Þrátt fyrir það er líklegt að kettir hafi borist til Íslands með fyrstu norrænu landnámsmönnunum. Meðal þess sem talið er styðja þá tilgátu eru rannsóknir á heimilisköttum sem leitt hafa í ljós að sami kattastofn finnst alls staðar þar sem víkingar námu land á sínum tíma, auk þess sem erfðarannsóknir hafa sýnt að víða á þessum svæðum eru stofnarnir lítt blandaðir. Meðal annars má nefna merkilega rannsókn dr. Stefáns Aðalsteinssonar og Bennett Blumenberg sem bar heitið 'Possible norse origin for two Northeastern United States cat populations' eða 'Hugsanlegur norrænn uppruni tveggja kattastofna á norðausturströnd Bandaríkjanna'. Þar er greint frá rannsóknum á erfðavísum heimiliskatta á Íslandi, Norðurlöndum, Bretlandi og norðausturströnd Ameríku.
Fleira styður það að kettir hafi sennilega borist með mönnum til Íslands snemma á landnámstímanum. Þeir hafa um aldir verið mikil nytjadýr, meðal annars haldið nagdýrum frá matvælum, auk þess sem kattbelgir og kattarskinn voru verðmæt verslunarvara, samanber áðurnefnt svar Gunnars Karlssonar. Það er hins vegar ómögulegt að tilgreina nákvæmlega hvaða köttur hefur þann heiður að vera fyrsti íbúi landsins af sínu kyni þar sem fyrir því eru engar heimildir. Mynd: Köttur á Wikipedia. Myndin er birt undir GNU Free Documentation leyfinu. Sótt 1. 7. 2008.