- Eðlislægur skjálfti.
- Sterkar tilfinningar eða streita.
- Líkamleg þreyta.
- Lágur blóðsykur.
- Mikil koffínneysla.
- Langvarandi áfengisfíkn.
- Fráhvarf frá áfengi eða öðrum vímuefnum.
- Ofvirkur skjaldkirtill (e. hypothyroidism).
- Trufluð vöðvaspenna (e. dystonia).
- Taugaskaði til dæmis vegna heilablóðfalls eða heilaæxlis.
- Geðraskanir.
- Hrörnunarsjúkdómar á við Parkinsonsveiki og heila- og mænusigg (e. multiple sclerosis, MS).
- Aukaverkanir vegna lyfjanotkunar.
Skjálfta má skipta upp í skjálfta í hvíld (e. rest tremor) og skjálfta við viljastýrða hreyfingu (e. action tremor). Skjálfti í hvíld, til dæmis þegar hendurnar eru látnar liggja í kjöltunni, eykst með andlegri streitu og er eitt einkenni Parkinsonsveiki. Skjálfti við viljastýrða hreyfingu eins og við að skrifa eða borða er einkenni margra sjúkdóma og raskana, til dæmis eðlislægs skjálfta, heilablóðfalls, heilaæxlis og MS-veikinnar. Eðlislægur skjálfti (e. essential tremor) er röskun í taugakerfinu sem einkennist af skjálfta, helst í vöðvum í handleggjum, höndum, andliti og hálsi. Skjálftinn er ekki til staðar í hvíld en veldur erfiðleikum við dagleg störf, svo sem að borða, skrifa og klæða sig og eykst við lágan blóðsykur, mikla þreytu og ef einstaklingur er í tilfinningalegu uppnámi. Nákvæm orsök er ekki þekkt en röskunin tengist ákveðnum genaþáttum og getur erfst á milli kynslóða. Parkinsonsveiki er hrörnunarsjúkdómur sem stafar af breytingum í heila sem leiða til óeðlilegra hreyfinga og minnkaðrar hreyfigetu. Frumur sem innihalda taugaboðefnið dópamín í svartfyllu (e. substantia nigra) í heila deyja og skert magn dópamíns veldur því að taugar sem stjórna vöðvahreyfingum starfa ekki eðlilega. Einstaklingar með Parkinsons þjást ekki aðeins af skjálfta í höndum heldur einnig í handleggjum, fótum og bol og þróa að lokum með sér það sem kallast seinhreyfni (e. bradykinesis) sem einkennist af hægum hreyfingum og skyndilegri stöðvun vöðvahreyfinga. Einnig fylgja erfiðleikar við samhæfingu hreyfinga og lélegt jafnvægi. Orsök sjúkdómsins er ekki þekkt, en bæði erfða- og umhverfisþættir virðast spila hlutverk. Síendurtekinn og langvarandi skjálfti getur verið vegna taugaskaða til dæmis eftir heilablóðfall eða heilaæxli. Taugahrörnunarsjúkdómurinn heila- og mænusigg, einnig þekkt sem MS, einkennist einnig af skjálfta og minnkaðri hreyfigetu. Handskjálfti sem stendur yfir í stuttan tíma er venjulega ekki hættulegur en fremur óþægilegur og getur valdið félagslegum vandamálum. Ef skjálfti er hins vegar síendurtekinn, eða varir í lengri tíma án sýnilegrar ástæðu á við lágan blóðsykur eða streitu, er ráðlegt að leita til læknis þar sem skjálftinn gæti verið einkenni alvarlegs sjúkdóms. Atburðir í æsku svo sem högg eða annar skaði sem hefur áhrif á höfuð og heila auka líkur á að einstaklingar fá skjálfta síðar á ævinni, til dæmis sem einkenni Parkinsonssjúkdómsins. Heimildir og frekari fróðleikur: Mynd:
- Livestrong. Sótt 18. 7. 2011.