Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaFélagsvísindiÞjóðfræðiAf hverju er bergrisi, sem táknar eitthvað vont í norrænni goðafræði, verndari Íslands?
Með verndara Íslands er í spurningunni sennilega átt við bergrisa þann sem í Heimskringlu segir að óð út á sjóinn fyrir sunnan land til móts við sendimann Haralds konungs Gormssonar, en sá fór í hvalslíki. Risinn var reyndar einn af fjórum helstu landvættum í sögunni, en hinar voru griðungur, gammur og dreki. Auk þess fylgdi þeim fjöldi smærri vætta. Bergrisinn er því ekki eini verndari landsins.
Hugmyndin um landvættirnar fjórar á sér auk þess fyrirmynd í kerúbum þeim sem Gyðingar hugsuðu sér að héldu vörð um guð. Þeir voru vængjaðar kynjaverur með fjögur andlit: maður, ljón, uxi og örn. Í kristnum sið urðu þessi andlit tákn guðspjallamannanna fjögurra, og mun sú hugmynd hafa borist hingað með kristni.
Bergrisi er einn af landvættunum fjórum. Hann stendur hægra megin við íslenska fánann á skjaldamerkinu.
Í goðsögum eru bergrisar og önnur tröll venjulega nefndir jötnar eða þursar. Þekktasta sagan sem nefnir bergrisa segir frá borgarsmiðnum sem æsir réðu sem verktaka til að reisa fyrir þá virki á þrem misserum. Að launum átti hann að fá Freyju, sól og mána. Smiðurinn var hins vegar jötunn í dulargervi og þegar æsirnir sáu að honum ætlaði að takast það sem þeir höfðu talið ókleift sviku þeir samkomulagið. Í rauninni reyndist jötunninn því vera heiðarlegri en þeir.
Tröll eru ekki endilega slæm. Stundum eru þau reyndar mannætur og skessurnar oft vergjarnar, en þau geta líka verið hjálpsöm og trygglynd. Stundum bjarga þau jafnvel mönnum úr sjávarháska. Ekkert ætti að mæla gegn því að hafa þau í sínu varnarliði enda eru hernaðarhyggjumenn einatt mestu þursar.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Árni Björnsson. „Af hverju er bergrisi, sem táknar eitthvað vont í norrænni goðafræði, verndari Íslands?“ Vísindavefurinn, 26. nóvember 2008, sótt 2. apríl 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=30873.
Árni Björnsson. (2008, 26. nóvember). Af hverju er bergrisi, sem táknar eitthvað vont í norrænni goðafræði, verndari Íslands? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=30873
Árni Björnsson. „Af hverju er bergrisi, sem táknar eitthvað vont í norrænni goðafræði, verndari Íslands?“ Vísindavefurinn. 26. nóv. 2008. Vefsíða. 2. apr. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=30873>.