Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Óljóst er hvenær Oddaverjar í Rangárþingi urðu höfðingjaætt. En í Landnámabók (Hauksbókargerð) er rakin ætt frá Hrafni Valgarðssyni heimska, landnámsmanni á Raufarfelli undir Eyjafjöllum:
Hans börn voru þau Helgi bláfauskur og Freygerður og Jörundur goði, faðir Svarts, föður Loðmundar, föður Sigfúss, föður Sæmundar hins fróða, föður Lofts, er átti Þóru, dóttur Magnúss konungs berbeins, þeirra son Jón, faðir Sæmundar og Páls byskups …
Þar er komið að þeim Oddaverjum sem voru uppi á Sturlungaöld og mest kvað að. Ekki er vitað hvenær ættin komst að Odda. Í Landnámu segir að Þorgeir nokkur Ásgrímsson hafi flust frá Noregi til Íslands og keypt Oddaland, og var dóttir hans móðir Loðmundar Svartssonar. Sá Oddaverja sem fyrstur er nefndur sem meiri háttar höfðingi er sonarsonur Loðmundar, Sæmundur fróði Sigfússon. Í Kristni sögu segir frá því að um það leyti sem Gissur biskup Ísleifsson lést, 1118, hafi flestir virðingamenn verið lærðir til presta „þó að höfðingjar væri“. Eru tíu þeirra nafngreindir og Sæmundur einn þeirra. Sæmundur er líka nefndur í sögunni í tengslum við lögleiðingu tíundar árið 1096. Sagt er að tekist hafi að koma á tíund „af ástsæld Gissurar byskups og umtölum Sæmundar prests hins fróða, er bestur klerkur hefir verið á Íslandi …“ Annars er Sæmundur þekktastur fyrir lærdóm. Ari fróði segist hafa borið Íslendingabók sína undir hann, eins og biskupa landsins. Líka er sagt að Sæmundur hafi skrifað rit um sögu Noregskonunga, líklega á latínu, en það er glatað. Sæmundur var líka meðal fyrstu Íslendinga sem vitað er um að stunduðu skólanám í útlöndum. Ari fróði segir frá því að hann hafi komið „sunnan af Frakklandi hingað til lands og lét síðan vígjast til prests.“ Eftir það kenndi hann piltum skólalærdóm heima í Odda. Sæmundur lést árið 1133. Á síðari öldum hefur hann einkum verið nafntogaður sem persóna í þjóðsögum þar sem hann etur gjarnan kappi við Kölska.
Sæmundur á selnum eftir Ásmund Sveinsson. Sæmundur fróði Sigfússon (1056-1133) hefur á seinni öldum verið einna kunnastur sem persóna í þjóðsögum en á sínum tíma var hann goðorðsmaður og prestur í Odda og í hópi lærðustu Íslendinga þess tíma.
Lítið er vitað um Loft, son Sæmundar, nema hvað hann gekk að eiga norska konu, Þóru að nafni. Síðar kom í ljós að hún var óskilgetin dóttir Magnúsar konungs Ólafssonar sem var kallaður berfættur. Best gæti ég trúað að Loftur hafi búið í Noregi drjúgan hluta ævi sinnar, en vitað er að Eyjólfur bróðir hans bjó í Odda, hélt áfram þeirri iðju föður síns að kenna prestsefnum og er talinn meðal höfðingja. En Eyjólfur hefur líklega verið barnlaus og Oddastaður því komið í hlut Jóns, sonar Lofts og Þóru. Um 1170 kemur Jón fram í sögum sem meiri háttar höfðingi og varð einkum þekktur að því að koma á sáttum í deilum manna, ýmist með því að standa með þeim sem hann taldi eiga það skilið eða fella gerðardóm í deilum. Frægust eru afskipti hans af deilumáli Sturlu Þórðarsonar í Hvammi og Páls prests Sölvasonar í Reykholti. Þar var deilt um arf fólks sem hafði dáið hvert í sínu landinu, og var erfðarétturinn kominn undir því í hvaða röð það hafði dáið. Jón Loftsson gerði í málinu og dæmdi Páli eignirnar en bætti Sturlu skaðann og niðurlæginguna með því að taka Snorra son hans í fóstur að Odda. Þannig komst sá mikli rithöfundur í kynni við bóklegar menntir. Að öðru leyti er Jón Loftsson þekktastur sem helsti andstæðingur Þorláks helga Þórhallssonar Skálholtsbiskups þegar hann vildi heimta kirkjueignir undir yfirráð biskups. Litrík frásögn af deilum þeirra er í sögu Þorláks.
Jón Loftsson hefur sjálfsagt fengið eitt af þremur goðorðum Rangárþings í arf. En skömmu fyrir aldamótin 1200 virðast hin tvö goðorðin komin í hendur tveggja sona hans, Orms Jónssonar á Breiðabólstað í Fljótshlíð og Páls Jónssonar í Skarði á Landi, síðar biskups í Skálholti. Er helst gert ráð fyrir að Jón hafi eignast þessi tvö goðorð þegar veldi hans var sem mest og hann falið þau umsjá sona sinna. Á þessum árum var einmitt að fara af stað sú þróun víða á landinu að stórhöfðingjar söfnuðu goðorðum í heilum héruðum og breyttu goðaveldinu í höfðingjaveldi. Ekki eru beinar heimildir um hvenær þetta gerðist í Rangárþingi eða með hvaða hætti. En eftir þetta er jafnan fjallað um Rangárþing sem eitt samfellt veldi Oddaverja þótt ekki réði alltaf einn maður yfir því.
Jón Loftsson átti að minnsta kosti sjö syni en aðeins einn skilgetinn, Sæmund. Þegar Jón lést, árið 1197, mun Sæmundur hafa tekið við sem helsti fyrirmaður þessa héraðsveldis þótt ekki tæki hann umsvifalaust við öllum goðorðum þess. Í Sturlungu er sagt um Sæmund að hann „þótti göfgastur maður á Íslandi“. Þar er kannski átt við ættgöfgi hans vegna þess að langafi hans hafði verið konungur. Í Sturlungu virðist stundum vera gefið í skyn að Sæmundur hafi ekki verið sérstaklega skarpur eða snöggur að taka ákvarðanir. Til dæmis segir á einum stað frá því að hann fór með öðrum mönnum vestur að Hvammi í Dölum til að stefna Sturlu bónda fyrir rétt. Sturla kallaði til komumanna: „Er Sæmundur þar?“ Sæmundur svaraði: „Eg þykjumst hér vera.“ Þá sagði Sturla: „Miklu muntu vera maður vitrari en eigi munir þú vita hvort þú ert eða aðrir menn.“ Það er eins og Sturla hafi þóst hafa ástæðu til að efast um vitsmuni Sæmundar.
Oddi hefur verið kirkjustaður frá upphafi kristni og var eitt mesta höfðingja– og menntasetur landsins fyrr á tímum. Sæmundur á selnum, Oddakirkja, Eyjafjallajökull 21.4.2010. Ljósm. Þór Jakobsson
Upp frá þessu dró líka smám saman úr veldi Oddaverja. Sæmundur Jónsson gekk aldrei í hjónaband en eignaðist ellefu börn með fjórum konum. Hann átti sjö syni en enginn þeirra virðist hafa fengið eða tekið að sér stöðu héraðshöfðingja. Segir í Sturlunga sögu að fólk hafi helst viljað Hálfdan Sæmundarson á Keldum til höfðingja, „en Hálfdan var óhlutdeilinn og hélt sér lítt fram um flesta hluti.“ Síðan er haldið áfram með þá bræður:
Björn Sæmundarson bjó þá í Gunnarsholti. Hann hélt sér mest til mannvirðingar þeirra bræðra. Þeir Haraldur og Vilhjálmur bjuggu í Odda en Andrés að Eyvindarmúla áður hann keypti Skarð hið ytra að Katli Þorlákssyni. Filippus bjó að Hvoli. Og voru þeir allir góðir bændur, en mikið var heimt að þeim fyrir sakir föður þeirra.
Meðal fyrirfólks í Rangárþingi virðist kona Hálfdanar hafa verið einna mestur foringi. Hún hét Steinvör Sighvatsdóttir og var af Sturlungaætt, dóttir Sighvats Sturlusonar á Grund í Eyjafirði. Hún komst svo langt að vera valin í gerðardóm ásamt Skálholtsbiskupi, og var tekið fram að hún skyldi gera ein ef þau yrðu ekki sammála. Þetta er einstakt um konu á þessum tíma, en auðvitað var þess ekki að vænta að hún fengi raunverulega höfðingjastöðu. Konur máttu ekki einu sinni fara með goðorð.
Á síðustu árum þjóðveldisins, þegar Hákon Hákonarson Noregskonungur gerði úrslitatilraun sína til að ná völdum á Íslandi, voru Oddaverjar nokkuð ósamkvæmir sjálfum sér í afstöðu til konungs. Um 1250 voru tveir þeirra, Filippus og Haraldur Sæmundarsynir, í Noregi og gáfu konungi upp mannaforráð sín. En þeir fórust á leiðinni heim, og virðast bræður þeirra og aðrir frændur ekki hafa talið sig bundna af valdaafsali þeirra. Árið 1260, eftir að Gissur Þorvaldsson var orðinn jarl konungs á Íslandi, sóru Rangæingar jarli og konungi trúnaðareiða á fundi heima í héraði. Forystumenn þeirra voru þá Björn Sæmundarson og Loftur Hálfdanarson Sæmundarsonar. En á Alþingi 1262, þegar fulltrúar fyrir Norðurland, Vesturland og Suðurland austur að Þjórsá sóru Noregskonungi land og þegna, voru Oddaverjar hvergi nálægt og virðast ekki hafa talið sig bundna af fyrri svardögum. Árið eftir „játuðu Oddaverjar Noregskonungum skatti fyrir austan Þjórsá um Sunnlendingafjórðung.“ Þetta stendur í annál en er hvergi nefnt annars staðar svo að ókunnugt er um tildrög þess. Árið eftir gerðu Oddaverjar tilraun til að vinna á Gissuri jarli, væntanlega í því skyni að losa um tök konungs á landinu. Þeirri aðför stýrði Þórður Andrésson Sæmundarsonar. En atlaga þeirra mistókst og varð til þess að Gissur jarl lét hálshöggva Þórð 27. september 1264. Var þá lokið veldi Oddaverja.
Heimildir og mynd:
Gunnar Karlsson: Goðamenning. Staða og áhrif goðorðsmanna í þjóðveldi Íslendinga. Reykjavík, Heimskringla, 2004.
Helgi Þorláksson: Gamlar götur og goðavald. Um fornar leiðir og völd Oddaverja í Rangárþingi. Ritsafn Sagnfræðistofnunar XXV. Reykjavík, Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 1989.
Íslenzk fornrit I. Íslendingabók. Landnámabók. Jakob Benediktsson gaf út. Reykjavík, Hið íslenzka fornritafélag, 1968.
Íslenzk fornrit XV–XVI. Biskupa sögur I–II. Reykjavík, Hið íslenzka fornritafélag, 2002–03.
Jón Thor Haraldsson: Ósigur Oddaverja. Ritsafn Sagnfræðistofnunar XXII. Reykjavík, Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 1988.
Sturlunga saga I–II. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn sáu um útgáfuna. Reykjavík, Sturlunguútgáfan, 1946.
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvað er að segja um Oddaverja á Sturlungaöld?“ Vísindavefurinn, 17. október 2014, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=29583.
Gunnar Karlsson (1939-2019). (2014, 17. október). Hvað er að segja um Oddaverja á Sturlungaöld? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=29583
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvað er að segja um Oddaverja á Sturlungaöld?“ Vísindavefurinn. 17. okt. 2014. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=29583>.