðvelt því vinnsluhraði örgjörva er einfaldlega margfeldi af brautarhraða (e. bus-speed) móðurborðs og svokallaðs margfaldara (e. multiplier) í örgjörvanum. Ef við segjum að brautarhraðinn sé 100 MHz stilla framleiðendurnir margfaldara örgjörvana á 18, 19 eða 20 og fá þannig tilskildan hraða.
Þeir tölvunotendur sem kaupa 1800 MHz örgjörva geta síðan reynt að hækka margfaldarann sinn upp í 18,5, 19 eða jafnvel 20 og fá þannig vinnslugetu í dýrari örgjörva fyrir minni pening. Engin trygging er fyrir að þetta takist, en miðað við dæmið okkar er það líklegt, því þrátt fyrir að vera úr lakasta skammti framleiðslunnar, var örgjörvinn hannaður fyrir vinnsluhraðann 2000 MHz. Framleiðendur hafa stundum reynt að læsa margfaldaranum, en tölvunotendur hafa oftast fundið leið framhjá slíku. Ein slík er að breyta ekki margfaldaranum heldur brautarhraðanum og síðustu ár hefur það verið algengara en hitt.
Auk þeirrar ráðstöfunar sem lýst er hér að ofan, að spara framleiðslukostnað, geta verið aðrar ástæður fyrir því að örgjörvar séu seldir undir getu. Þegar framleiðendurnir kynna nýja kynslóð örgjörva, byrja þeir ekki eins hátt og þeir geta, heldur reyna frekar að eiga hraðann inni. Þetta er líklega gert af tveimur ástæðum, að eiga mótspil ef samkeppnisaðilinn kynnir hraðari örgjörva og ná sem mestum tekjum með því að kynna smám saman hraðari örgjörva.
Sem dæmi um þetta má taka Northwood kynslóð Pentium 4 örgjörvans frá Intel. Fyrstu örgjörvarnir voru seldir sem 1600 MHz, en mjög auðvelt var að auka hraða þeirra í 2133 MHz með því að auka brautarhraðann úr 100 MHz í 133 MHz. Það endurspeglar að tæknin sem notuð var átti mikið inni, enda hefur það komið á daginn.
Þar sem örgjörvaframleiðendur gefa vitanlega ekki upp nákvæmar upplýsingar um framleiðsluferlið, má segja að ofangreindur pistill sé sýn tölvunotanda. Örgjörvaframleiðendur gætu haft aðrar skýringar á málinu.
Frekara lesefni af Vísindavefnum:
Einar Örn Þorvaldsson. „Verður tölva afkastameiri ef örgjörvinn er kældur mikið?“ Vísindavefurinn, 20. febrúar 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3158.
Einar Örn Þorvaldsson. (2003, 20. febrúar). Verður tölva afkastameiri ef örgjörvinn er kældur mikið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3158
Einar Örn Þorvaldsson. „Verður tölva afkastameiri ef örgjörvinn er kældur mikið?“ Vísindavefurinn. 20. feb. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3158>.