Er hægt að pissa í geimnum?Ekki hafa verið farnar mannaðar ferðir til tunglsins síðan snemma á 8. áratug síðustu aldar þannig að enginn hefur þurft að pissa á þeirri leið í langan tíma. Síðast þegar einhver þurfti að pissa á leið til tunglsins var aðstaðan hins vegar mjög bágborin. Geimförin sem Bandaríkjamenn notuðu til tunglferðanna kölluðust Apollo og í áhöfn þeirra voru þrír geimfarar hverju sinni. Ferðalag til tunglsins var alls ekki ánægjan ein. Það var ekki aðeins erfitt fyrir þrjá menn að dvelja saman í örlitlu rými í tæplega tvær vikur heldur var eitt við lífið í geimnum sem geimfararnir þoldu ekki: Að fara á klósettið. Reyndar eru ýkjur að segja að geimfararnir hafi farið á klósettið, það var nefnilega ekkert klósett í Apollo-geimförunum. En hvernig fóru geimfararnir þá að því að kasta af sér vatni og ganga örna sinna? Úrgangur var eitt stærsta vandamálið sem leysa þurfti. Þegar Apollo-geimfarið var hannað var ekki til neitt sem heitir geimklósett. Fyrsta geimklósettið fór ekki út í geiminn fyrr en árið 1973 í Skylab-geimstöð Bandaríkjamanna. Auk þess var Apollo-geimfarið of lítið fyrir slíkan búnað. Þess í stað urðu tunglfararnir að sætta sig við að nota slöngur og poka. Í Apollo-geimfarinu var ekki hægt að fara afsíðis og geimförunum fannst oft erfitt að athafna sig fyrir framan félaga sína. Það versta var þó þyngdarleysið. Í þyngdarleysinu svífur nefnilega allt. Bókstaflega allt. Til að kasta af sér vatni fékk hver geimfari úthlutað gúmmíi, nokkurs konar smokk með opi í báða enda. Annað opið var fest á typpið en hitt á hólk með loku sem var fastur við poka sem safnaði þvaginu. Safnpokinn gat tekið við um það bil 1,2 lítrum af þvagi en af hreinlætisástæðum fékk hver geimfari sinn eigin þvagpoka. Þegar geimfarinn hafði lokið sér af var hólknum lokað og gúmmíið tekið af en pokinn síðan tengdur við aðra slöngu sem föst var við loku eða ventil í stjórnklefanum. Með því að ýta á einn takka var þvaginu dælt úr pokanum og út í geiminn. Þegar þvagið kom út í geiminn fraus það og myndaði ískristalla sem glitruðu fallega í sólskininu. Þegar einn geimfari var spurður að því hvað væri það fallegasta sem hann hefði séð í geimnum svaraði hann: „Þvaglosun við sólsetur“. Enn verra var að kúka en til þess þurfti að nota plastpoka. Geimfari lagði poka einfaldlega upp að rassinum, límdi hann á rasskinnarnar með lími sem var á pokanum og gekk örna sinna. Geimfarinn skeindi sig með klósettpappír, setti svo pappírinn í pokann en áður en hann lokaði pokanum, varð hann að setja sótthreinsiefni ofan í til að draga úr bakteríuvexti og hnoða það við, að sjálfsögðu utan frá. Síðan var saurpokanum lokað, hann settur ofan í annan poka og síðan komið haganlega fyrir í kæligeymslu í geimfarinu.
- Beginning the Apollo 11 Mission | NASA. (Sótt 22.05.2020).
- Toilets in Space - the toilet-guru.com. (Sótt 22.05.2020).
Sá hluti textann sem segir frá Apollo-geimfarinu er fenginn af Stjörnufræðivefnum og birtur með góðfúslegu leyfi.