Myndbreyting er flokkuð eftir myndunarháttum, en meginflokkarnir eru þrír: innskots-myndbreyting (e. contact metamorphism), fellinga-myndbreyting (e. regional metamorphism) og fergingar-myndbreyting (e. burial metamorphism). Innskots-myndbreyting verður, eins og nafnið bendir til, kringum innskot, ekki síst stóra granít-hleyfa (sjá tvær næstu myndir). Fræg dæmi eru granítin í Cornwall á Englandi, en hér á landi hefur myndbreytingu af þessu tagi verið lýst kringum ýmsar fornar megineldstöðvar sem jökulrof hefur fært upp á yfirborðið.
Fellinga-myndbreyting verður í rótum fellingafjalla, en þau hlaðast upp yfir sökkbeltum þar sem hafsbotnsskorpa sekkur niður í jarðmöttulinn. Dæmi um virk fellingafjöll eru Andes- og Klettafjöll á vesturbrún Suður- og Norður-Ameríku, og Alpafellingin sem teygir sig frá Vestur-Evrópu til Himalajafjalla. Yfir sökkbeltum safnast gríðarþykkir staflar af seti sem hitna upp af völdum geislavirkra efna og myndbreytast. Í tímans rás rofna fellingafjöllin og myndbreytt berg opnast á yfirborði. Meginlandsskildir jarðar eru mestmegnis berg þannig myndað. (Sjá grein Sigurðar Steinþórssonar (2001) Myndun meginlandskorpu, Náttúrufræðingurinn 70: 165-174).
Fergingar-myndbreyting verður þegar berg grefst undir yngra bergi og hitnar aftur eftir ríkjandi hitastigli. Megindæmi er hafsbotninn og þar með jarðskorpa Íslands. Ekki er að því hlaupið að skoða slíka myndbreytingu, en frægir staðir eru svonefnd ófíólít, sem eru hlunkar af hafsbotnsskorpu sem orðið hafa innlyksa í fellingafjöllum. Kunnur staður er Troodos-hálendið á Kýpur, þar sem norðurrek Afríku hefur þrýst hafsbotnsskorpu forn-Miðjarðarhafs upp á meginlandsskorpu Evrópu. Myndir: Sigurður Steinþórsson.