Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað er átt við með ljósmengun, er það mikið vandamál á Íslandi og hvað er til ráða gegn því?

Þorsteinn Vilhjálmsson og Sævar Helgi Bragason

Með orðinu ljósmengun (e. light pollution) er átt við þau áhrif á umhverfið sem verða af mikilli og óhóflegri lýsingu í næturmyrkri. Þessi áhrif felast öðru fremur í því að menn sjá stjörnuhimininn illa þegar þeir eru staddir inni í stórborgum nútímans eða annars staðar þar sem ljósmengunar gætir. Þetta truflar bæði stjörnufræðinga við störf sín og einnig almenna borgara sem vilja njóta þeirrar náttúrufegurðar sem næturhiminninn hefur að bjóða.

Ljósmengun fækkar bæði verulega þeim stjörnum sem sjást með berum augum og eins verða hinar til muna daufari en ella. Allir sem búa í borgum en hafa jafnframt virt himininn fyrir sér úti á víðavangi, fjarri þéttbýli eða öðrum uppsprettum ljósmengunar, munu kannast við að slíkt er eins og opinberun miðað við þá daufu mynd sem borgarbúinn verður að láta sér nægja heima hjá sér.

Ljósmengun er þannig hliðstæð annarri sjónmengun (visual pollution) sem svo er kölluð og stafar af umsvifum mannanna. Þá er átt við hvers konar fyrirbæri af manna völdum sem trufla augað og skerða fegurð umhverfisins án þess að valda endilega neinu öðru tjóni. Þannig er ljósmengunin til dæmis hliðstæð mengun sem við teljum stafa af miklum sýnilegum reyk frá verksmiðju, þó að í honum sé kannski ekkert annað en meinlaus vatnsgufa. Ósmekklegt veggjakrot og ljótt drasl í fallegu umhverfi telst einnig til sjónmengunar svo að dæmi séu tekin. En Reykvíkingar mundu áreiðanlega hrökkva illilega við ef verksmiðjureykur færi að byrgja þeim sýn til Esjunnar og á sama hátt viljum við ekki missa umyrðalaust eða hugsunarlaust af næturhimninum sem uppsprettu fegurðar og fróðleiks í lífi okkar.



Víða í heiminum er ljósmengun orðið mikið vandamál, sbr. myndina hér að ofan, enda virðast menn víðast hvar enn ekki sjá neina ástæðu til þess að draga úr lýsingu og spara sér þannig háar fjárhæðir.

Barátta stjörnuáhugamanna og náttúruverndarfólks hefur þó víða vakið athygli á þessu vandamáli og leitt til umbóta; stjórnmálamennirnir hafa tekið við sér þegar þeim er bent á peningana sem sparast á minni lýsingu. Alþjóðleg samtök áhugmanna og hagsmunaaðila, t.d. International Dark-Sky Association, hafa verið stofnuð og náð góðum árangri með því að benda á augljósar úrlausnir sem Íslendingar mættu líka gjarnan tileinka sér. Lýsing hefur sums staðar tekið miklum stakkaskiptum, orkunotkun minnkað talsvert og lýsing orðið þægilegri. Orkusparnaður úti í heimi, þar sem minna er um umhverfisvæn orkuver en hér, dregur auk þess örlítið úr loftmengun. Það er því til mikils að vinna að spara ljósið.

Nú halda kannski margir að þetta vandamál sé ekki til hér hjá okkur. Það er þó öðru nær eins og menn sjá glöggt ef þeir aka út fyrir borgarmörkin á vetrarkvöldi. Jafnvel langleiðina að Þingvöllum er ljósbjarminn frá höfuðborginni, öðrum smærri bæjum og ekki síst sér frá gróðurhúsum svo ótrúlega mikill að jafnvel vetrarbrautarslæðan sést varla og norðurljósin nánast hverfa! Og þegar ekið er til að mynda um víðlendar sveitir Suðurlands mynda gróðurhúsahverfin eins konar eyjar ljósmengunar sem stinga í stúf við alla náttúruna í kring.

Algengasta orsök ljósmengunar er sú að frágangi ljósa er ábótavant. Þá berst ljós ýmist til hliðar eða einfaldlega beint upp í himininn, engum til gagns, og til verður ótrúlega mikill bjarmi sem sést víða að. Illa hönnuð götuljós eru skýrt dæmi um þetta, til að mynda keilu- eða kúlulaga ljós sem eru algeng í íbúðarhverfum. Ljóskastarar sem lýsa upp byggingar, til dæmis ljósin fyrir framan Háskóla Íslands, eða bílastæði, íþróttavelli og því um líkt geta verið slæmir því að mikið af ljósinu á slíkum stöðum fer beint upp í himininn og lýsir því ekki á neitt. Sumir ganga meira að segja svo langt að lýsa upp einhverja steina eða tré í garðinum hjá sér með því að setja ljóskastara ofan í jörðina, og lýsa þannig beint upp í himininn! Mjög skær ljós, til dæmis flúrljós, sem lýsa beint í augun, valda glýju og gera þau ónæmari, eru líka mjög slæmir mengunarvaldar.

Einfaldasta og ódýrasta leiðin til að draga úr ljósmengun er að nota ljósbúnað sem lýsir einungis niður. Ljós með góðum hlífum eða skermum koma þar vel að gagni. Garðyrkjubændur eiga kost á lömpum frá framleiðendum sem nýta betur ljósið í gróðurhúsunum án þess að það fari beint upp í loftið; þannig sparast peningar á orkureikningnum og uppskeran vex jafnvel. Meiri uppskera fyrir minni kostnað skilar sér síðan til neytenda í formi ódýrari vöru. Sumarbústaðaeigendur geta keypt ljós með rofum sem skynja hreyfingu og aukið þannig öryggi bústaðarins um leið. Ljós sem loga í sífellu gera ekkert annað en að draga athyglina að bústaðnum og auka þannig líkurnar á innbrotum. Sumarbústaður sem ekki sést í myrkri laðar engan að sér.

Ríki, bæjar- og sveitarfélög ættu að taka höndum saman um að spara peninga skattgreiðenda með því að draga úr lýsingu. Það mætti gera með því að setja einhvers konar ákvæði um lýsingu í greinargerð um skipulag bæjarins, eins og Borgarbyggð gerði í umhverfisstefnu sinni í apríl árið 2000:
11. Ljósmengun: Við uppsetningu og endurnýjun götulýsingar verður þess gætt að ljósmengun utan svæðis verði í lágmarki.
Ríkið ætti að huga betur að vali á ljósum á þjóðvegum landsins en gert hefur verið hingað til. Sumir skipulags- og umferðarfræðingar hafa jafnvel fært rök fyrir því að aukin lýsing á þjóðvegum landsins auki ekki öryggi vegfarenda, heldur aðeins aksturshraðann og því um leið slysahættuna.

Minni orkunotkun skilar sér til baka á ótrúlega stuttum tíma. Þar sem ráðist hefur verið í úrbætur annars staðar í heiminum, hefur aðeins tekið nokkur ár að borga upp kostnaðinn sem fór í úrbæturnar, einfaldlega með þeim peningum sem spöruðust á minni orkunotkun.

Gleymum því ekki að næturhimininn er eitt af mestu undrum náttúrunnar og hefur verið uppspretta fegurðar og fróðleiks allt frá því að menn urðu til. Því miður njóta hans færri en skyldi, en allir heillast af honum þegar hann sést ómengaður í öllu sínu veldi.

Heimildir:

Höfundar

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Sævar Helgi Bragason

stjörnufræðikennari

Útgáfudagur

26.6.2003

Spyrjandi

Sveinbjörg Dagbjartsdóttir

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson og Sævar Helgi Bragason. „Hvað er átt við með ljósmengun, er það mikið vandamál á Íslandi og hvað er til ráða gegn því?“ Vísindavefurinn, 26. júní 2003. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3531.

Þorsteinn Vilhjálmsson og Sævar Helgi Bragason. (2003, 26. júní). Hvað er átt við með ljósmengun, er það mikið vandamál á Íslandi og hvað er til ráða gegn því? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3531

Þorsteinn Vilhjálmsson og Sævar Helgi Bragason. „Hvað er átt við með ljósmengun, er það mikið vandamál á Íslandi og hvað er til ráða gegn því?“ Vísindavefurinn. 26. jún. 2003. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3531>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er átt við með ljósmengun, er það mikið vandamál á Íslandi og hvað er til ráða gegn því?
Með orðinu ljósmengun (e. light pollution) er átt við þau áhrif á umhverfið sem verða af mikilli og óhóflegri lýsingu í næturmyrkri. Þessi áhrif felast öðru fremur í því að menn sjá stjörnuhimininn illa þegar þeir eru staddir inni í stórborgum nútímans eða annars staðar þar sem ljósmengunar gætir. Þetta truflar bæði stjörnufræðinga við störf sín og einnig almenna borgara sem vilja njóta þeirrar náttúrufegurðar sem næturhiminninn hefur að bjóða.

Ljósmengun fækkar bæði verulega þeim stjörnum sem sjást með berum augum og eins verða hinar til muna daufari en ella. Allir sem búa í borgum en hafa jafnframt virt himininn fyrir sér úti á víðavangi, fjarri þéttbýli eða öðrum uppsprettum ljósmengunar, munu kannast við að slíkt er eins og opinberun miðað við þá daufu mynd sem borgarbúinn verður að láta sér nægja heima hjá sér.

Ljósmengun er þannig hliðstæð annarri sjónmengun (visual pollution) sem svo er kölluð og stafar af umsvifum mannanna. Þá er átt við hvers konar fyrirbæri af manna völdum sem trufla augað og skerða fegurð umhverfisins án þess að valda endilega neinu öðru tjóni. Þannig er ljósmengunin til dæmis hliðstæð mengun sem við teljum stafa af miklum sýnilegum reyk frá verksmiðju, þó að í honum sé kannski ekkert annað en meinlaus vatnsgufa. Ósmekklegt veggjakrot og ljótt drasl í fallegu umhverfi telst einnig til sjónmengunar svo að dæmi séu tekin. En Reykvíkingar mundu áreiðanlega hrökkva illilega við ef verksmiðjureykur færi að byrgja þeim sýn til Esjunnar og á sama hátt viljum við ekki missa umyrðalaust eða hugsunarlaust af næturhimninum sem uppsprettu fegurðar og fróðleiks í lífi okkar.



Víða í heiminum er ljósmengun orðið mikið vandamál, sbr. myndina hér að ofan, enda virðast menn víðast hvar enn ekki sjá neina ástæðu til þess að draga úr lýsingu og spara sér þannig háar fjárhæðir.

Barátta stjörnuáhugamanna og náttúruverndarfólks hefur þó víða vakið athygli á þessu vandamáli og leitt til umbóta; stjórnmálamennirnir hafa tekið við sér þegar þeim er bent á peningana sem sparast á minni lýsingu. Alþjóðleg samtök áhugmanna og hagsmunaaðila, t.d. International Dark-Sky Association, hafa verið stofnuð og náð góðum árangri með því að benda á augljósar úrlausnir sem Íslendingar mættu líka gjarnan tileinka sér. Lýsing hefur sums staðar tekið miklum stakkaskiptum, orkunotkun minnkað talsvert og lýsing orðið þægilegri. Orkusparnaður úti í heimi, þar sem minna er um umhverfisvæn orkuver en hér, dregur auk þess örlítið úr loftmengun. Það er því til mikils að vinna að spara ljósið.

Nú halda kannski margir að þetta vandamál sé ekki til hér hjá okkur. Það er þó öðru nær eins og menn sjá glöggt ef þeir aka út fyrir borgarmörkin á vetrarkvöldi. Jafnvel langleiðina að Þingvöllum er ljósbjarminn frá höfuðborginni, öðrum smærri bæjum og ekki síst sér frá gróðurhúsum svo ótrúlega mikill að jafnvel vetrarbrautarslæðan sést varla og norðurljósin nánast hverfa! Og þegar ekið er til að mynda um víðlendar sveitir Suðurlands mynda gróðurhúsahverfin eins konar eyjar ljósmengunar sem stinga í stúf við alla náttúruna í kring.

Algengasta orsök ljósmengunar er sú að frágangi ljósa er ábótavant. Þá berst ljós ýmist til hliðar eða einfaldlega beint upp í himininn, engum til gagns, og til verður ótrúlega mikill bjarmi sem sést víða að. Illa hönnuð götuljós eru skýrt dæmi um þetta, til að mynda keilu- eða kúlulaga ljós sem eru algeng í íbúðarhverfum. Ljóskastarar sem lýsa upp byggingar, til dæmis ljósin fyrir framan Háskóla Íslands, eða bílastæði, íþróttavelli og því um líkt geta verið slæmir því að mikið af ljósinu á slíkum stöðum fer beint upp í himininn og lýsir því ekki á neitt. Sumir ganga meira að segja svo langt að lýsa upp einhverja steina eða tré í garðinum hjá sér með því að setja ljóskastara ofan í jörðina, og lýsa þannig beint upp í himininn! Mjög skær ljós, til dæmis flúrljós, sem lýsa beint í augun, valda glýju og gera þau ónæmari, eru líka mjög slæmir mengunarvaldar.

Einfaldasta og ódýrasta leiðin til að draga úr ljósmengun er að nota ljósbúnað sem lýsir einungis niður. Ljós með góðum hlífum eða skermum koma þar vel að gagni. Garðyrkjubændur eiga kost á lömpum frá framleiðendum sem nýta betur ljósið í gróðurhúsunum án þess að það fari beint upp í loftið; þannig sparast peningar á orkureikningnum og uppskeran vex jafnvel. Meiri uppskera fyrir minni kostnað skilar sér síðan til neytenda í formi ódýrari vöru. Sumarbústaðaeigendur geta keypt ljós með rofum sem skynja hreyfingu og aukið þannig öryggi bústaðarins um leið. Ljós sem loga í sífellu gera ekkert annað en að draga athyglina að bústaðnum og auka þannig líkurnar á innbrotum. Sumarbústaður sem ekki sést í myrkri laðar engan að sér.

Ríki, bæjar- og sveitarfélög ættu að taka höndum saman um að spara peninga skattgreiðenda með því að draga úr lýsingu. Það mætti gera með því að setja einhvers konar ákvæði um lýsingu í greinargerð um skipulag bæjarins, eins og Borgarbyggð gerði í umhverfisstefnu sinni í apríl árið 2000:
11. Ljósmengun: Við uppsetningu og endurnýjun götulýsingar verður þess gætt að ljósmengun utan svæðis verði í lágmarki.
Ríkið ætti að huga betur að vali á ljósum á þjóðvegum landsins en gert hefur verið hingað til. Sumir skipulags- og umferðarfræðingar hafa jafnvel fært rök fyrir því að aukin lýsing á þjóðvegum landsins auki ekki öryggi vegfarenda, heldur aðeins aksturshraðann og því um leið slysahættuna.

Minni orkunotkun skilar sér til baka á ótrúlega stuttum tíma. Þar sem ráðist hefur verið í úrbætur annars staðar í heiminum, hefur aðeins tekið nokkur ár að borga upp kostnaðinn sem fór í úrbæturnar, einfaldlega með þeim peningum sem spöruðust á minni orkunotkun.

Gleymum því ekki að næturhimininn er eitt af mestu undrum náttúrunnar og hefur verið uppspretta fegurðar og fróðleiks allt frá því að menn urðu til. Því miður njóta hans færri en skyldi, en allir heillast af honum þegar hann sést ómengaður í öllu sínu veldi.

Heimildir:...