Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Mig langar að vita um helstu orsakir heimilisofbeldis og hversu algengt það er hérna á Íslandi? Og hverjir gerendurnir eru og þolendur?
Almenna hugmyndin um heimilisofbeldi er líkamlegt ofbeldi milli fullorðinna einstaklinga sem eru í sambúð eða deila heimili. Þess vegna er einnig oft talað um ofbeldi í nánum samböndum frekar en heimilisofbeldi. Hins vegar getur hugtakið ofbeldi náð yfir mun víðara svið en líkamlegt ofbeldi, svo sem andlegt ofbeldi, kynferðislegt og fjárhagslegt ofbeldi. Eins getur ofbeldi tengdra aðila verið víðtækara, svo sem ofbeldi foreldra á börnum sínum og ofbeldi (fullorðinna) barna á foreldrum sínum. Svarið hér er takmarkað við líkamlegt ofbeldi milli maka eða fyrrverandi maka enda mest um það vitað.
Tvær stórar kannanir hafa verið framkvæmdar hérlendis á tíðni og algengi slíks ofbeldis. Sú fyrri var gerð árið 1996[1] en sú síðari 2008.[2] Báðar komust að mjög svipaðri niðurstöðu varðandi ofbeldi sem konur hafi orðið fyrir af hendi maka eða fyrrverandi maka síðastliðna 12 mánuði. Eitt til tvö prósent íslenskra kvenna hafa orðið fyrir slíku. Þegar spurt var um reynslu kvenna af ofbeldi af hálfu maka eða fyrrverandi maka á lífsleiðinni sögðust 14% hafa reynslu af því í könnuninni 1996 en 20% árið 2008. Kannanirnar eru þó ekki vel sambærilegar meðal annars sökum þess að í könnuninni 1996 voru konur á aldrinum 18-65 ára en í könnuninni 2008 voru konur frá 18 ára aldri til áttræðs. Niðurstaða höfunda skýrslunnar um rannsóknina 2008 var að samanburður þessara kannana benti til þess að líkamlegt ofbeldi gegn konum í nánu sambandi hafi ekki aukist svo neinu nemi.
Kannanir á heimilisofbeldi hafa leitt í ljós að 1-2% íslenskra kvenna urðu fyrir slíku ofbeldi af hálfu maka á 12 mánaða tímbili áður en kannanirnar voru gerðar.
Því miður var sú seinni takmörkuð við ofbeldi sem konur verða fyrir og veitir því engar upplýsingar um karla sem þolendur eða konur sem gerendur þar sem aðeins var spurt um ofbeldi „maka“ eða „fyrrverandi maka“ án þess að kyn maka væri skoðað. Þó benda erlendar rannsóknir til að ofbeldi í sambúð samkynhneigðra sé álíka algengt og hjá gagnkynhneigðum pörum.
Fyrri könnunin var mun betri hvað það varðar að bæði karlar og konur voru spurð um reynslu sína og þá bæði sem þolendur og gerendur. Niðurstöður þar varpa áhugaverðu ljósi á stöðu karla og kvenna þegar kemur að ofbeldi í nánum samböndum. Þannig sögðust 3,9% karla og 13,8% kvenna hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi af hendi maka eða fyrrverandi maka einhvern tíma á ævinni. Þegar hins vegar var spurt um reynslu sem gerandi, það er að hafa beitt maka eða fyrrverandi maka líkamlegu ofbeldi, sögðust 4,1% karla hafa gert það en 7,9% kvenna. Augljóslega getur þetta ekki staðist og líklegast að skilgreiningar kynjanna á líkamlegu ofbeldi séu misjafnar og þá með þeim hætti að konur séu líklegri en karlar til að setja ofbeldisstimpil á einhverja hegðun, hvort svo sem þær verða fyrir henni eða beita henni, einfaldlega þar sem þeim stafar meiri ógn af hegðuninni. Einnig er hugsanlegt að þær muni atvikin betur af sömu ástæðu. Ekki má heldur gleyma því að trúlega eru karlar konum ólíklegri til að segja frá því að hafa orðið fyrir ofbeldi af hendi maka. Því hefur víða fylgt afar mikil skömm og oft hafa karlar verið niðurlægðir opinberlega í samfélögum sínum ef upp hefur komist að konur þeirra berji þá.[3] Loks ber að nefna niðurstöður þolendakannana lögreglunnar. Þegar spurt er um reynslu af heimilisofbeldi birtist ekki marktækur kynjamunur.[4]
Fréttir og rannsóknir víða að benda eindregið til þess að heimilisofbeldi hafi aukist meðan COVID-19-faraldurinn hefur staðið yfir, bæði ofbeldi milli maka og ofbeldi foreldra gegn börnum.
Hvað orsakir varðar þá virðist ljóst að valdamisvægi sé meginástæðan. Valdameiri einstaklingar beita þá valdaminni ofbeldi. Völd geta hér verið margskonar, líkamlegur styrkur, efnahagslegir eða vitsmunalegir yfirburðir, tengslanet og svo framvegis. Áfengi og sum önnur fíkniefni hafa neikvæð áhrif, auka líkur á ofbeldi. Loks virðist svo sem stress ýti undir ofbeldi í nánum samböndum. Fréttir og rannsóknir víða að benda eindregið til þess að heimilisofbeldi hafi aukist meðan COVID-19-faraldurinn hefur staðið yfir, bæði ofbeldi milli maka og ofbeldi foreldra gegn börnum. Það virðist styðja við þá hugmynd að stress auki líkur á ofbeldi. Loks ber að nefna að margt bendir til að persónuleikaraskanir ýmis konar skipti hér máli, óöryggi gerenda og sjúkleg eignaþörf. Íslenska rannsóknin frá 1996 fann ekki tengsl milli tekna og menntunar annars vegar og ofbeldisbeitingar hins vegar sem er ekki óalgeng skýring í erlendum rannsóknum, það er að heimilisofbeldi sé algengara meðal fátæks fólks og fólks með litla formlega menntun. Ef til vill er skýringin sú að þrátt fyrir ýmsa galla sé íslenska velferðarkerfið það gott að það dragi úr því álagi sem því fylgir að hafa mjög lágar tekjur. Í síðari könnuninni var ekki gerð tilraun til að skoða þetta atriði.
Til er rannsókn frá 2018 á upplifun kvenna í Kvennaathvarfinu á persónuleikaeinkennum þeirra sem beitt hafa þær ofbeldi. Samkvæmt því sem þar birtist þá skera ofbeldiskarlar sig frá öðrum körlum meðal annars hvað það varðar að þeir eru mjög afbrýðisamir, ekki skilningsríkir, stjórnsamir og gagnrýnir á maka.[5] Niðurstöðurnar benda því til persónuleikaröskunar. Hins vegar er fjarri því sjálfgefið að reynsla þeirra kvenna sem leita til Kvennaathvarfsins sé yfirfæranleg á reynslu allra kvenna sem hafa verið beittar ofbeldi í nánu sambandi hvað þá heldur reynslu þeirra karla sem verða fyrir ofbeldi maka.
Tilvísanir:
Ingólfur V. Gíslason. „Hverjar eru helstu orsakir heimilisofbeldis og hversu algengt er það á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 9. mars 2021, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=29766.
Ingólfur V. Gíslason. (2021, 9. mars). Hverjar eru helstu orsakir heimilisofbeldis og hversu algengt er það á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=29766
Ingólfur V. Gíslason. „Hverjar eru helstu orsakir heimilisofbeldis og hversu algengt er það á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 9. mar. 2021. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=29766>.