Engar heimildir eru um að kettir hafi verið ræktaðir á Íslandi til skinnaframleiðslu. Þeir eru óvíða nefndir í heimildum en koma þó fyrir. Í kristinna laga þætti Grágásar er tekið fram að óheimilt sé að hafa þá til matar, eins og önnur klódýr. Í einni Íslendingasögu, Vatnsdæla sögu, segir frá óspektarmanni og þjófi, Þórólfi sleggju, sem átti tuttugu ketti svarta, stóra og tryllta, og hafði þá til að verja híbýli sín. Hann var þó yfirunninn, en þar sem hann hafði búið „sást jafnan kettir, og illt þótti þar oftliga síðan.“ Þetta á að hafa gerst í heiðni og er auðvitað aðeins sögn. Ekkert bendir til að Þórólfur hafi alið ketti sína til að selja af þeim skinnin. Annars eru kettir varla nefndir á Íslandi á þjóðveldistímanum, og verður hver og einn að meta hvort það stafi fremur af því að þeir hafi verið sjaldgæfir eða svo sjálfsagðir gripir á hverjum bæ að þeir komi ekki við sögu. Kattabein hafa líka lítt eða ekki fundist í íslenskum fornleifum, en þeirra er varla að vænta þar heldur, því að beinaleifar sem hafa verið tegundargreindar koma aðallega úr öskuhaugum þar sem matarúrgöngum hefur verið kastað. Heimildir og mynd:
- Thomas Amorosi: „Contributions to the Zooarchaeology of Iceland: Some Preliminary Notes.“ The Anthropology of Iceland. Ed. by E. Paul Durrenberger and Gísli Pálsson (Iowa City, University of Iowa Press, 1989), 203-227.
- Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson, Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Reykjavík, Mál og menning, 1992.
- Helgi Þorláksson: Vaðmál og verðlag. Vaðmál í utanlandsviðskiptum og búskap Íslendinga á 13. og 14. öld. Reykjavík [1992].
- Íslenzk fornrit VIII. Vatnsdæla saga. Reykjavík, Fornritafélag, 1939.
- Jón Jóhannesson: Íslendinga saga I. Reykjavík, Almenna bókafélagið, 1956.
- Cats in Art. Sótt 21.1.2004.