Um þessar mundir stefnir bandarísk/evrópska geimfarið Cassini-Huygens í átt til Satúrnusar og því velta vísindamenn fyrir sér hvað Huygens geimfarið finnur þegar það lendir á yfirborði Títans árið 2005. Títan hefur þykkan lofthjúp sem inniheldur líklega lífræn efnasambönd og þau ætti Huygens að geta numið. Tiltölulega stutt er síðan raddir fóru að heyrast um að líf kunni að finnast á Títan. Títan er draumastaður stjörnulíffræðings. Lofthjúpurinn er úr nitri (köfnunarefni) og metangasi. Útfjólublátt ljós frá sólinni brýtur niður metansameindir sem getur haft í för með sér myndun flókinna lífrænna efnasambanda, eins og til dæmis amínósýra. Kolefnissambönd eru fyrsta skrefið í átt til lífs eins og við þekkjum hér á jörðinni. Lífið sjálft byggist á ótrúlega flóknum kolefnissamböndum eins og til dæmis DNA. Sumir vísindamenn telja að samsetning lofthjúps Títans líkist á margan hátt lofthjúpi jarðar í fyrndinni, áður en lífið fór að hafa áhrif á hann fyrir um 3500 milljónum ára.
Rannsóknir Huygens á Títan, gætu veitt okkur svör við því hvernig lífið myndaðist á jörðinni. Eitt það helsta sem Huygens á að veita okkur svar við í ferðinni, er hvernig lífræn efnasambönd hafa myndast í lofthjúpi Títans. Löng leið er þó frá lífrænum efnasamböndum til lífs. Engin ein nákvæm skilgreining á lífi er til því vísindamönnum ber ekki saman um hver hún ætti að vera. Þegar við leitum að viðeigandi skilgreiningu, virðast menn vera sammála um einn eiginleika: allt líf þarfnast orku til að viðhalda efnaskiptum. Plöntur nota til dæmis sólarljós til að ljóstillífa á meðan dýr fá orku úr lífrænum efnasamböndum í fæðunni. Þetta flækist nokkuð í einfaldasta lífsforminum á jörðinni, örverunum. Örverur eru einfrumungar sem fá orku úr ólífrænum efnahvörfum. Slík efnaskipti eru svo ólík því sem gerist í dýrum og plöntum á jörðinni að líffræðingar velta nú fyrir sér hvort líf gæti myndast á stað þar sem mikil efnahvörf eiga sér stað, eins og á Títan. Það sem meira er, á jörðinni hafa örverur aðlagast hrikalegum umhverfisaðstæðum og því er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort líf gæti myndast á Títan. Ef einhvers konar líf finnst á Títan er ljóst að það verður mjög ólíkt því sem sést hér á jörðinni. Á Títan er til að mynda mjög kalt, um -180°C, og við það hitastig fyrirfinnst fljótandi vatn ekki. "Jarð"fræði- og umhverfisrannsóknir Huygens á Títan og kortlagning Cassini-farsins á því, gæti fundið efnamisræmi og forvitnilegar jarðmyndanir sem krefjast nánari athugana á hugsanlegu lífi. Rannsóknir á Títan gætu gagnast líffræðingum til að skilgreina betur hvað skilur lifandi verur frá dauðum. Þegar við komumst að því, er kannski hægt að skilgreina líf nákvæmar. Heimildir:
- Vefsíða ESA um Títan.
- Vefsíðan Space.com.