Frægð og frami fylgdu í kjölfar þessara verka og var Eiffel eftirsóttur verkfræðingur um allan heim þegar byggja þurfti ýmiss konar stálvirki. Á þessum árum hannaði hann meðal annars hreyfanlegar stálbrýr fyrir franska herinn, stórverslunarhúsið Bon Marché í París og burðargrindina fyrir frelsisstyttuna í New York. Myndhöggvarinn Fréderic-Auguste Bartholdi var höfundur þessarar risavöxnu styttu sem Frakkar vildu gefa Bandaríkjamönnum í tilefni af 100 ára afmæli bandarísku stjórnarskrárinnar 1876. Bartholdi leitaði til Eiffels og fékk honum það vandasama verkefni að hanna heppilegt burðarvirki fyrir styttuna, koma því til New York og tryggja að það stæði af sér hafstormana við höfnina þar. Eiffel leysti verkefnið snilldarlega, hannaði létta stálburðargrind sem mátti flytja í mörgum hlutum yfir hafið, og lét svo klæða hana með málmplötum sem ytri kápu. Styttan, sem gengur undir nafninu frelsisstyttan, hefur orðið eitt helsta tákn Bandaríkjanna og alls mannkyns um mannréttindi og frelsi. Nú var röðin komin að Eiffelturninum. Í tilefni af heimssýningunni í París 1889 ákvað stjórn sýningarinnar að fela Eiffel að byggja stálturn sem skyldi jafnframt vera aðalinngangur sýningarsvæðisins á Champs de Mars í París. Eiffel lét hanna og byggði turninn sem er 324 metra hár, og nýtti alla reynslu sína til að gera hann sem tignarlegastan. Upphaflega var gert ráð fyrir að turninn yrði rifinn að sýningu lokinni, en mannvirkið þótti það glæsilegt að borgaryfirvöld ákváðu að það skyldi standa um ókomna tíð. Ekki voru þó allir borgarbúar sáttir. Sagan segir að franski rithöfundurinn Guy de Maupassant hafi daglega snætt hádegisverð á veitingastað í turninum. Aðspurður sagði Maupassant, að það væri eini staðurinn í borginni þar sem þetta ljóta ferlíki sæist ekki. Eiffelturninn er nú höfuðtákn Parísarborgar og jafnvel Frakklands alls, líkt og Frelsisstyttan varð í New York. Allt fram til 1930 var turninn hæsta bygging heims, eða þar til Chrysler-skýjaklúfurinn í New York kom til sögunnar.
Um svipað leyti og byggingu Eiffelturnsins lauk, vann Eiffel að hönnun lokubúnaðar fyrir Panamaskurðinn sem þá var í byggingu undir stjórn Ferndinand de Lesseps, þess sem byggði Suezskurðinn. Fyrirtækið sem sá um lokurnar varð gjaldþrota, og lenti Eiffel í miklum erfiðleikum og langvarandi málaferlum út af því. Hann var meðal annars sakaður um að hafa farið illa með fjármuni félagsins sem fjöldi Frakka hafði lagt sparifé sitt í. Eiffel dró sig í hlé frá byggingarverkefnum fyrirtækis síns og hætti sem stjórnarformaður þess 1893. Hann var þó hvergi nærri hættur störfum. Næstu þrjátíu árin helgaði hann sig rannsóknum á loftstreymi og vindálagi á byggingar í rannsóknarstofu sinni í Eiffelturninum, stundaði þar einnig veðurfarsathuganir og fjarskiptarannsóknir. Hann lést í hárri elli á heimili sínu í París 1923. Eiffel var mikill listunnandi og vel að sér í bókmenntum. Hann var í góðu vinfengi við helstu listamenn samtíðar sinnar og afsannaði þá kenningu að verkfræðingar og raunvísindamenn bæru lítið skynbragð á listir og bókmenntir. Sjálfur taldi hann rannsóknirnar sem hann stundaði síðustu ár ævinnar vera merkasta framlag sitt til tækniþróunar, en turninn hefði ávallt skyggt á þær. Myndir:
- Eiffel: Gustave Eiffel á Wikimedia. Sótt 12. 8. 2011.
- Frelsisstyttan: Zastavki.com. Sótt 23. 8. 2011.
- Eiffelturninn: Eiffel Tower á Wikimedia. Sótt 22. 8. 2011.