Þrátt fyrir að búið sé að finna um 300 stjörnur sem plánetur eru á braut um, þá er ekki víst að allar þessar stjörnur sjáist frá þéttbýlum svæðum vegna ljósmengunar. Einnig er rétt að hafa í huga að leikmenn geta átt í erfiðleikum með að finna tiltekna stjörnu á himninum. Til að það sé hægt þarf stjarnan helst að vera það björt að hún sjáist með berum augum og einnig þarf hún að vera nálægt einhverjum stjörnumerkjum eða öðrum kennileitum til þess að hægt sé að "benda" á hana. Þessi skilyrði stytta talsvert listann yfir stjörnukerfi sem koma til greina. Árið 2006 staðfestu stjörnufræðingar að það er pláneta á braut um stjörnuna Pollux, sem er appelsínugulur risi í um 34ra ljósára fjarlægð frá jörðu. Pollux er skærasta stjarnan í stjörnumerkinu Tvíburunum. Plánetan á braut um stjörnuna er kölluð Pollux b, og er hún gasrisi líkt og Júpíter og Satúrnus. Pollux b er rúmlega tvisvar sinnum massameiri en Júpíter, það tekur hana um 1,6 ár að fara hringinn í kringum stjörnuna sína, og hún er álíka langt frá stjörnunni sinni og Mars er frá sólinni þegar Mars er hvað lengst í burtu.
Til að finna Pollux á næturhimninum er best að fara aðeins út fyrir vel lýst svæði til að draga úr ljósmengun; á höfuðborgarsvæðinu hentar ágætlega að fara út í Kaldársel eða aðeins út fyrir Rauðavatn. Fyrst er ágætt að finna stjörnumerkið sem Pollux er í, en Tvíburarnir eru mitt á milli vel þekktu stjörnumerkjanna Karlsvagnsins og Óríons, og Pollux er svo neðri og vinstri stjarnan í Tvíburunum. Áhugamenn um stjörnuskoðun ættu að skoða Stjörnufræðivefinn, en þar má bæði finna ýmsan fróðleik um stjörnurnar og ábendingar um stjörnuskoðun. Einnig er vert að benda á vefsíðu Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, sem býður bæði upp á námskeið um stjörnuskoðun og aðstöðu til stjörnuskoðunar. Tengt efni á Vísindavefnum:
- Hvernig er best að finna Pólstjörnuna? eftir SHB.
- Hvað er búið að finna mörg sólkerfi? eftir ÞV.
- Hvaða stjörnur og stjörnuþokur eru í Krabbamerkinu? eftir Sævar Helga Bragason.
- Hvað er átt við með ljósmengun, er það mikið vandamál á Íslandi og hvað er til ráða gegn því? eftir Þorstein Vilhjálmsson og Sævar Helga Bragason.
- Grein á Wikipedia um plánetur í öðrum sólkerfum.
- Pollux b á Wikipedia.
- Teikning af plánetu var fengin af Wikipedia.
- Stjörnukortið var fengið hjá Stjörnufræðivefnum, og er birt með leyfi umsjónarmanna hans.
Er hægt á stjörnubjartri nóttu að benda á ákveðna stjörnu (hér á norðurhveli) og segja að þarna sé sól með plánetu sem stjörnufræðingar hafa fundið? Leiðbeiningar óskast líka um hvernig þægilegast væri að finna hana (sbr. Stóri-Björn til að finna pólstjörnuna).