Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hverjar eru hugmyndir Platons um eðli og hlutverk karla og kvenna?

Sigríður Þorgeirsdóttir

Þegar haft er í huga að heimspeki vestrænnar menningar hefur verið sögð lítið annað en “neðanmálsgreinar við heimspeki Platons” (A. N. Whitehead) er ekki að undra að hugmyndir Platons um kynin hafi í ríkum mæli mótað skilning okkar á hlutverkum kynjanna. Í heimspeki Platons er að finna tvíhyggju hins karllega og hins kvenlega, sem jafnframt er forsenda fyrir stigskiptingu kynjanna. Kynjaheimspeki í þessum anda hefur því allar götur nýst hinni platonsk-kristilegu hefð sem réttlæting á misjafnri stöðu kvenna og karla. Tvíhyggja kynjanna er samstofna kvenfyrirlitningu Platons og hún litar allan mannskilning hans og hugmyndir hans um samfélag og stjórnmál. Konan er samkvæmt skilningi Platons karlinum óæðri (Tímaíos 42a). Hún er honum síðri að visku, dygð og hugrekki. Platon gengur jafnvel svo langt að vara við konum sem uppsprettu lasta er spilla samfélaginu. (Lögin, 781 a-b).

Samkvæmt platonskri heimspeki er líkamleiki kvenna nátengdur náttúrunni og eru þær taldar hafa dýrslegra eðli en karlar. Körlum sem lifðu ekki í samræmi við dygð biðu þau örlög að endurfæðast sem konur. Það var því talið hið versta hlutskipti að fæðast sem kona enda var staða þeirra í gríska borgríkinu öll önnur en karla. Konum og þrælum var meinaður aðgangur að vettvangi hins opinbera lífs þar sem frjálsir borgarar réðu lögum og lofum. Konur höfðu ekki borgaraleg réttindi og var litið svo á að eiginkonur væru eign karla sinna. Útilokun kvenna hélst í hendur við fyrirlitningu á eiginleikum sem voru eignaðir konum. Þær voru álitnar á valdi tilfinninga sinna og í atferli sínu oft skyldari börnum en körlum. Samkvæmt Platon keppist heimspekingurinn aftur á móti við að hafa stjórn á tilfinningum sínum og hvötum, sem eru truflunarvaldar í ríki skynseminnar. Þetta viðhorf kemur skýrt fram í orðum Sókratesar, lærimeistara Platons, skömmu áður en hann bergir á eitrinu og deyr. Hann segir dauðann vera ávinning fyrir heimspekinginn vegna þess að þegar hann deyr losnar hann úr viðjum líkamans og verður hrein sál sem getur öðlast fullkomna þekkingu.



Þegar Xanþippa, eiginkona Sókratesar sem situr hjá honum í fangelsinu ”með son hans í kjöltunni,” kemst í uppnám biður Sókrates yfirlætislega um að þessi kona verði send heim (Faídon, 60). Sókrates hefur hvorki fyrir því að hugga eiginkonu sína né kveðja hana í hinsta sinn. Hann og hinir “vinir viskunnar” minnast ekki einu orði á Xanþippu og halda áfram að fílósófera eins og ekkert hafi í skorist eftir að hún er leidd burt. Tilfinningar Xanþippu eru truflunarvaldur á þeirri stundu er hetjan skal mæta dauða sínum með reisn. Það var einmitt þessi ögurstund sem gerði Sókrates ódauðlegan og markaði með brottrekstri “konunnar” fæðingu vestrænnar heimspeki.

Brottvísun konunnar er raunar lýsandi fyrir karlasamfélag hins forngríska tíma. Konur koma vart fyrir í samræðum Platons sem málshefjandi aðilar. Eina undantekningin frá þessu er Diotíma í Samdrykkjunni, en þó verður að hafa þann fyrirvara að óvíst er hvort hún hafi verið raunveruleg kona. Í Samdrykkjunni er því lýst hvernig ást milli karla er æðri ást milli kynja. Karlar sinntu borgaralegri skyldu sinni með því að eiga konu og börn, en ástina upplifðu þeir fyrst og fremst í viskuleit með öðrum körlum og í girnd á unglingspiltum, en það var álitinn sjálfsagður hlutur í uppeldi pilta að eldri menn hefðu kynmök við þá. Þetta birtist skýrt í lýsingu Platons á hinni ástföngnu sál heimspekingsins í ritinu Faidros. Þegar sál heimspekingsins, sem Platon segir að fyrrum hafi verið vængjuð eins og fugl, sér fegurð unglingspiltsins hitnar hún og rætur vængjanna tútna út. Vængirnir þrýstast fram, sálin reisir sig og vill fljúga til móts við hinn fagra unglingspilt og saman með honum á vit fegurðarinnar sjálfrar sem holdgervist í unglingnum (Faidros, 251).

Þessi fallíska myndhverfing af risi sálarinnar hefur ugglaust átt sinn þátt í að kirkjufeðurnir áttu síðar erfitt með að eigna konum sál. Í hinni forngrísku, hómóerótísku afstöðu platonsku heimspekinnar er einnig að finna rótina að þeirri tilhneigingu til "andlegrar samkynhneigðar" sem Sigurður Guðmundsson myndlistamaður og rithöfundur segir enn þann dag í dag einkenna samskipti karla þótt meirihluti þeirra sé kynferðislega gagnkynhneigður. Þessi tilhneiging karla skýrir að dómi Sigurðar áhugaleysi þeirra á konum sem jafngildum og jafnáhugaverðum þátttakendum í opinberu lífi. (Sigurður Guðmundsson, Ósýnilega konan, 2000).

Í forngrískri menningu voru sérstakir eiginleikar kvenna ekki taldir þeim til tekna á nokkurn hátt. Konur voru því ekki sveipaðar dulúð, eins og síðar gerðist í kristni. Þvert á móti var konum í raun ofaukið í platonskum hugarheimi. Að vísu voru konur taldar nauðsynlegar til viðhalds mannkyni og samfélagi, en að öðru leyti dreymdi forngríska heimspekinga um að geta hafið sig yfir allt kvenlegt. En jafnvel þessi eini “kostur” kvenna var tvíbentur því samfara ábyrgðinni á viðhaldi tegundarinnar fylgdi ábyrgð á mesta böli mannlegs lífs, nefnilega endanleika þess. Með því að fæða börn ofurselja konur þau jafnframt dauðanum. Takmark heimspekingsins er hins vegar að hefja sig yfir dauðleikann. Viskuleitin leiðir heimspekinginn á vit heims frummyndanna sem er eilífur, óbreytanlegur og hin eini sanni heimur ofar stundlegum og hverfulum heimi verðandinnar.

Í Ríkinu, þar sem Platon setur fram draumsýn sína um fyrirmyndarsamfélagið, dregur hann upp aðra mynd af hlutverki kvenna sem virðist í andstöðu við þær hugmyndir sem hér hefur verið lýst. Í “Fögruborg” skulu vera þrjár stéttir manna, framleiðendur, varðmenn og heimspekingar, og eiga hinir síðasttöldu að stjórna borgríkinu. Heimspekingarnir eiga nú bæði að koma úr röðum kvenna og karla. Fulltrúar beggja kynja í hinni ráðandi stétt eiga að njóta sama uppeldis og menntunar og öðlast víðtæka reynslu áður en þeir takast á hendur stjórn ríkisins. Vegna þessara róttæku hugmynda hefur Platon stundum verið talinn til fyrstu kvenréttindasinnanna. Þetta úrvalslið heimspekinga í Fögruborg býr þó við aðstæður sem svipar í engu til raunveruleika gríska borgríkisins. Til að koma í veg fyrir spillingu sem iðulega er fylgifiskur pólitísks valds áleit Platon nauðsynlegt að afnema eignir og eignarrétt í stétt heimspekinganna sem stjórnuðu borginni. Af þessu leiðir að konur í hópi ráðamanna gátu ekki verið eign karlanna. Heimspekingunum var ekki heldur ætlað að lifa hefðbundnu fjölskyldulífi. Þeir áttu að fjölga sér og viðhalda úrvalskyni manna, en utanaðkomandi fóstrur og uppalendur áttu að sinna afkomendum heimspekinganna. Hér er á ferðinni kenning um mannkynbætur og um andlýðræðislega skipan samfélagsins, en Platon hafði ekki mikla trú á lýðræði eftir hrakfarir þess á hans tímum.

Hugmyndir Platons um jafna stöðu kynjanna í Ríkinu heyra til algerra undantekninga í heimildum forngrískrar menningar. Platon viðurkennir hér að búi kynin við sömu skilyrði geti ekki verið stigsmunur á vitsmunalegu og siðferðislegu atgervi þeirra. Það má hins vegar ekki líta fram hjá því að jöfn staða kynjanna nær einungis til stéttar heimspekinganna. Einnig dregur það nokkuð úr gildi hinnar frómu draumsýnar Platons að uppeldi og málefni barna eru utan við verksvið heimspekinganna. Þessi mál eiga heima á sviði einkalífs og tilfinninga og þau lúta ekki stjórn röklegrar hugsunar. Það má því segja Platon haldi þeim sviðum einkalífs sem tengjast konum og kvenleika í forngrískri hefð utan við stétt heimspekinganna og verndara ríkisins. Gunnar Skirbekk heldur því þess vegna fram að þegar allt kemur til alls vilji Platon kúga konur og halda hinu kvenlega niðri vegna þess að hann óttist það. Hann fremur með táknrænum hætti “móðurmorð”. Hann lítur á konur í kvenleika sínum sem óstýrilátt upplausnarafl sem hafi hættuleg áhrif. Þessi skoðun hefur reynst lífseig þar sem konum hefur lengst af verið haldið utan pólitíkur á grundvelli þess að þær hafa verið sagðar tilfinningalega stýrðari en karlar. Þessi hugmynd byggir hins vegar á skarpri aðgreiningu rökvits og tilfinninga sem Platon átti upphaflega mestan þátt í að festa í sessi og er ekki lengur viðtekin í sama mæli.



Tvíhyggja kynjanna sem byggir á andstæðupörum á borð við skynsemi/tilfinningar, sál/líkami, náttúra/menning, eining/fjölbreytni og ódauðleiki/dauðleiki er víða undirliggjandi í öðrum kenningum Platons. Þannig má túlka tveggjaheimakenningu Platons, það er skiptingu heimsins í hinn eilífa, óbreytanlega heim frummyndanna og í heim verðandi og birtingar eða efnisheiminn, út frá tvíhyggju kynjanna. Luce Irigaray hefur t.d. sett fram nýstárlega túlkun á hinni frægu hellislíkingu í Ríkinu, sem er myndlíking tveggjaheimakenningarinnar. Irigaray líkir hellinum þar sem mönnum er haldið föngnum við móðurlífið. Hellirinn er tákn hinnar mannlegu tilvistar með öllum sínum takmörkunum. Hann er nauðsynleg forsenda jarðnesks lífs og um leið forsenda þess að geta komist þaðan út til að höndla sannleikann um tilvist mannsins. Sannleikurinn er sá að hellisbúar geta einungis séð skuggamyndir frummyndanna á hellisveggjunum. Skuggamyndirnar eru einungis ófullkomnar eftirmyndir frummyndanna. Þær eru eftirmyndir sem birtast í rými. Í túlkun Irigaray kallast hellirinn á við “kóruna”, sem Platon fjallar um í Timaiosi. Þar segir hann frummyndirnar vera karlleg lögmál, en rýminu þar sem ófullkomnar eftirmyndir þeirra birtast líkir hann við móðurina. Móðirin er því nauðsynleg til þess að hið karllega geti birst. Eftirmyndirnar eru aftur á móti ófullkomnar vegna þessa rýmis. Þetta rými er “kóran”. Kóran er ósýnileg og án nokkurs forms, hún umlykur allt, en það er erfitt að henda reiður á henni. Eftirmyndir hinna fullkomnu, karllegu frummynda eru ófullkomnar vegna kórunnar. Kóran er því nauðsynleg forsenda þess að frummyndin geti birst í efnisheiminum, en jafnframt ógnun við fullkomleika og stöðugleika hennar.

Þetta má skýra með vísun í ritið Parmenides þar sem Platon gerir frægan greinarmun á hinu eina, sem er hin fullkomna samsemd, og hinu marga eða mismun sem er andstæða einingar og samsemdar. Hið eina er fullkomin eining, óbreytanleg og alltaf söm sjálfri sér. Hið eina er hið upphaflega og vera hlutanna, líkt og frummyndirnar. Andstæða hins eina, mismunurinn eða hið marga, er hins vegar ofurseld óstöðugleikanum og verðandinni. Hið eina er allt það sem hið marga er ekki. Hið marga er allt “hitt”. Að því leyti sem þessi aðgreining endurspeglar kynjamismun er hið eina “karlinn”, sem er viðmiðið fyrir merkingu þess að vera “maður”. Konan er aftur á móti skilin sem afgangsstærð, í sjálfu sér ekki neitt, og fær merkingu sína einungis með að vera andstæða hins eina, það er karlsins. “Konan” og hið kvenlega eru þess vegna í platonskri heimspeki leidd af hinu eina, allt það sem er “afleitt”.

Hið eina og hið marga eru samkvæmt skilningi Platons ekki andstæður sem geta bætt hvor aðra upp og hljómað saman þrátt fyrir mismun þeirra. Í hugmyndinni um hið eina birtist því enn og aftur viðleitnin til að hefja sig upp yfir hið kvenlega.

Samkvæmt túlkun Irigaray er “konan” (eða allt sem hún stendur fyrir) “kynið sem er ekki eitt”, en í því felst uppreisnarmáttur gegn ofurvaldi hins eina sannleika um manninn sem karl. Kynið sem er ekki eitt lýkur upp möguleika á að maðurinn sé ekki bara eitt (“karl”), heldur tvennt eða margt. “Konan” tákngerir það, sem hefur verið útilokað í mynd mannsins og sem er líkamleiki hans í víðasta skilningi. Höfnun á líkamleika mannsins felur í senn í sér höfnun á veigamiklum þáttum veraldleika mannlegrar tilveru og einhliða upphafningu á dauðanum sem því atriði er ljær heimspekilegri afstöðu til lífsins mesta merkingu.

Það er ekki að undra að heimspekingar á 19. og 20. öld sem hafa andmælt einhliða karlsýn hinnar platonsku heimspeki hafa gert það með því að draga upp mynd af manninum sem birtir hina karllegu jafnt sem hina kvenlegu eiginleika hans. Hannah Arendt hefur til að mynda sett fram kenningu um fæðingu sem myndhverfingu fyrir sköpun hins nýja til höfuðs þeirri dauðablætisdýrkun sem hefur einkennt heimspeki frá dögum Sókratesar og Platons. Slík heimspekileg afstaða sem fagnar nýju upphafi og einblínir ekki á endamörk lífs er ekki einungis drifin áfram af ást á viskunni, heldur einnig af ást á veröldinni eða amor mundi.

Mynd: WebMuseum, Paris

Mynd 2: Úr kvikmyndinni Amelie

Mynd af hellislíkingu Platóns: Storm's Journal

Höfundur

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

20.12.2002

Spyrjandi

Ólafur Guðmundsson

Tilvísun

Sigríður Þorgeirsdóttir. „Hverjar eru hugmyndir Platons um eðli og hlutverk karla og kvenna?“ Vísindavefurinn, 20. desember 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2974.

Sigríður Þorgeirsdóttir. (2002, 20. desember). Hverjar eru hugmyndir Platons um eðli og hlutverk karla og kvenna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2974

Sigríður Þorgeirsdóttir. „Hverjar eru hugmyndir Platons um eðli og hlutverk karla og kvenna?“ Vísindavefurinn. 20. des. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2974>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hverjar eru hugmyndir Platons um eðli og hlutverk karla og kvenna?
Þegar haft er í huga að heimspeki vestrænnar menningar hefur verið sögð lítið annað en “neðanmálsgreinar við heimspeki Platons” (A. N. Whitehead) er ekki að undra að hugmyndir Platons um kynin hafi í ríkum mæli mótað skilning okkar á hlutverkum kynjanna. Í heimspeki Platons er að finna tvíhyggju hins karllega og hins kvenlega, sem jafnframt er forsenda fyrir stigskiptingu kynjanna. Kynjaheimspeki í þessum anda hefur því allar götur nýst hinni platonsk-kristilegu hefð sem réttlæting á misjafnri stöðu kvenna og karla. Tvíhyggja kynjanna er samstofna kvenfyrirlitningu Platons og hún litar allan mannskilning hans og hugmyndir hans um samfélag og stjórnmál. Konan er samkvæmt skilningi Platons karlinum óæðri (Tímaíos 42a). Hún er honum síðri að visku, dygð og hugrekki. Platon gengur jafnvel svo langt að vara við konum sem uppsprettu lasta er spilla samfélaginu. (Lögin, 781 a-b).

Samkvæmt platonskri heimspeki er líkamleiki kvenna nátengdur náttúrunni og eru þær taldar hafa dýrslegra eðli en karlar. Körlum sem lifðu ekki í samræmi við dygð biðu þau örlög að endurfæðast sem konur. Það var því talið hið versta hlutskipti að fæðast sem kona enda var staða þeirra í gríska borgríkinu öll önnur en karla. Konum og þrælum var meinaður aðgangur að vettvangi hins opinbera lífs þar sem frjálsir borgarar réðu lögum og lofum. Konur höfðu ekki borgaraleg réttindi og var litið svo á að eiginkonur væru eign karla sinna. Útilokun kvenna hélst í hendur við fyrirlitningu á eiginleikum sem voru eignaðir konum. Þær voru álitnar á valdi tilfinninga sinna og í atferli sínu oft skyldari börnum en körlum. Samkvæmt Platon keppist heimspekingurinn aftur á móti við að hafa stjórn á tilfinningum sínum og hvötum, sem eru truflunarvaldar í ríki skynseminnar. Þetta viðhorf kemur skýrt fram í orðum Sókratesar, lærimeistara Platons, skömmu áður en hann bergir á eitrinu og deyr. Hann segir dauðann vera ávinning fyrir heimspekinginn vegna þess að þegar hann deyr losnar hann úr viðjum líkamans og verður hrein sál sem getur öðlast fullkomna þekkingu.



Þegar Xanþippa, eiginkona Sókratesar sem situr hjá honum í fangelsinu ”með son hans í kjöltunni,” kemst í uppnám biður Sókrates yfirlætislega um að þessi kona verði send heim (Faídon, 60). Sókrates hefur hvorki fyrir því að hugga eiginkonu sína né kveðja hana í hinsta sinn. Hann og hinir “vinir viskunnar” minnast ekki einu orði á Xanþippu og halda áfram að fílósófera eins og ekkert hafi í skorist eftir að hún er leidd burt. Tilfinningar Xanþippu eru truflunarvaldur á þeirri stundu er hetjan skal mæta dauða sínum með reisn. Það var einmitt þessi ögurstund sem gerði Sókrates ódauðlegan og markaði með brottrekstri “konunnar” fæðingu vestrænnar heimspeki.

Brottvísun konunnar er raunar lýsandi fyrir karlasamfélag hins forngríska tíma. Konur koma vart fyrir í samræðum Platons sem málshefjandi aðilar. Eina undantekningin frá þessu er Diotíma í Samdrykkjunni, en þó verður að hafa þann fyrirvara að óvíst er hvort hún hafi verið raunveruleg kona. Í Samdrykkjunni er því lýst hvernig ást milli karla er æðri ást milli kynja. Karlar sinntu borgaralegri skyldu sinni með því að eiga konu og börn, en ástina upplifðu þeir fyrst og fremst í viskuleit með öðrum körlum og í girnd á unglingspiltum, en það var álitinn sjálfsagður hlutur í uppeldi pilta að eldri menn hefðu kynmök við þá. Þetta birtist skýrt í lýsingu Platons á hinni ástföngnu sál heimspekingsins í ritinu Faidros. Þegar sál heimspekingsins, sem Platon segir að fyrrum hafi verið vængjuð eins og fugl, sér fegurð unglingspiltsins hitnar hún og rætur vængjanna tútna út. Vængirnir þrýstast fram, sálin reisir sig og vill fljúga til móts við hinn fagra unglingspilt og saman með honum á vit fegurðarinnar sjálfrar sem holdgervist í unglingnum (Faidros, 251).

Þessi fallíska myndhverfing af risi sálarinnar hefur ugglaust átt sinn þátt í að kirkjufeðurnir áttu síðar erfitt með að eigna konum sál. Í hinni forngrísku, hómóerótísku afstöðu platonsku heimspekinnar er einnig að finna rótina að þeirri tilhneigingu til "andlegrar samkynhneigðar" sem Sigurður Guðmundsson myndlistamaður og rithöfundur segir enn þann dag í dag einkenna samskipti karla þótt meirihluti þeirra sé kynferðislega gagnkynhneigður. Þessi tilhneiging karla skýrir að dómi Sigurðar áhugaleysi þeirra á konum sem jafngildum og jafnáhugaverðum þátttakendum í opinberu lífi. (Sigurður Guðmundsson, Ósýnilega konan, 2000).

Í forngrískri menningu voru sérstakir eiginleikar kvenna ekki taldir þeim til tekna á nokkurn hátt. Konur voru því ekki sveipaðar dulúð, eins og síðar gerðist í kristni. Þvert á móti var konum í raun ofaukið í platonskum hugarheimi. Að vísu voru konur taldar nauðsynlegar til viðhalds mannkyni og samfélagi, en að öðru leyti dreymdi forngríska heimspekinga um að geta hafið sig yfir allt kvenlegt. En jafnvel þessi eini “kostur” kvenna var tvíbentur því samfara ábyrgðinni á viðhaldi tegundarinnar fylgdi ábyrgð á mesta böli mannlegs lífs, nefnilega endanleika þess. Með því að fæða börn ofurselja konur þau jafnframt dauðanum. Takmark heimspekingsins er hins vegar að hefja sig yfir dauðleikann. Viskuleitin leiðir heimspekinginn á vit heims frummyndanna sem er eilífur, óbreytanlegur og hin eini sanni heimur ofar stundlegum og hverfulum heimi verðandinnar.

Í Ríkinu, þar sem Platon setur fram draumsýn sína um fyrirmyndarsamfélagið, dregur hann upp aðra mynd af hlutverki kvenna sem virðist í andstöðu við þær hugmyndir sem hér hefur verið lýst. Í “Fögruborg” skulu vera þrjár stéttir manna, framleiðendur, varðmenn og heimspekingar, og eiga hinir síðasttöldu að stjórna borgríkinu. Heimspekingarnir eiga nú bæði að koma úr röðum kvenna og karla. Fulltrúar beggja kynja í hinni ráðandi stétt eiga að njóta sama uppeldis og menntunar og öðlast víðtæka reynslu áður en þeir takast á hendur stjórn ríkisins. Vegna þessara róttæku hugmynda hefur Platon stundum verið talinn til fyrstu kvenréttindasinnanna. Þetta úrvalslið heimspekinga í Fögruborg býr þó við aðstæður sem svipar í engu til raunveruleika gríska borgríkisins. Til að koma í veg fyrir spillingu sem iðulega er fylgifiskur pólitísks valds áleit Platon nauðsynlegt að afnema eignir og eignarrétt í stétt heimspekinganna sem stjórnuðu borginni. Af þessu leiðir að konur í hópi ráðamanna gátu ekki verið eign karlanna. Heimspekingunum var ekki heldur ætlað að lifa hefðbundnu fjölskyldulífi. Þeir áttu að fjölga sér og viðhalda úrvalskyni manna, en utanaðkomandi fóstrur og uppalendur áttu að sinna afkomendum heimspekinganna. Hér er á ferðinni kenning um mannkynbætur og um andlýðræðislega skipan samfélagsins, en Platon hafði ekki mikla trú á lýðræði eftir hrakfarir þess á hans tímum.

Hugmyndir Platons um jafna stöðu kynjanna í Ríkinu heyra til algerra undantekninga í heimildum forngrískrar menningar. Platon viðurkennir hér að búi kynin við sömu skilyrði geti ekki verið stigsmunur á vitsmunalegu og siðferðislegu atgervi þeirra. Það má hins vegar ekki líta fram hjá því að jöfn staða kynjanna nær einungis til stéttar heimspekinganna. Einnig dregur það nokkuð úr gildi hinnar frómu draumsýnar Platons að uppeldi og málefni barna eru utan við verksvið heimspekinganna. Þessi mál eiga heima á sviði einkalífs og tilfinninga og þau lúta ekki stjórn röklegrar hugsunar. Það má því segja Platon haldi þeim sviðum einkalífs sem tengjast konum og kvenleika í forngrískri hefð utan við stétt heimspekinganna og verndara ríkisins. Gunnar Skirbekk heldur því þess vegna fram að þegar allt kemur til alls vilji Platon kúga konur og halda hinu kvenlega niðri vegna þess að hann óttist það. Hann fremur með táknrænum hætti “móðurmorð”. Hann lítur á konur í kvenleika sínum sem óstýrilátt upplausnarafl sem hafi hættuleg áhrif. Þessi skoðun hefur reynst lífseig þar sem konum hefur lengst af verið haldið utan pólitíkur á grundvelli þess að þær hafa verið sagðar tilfinningalega stýrðari en karlar. Þessi hugmynd byggir hins vegar á skarpri aðgreiningu rökvits og tilfinninga sem Platon átti upphaflega mestan þátt í að festa í sessi og er ekki lengur viðtekin í sama mæli.



Tvíhyggja kynjanna sem byggir á andstæðupörum á borð við skynsemi/tilfinningar, sál/líkami, náttúra/menning, eining/fjölbreytni og ódauðleiki/dauðleiki er víða undirliggjandi í öðrum kenningum Platons. Þannig má túlka tveggjaheimakenningu Platons, það er skiptingu heimsins í hinn eilífa, óbreytanlega heim frummyndanna og í heim verðandi og birtingar eða efnisheiminn, út frá tvíhyggju kynjanna. Luce Irigaray hefur t.d. sett fram nýstárlega túlkun á hinni frægu hellislíkingu í Ríkinu, sem er myndlíking tveggjaheimakenningarinnar. Irigaray líkir hellinum þar sem mönnum er haldið föngnum við móðurlífið. Hellirinn er tákn hinnar mannlegu tilvistar með öllum sínum takmörkunum. Hann er nauðsynleg forsenda jarðnesks lífs og um leið forsenda þess að geta komist þaðan út til að höndla sannleikann um tilvist mannsins. Sannleikurinn er sá að hellisbúar geta einungis séð skuggamyndir frummyndanna á hellisveggjunum. Skuggamyndirnar eru einungis ófullkomnar eftirmyndir frummyndanna. Þær eru eftirmyndir sem birtast í rými. Í túlkun Irigaray kallast hellirinn á við “kóruna”, sem Platon fjallar um í Timaiosi. Þar segir hann frummyndirnar vera karlleg lögmál, en rýminu þar sem ófullkomnar eftirmyndir þeirra birtast líkir hann við móðurina. Móðirin er því nauðsynleg til þess að hið karllega geti birst. Eftirmyndirnar eru aftur á móti ófullkomnar vegna þessa rýmis. Þetta rými er “kóran”. Kóran er ósýnileg og án nokkurs forms, hún umlykur allt, en það er erfitt að henda reiður á henni. Eftirmyndir hinna fullkomnu, karllegu frummynda eru ófullkomnar vegna kórunnar. Kóran er því nauðsynleg forsenda þess að frummyndin geti birst í efnisheiminum, en jafnframt ógnun við fullkomleika og stöðugleika hennar.

Þetta má skýra með vísun í ritið Parmenides þar sem Platon gerir frægan greinarmun á hinu eina, sem er hin fullkomna samsemd, og hinu marga eða mismun sem er andstæða einingar og samsemdar. Hið eina er fullkomin eining, óbreytanleg og alltaf söm sjálfri sér. Hið eina er hið upphaflega og vera hlutanna, líkt og frummyndirnar. Andstæða hins eina, mismunurinn eða hið marga, er hins vegar ofurseld óstöðugleikanum og verðandinni. Hið eina er allt það sem hið marga er ekki. Hið marga er allt “hitt”. Að því leyti sem þessi aðgreining endurspeglar kynjamismun er hið eina “karlinn”, sem er viðmiðið fyrir merkingu þess að vera “maður”. Konan er aftur á móti skilin sem afgangsstærð, í sjálfu sér ekki neitt, og fær merkingu sína einungis með að vera andstæða hins eina, það er karlsins. “Konan” og hið kvenlega eru þess vegna í platonskri heimspeki leidd af hinu eina, allt það sem er “afleitt”.

Hið eina og hið marga eru samkvæmt skilningi Platons ekki andstæður sem geta bætt hvor aðra upp og hljómað saman þrátt fyrir mismun þeirra. Í hugmyndinni um hið eina birtist því enn og aftur viðleitnin til að hefja sig upp yfir hið kvenlega.

Samkvæmt túlkun Irigaray er “konan” (eða allt sem hún stendur fyrir) “kynið sem er ekki eitt”, en í því felst uppreisnarmáttur gegn ofurvaldi hins eina sannleika um manninn sem karl. Kynið sem er ekki eitt lýkur upp möguleika á að maðurinn sé ekki bara eitt (“karl”), heldur tvennt eða margt. “Konan” tákngerir það, sem hefur verið útilokað í mynd mannsins og sem er líkamleiki hans í víðasta skilningi. Höfnun á líkamleika mannsins felur í senn í sér höfnun á veigamiklum þáttum veraldleika mannlegrar tilveru og einhliða upphafningu á dauðanum sem því atriði er ljær heimspekilegri afstöðu til lífsins mesta merkingu.

Það er ekki að undra að heimspekingar á 19. og 20. öld sem hafa andmælt einhliða karlsýn hinnar platonsku heimspeki hafa gert það með því að draga upp mynd af manninum sem birtir hina karllegu jafnt sem hina kvenlegu eiginleika hans. Hannah Arendt hefur til að mynda sett fram kenningu um fæðingu sem myndhverfingu fyrir sköpun hins nýja til höfuðs þeirri dauðablætisdýrkun sem hefur einkennt heimspeki frá dögum Sókratesar og Platons. Slík heimspekileg afstaða sem fagnar nýju upphafi og einblínir ekki á endamörk lífs er ekki einungis drifin áfram af ást á viskunni, heldur einnig af ást á veröldinni eða amor mundi.

Mynd: WebMuseum, Paris

Mynd 2: Úr kvikmyndinni Amelie

Mynd af hellislíkingu Platóns: Storm's Journal...