Aldur trjánna Flestar grenitegundir eru langlífar og hafa langt æskuskeið áður en trén byrja að blómstra og bera fræ. Oft hefst blómgun og fræmyndun ekki fyrr en trén eru 30-40 ára gömul og hámarks fræmyndun næst ekki fyrr en trén ná 80-100 ára aldri. Þótt til séu örfá rauðgreni- og blágrenitré sem orðin eru hundrað ára gömul og nokkur sitkagrenitré komin yfir sjötugt, þá er næstum allt greni hér á landi innan við sextugt og mest talsvert yngra en það. Stór hluti grenis á Íslandi er því tiltölulega nýlega orðinn kynþroska og því eðlilegt að það hafi ekki sáð sér mikið fram að þessu. Sjálfsáning á væntanlega eftir að aukast á komandi áratugum, sérstaklega hjá sitkagreni. Svöl sumur Blómmyndun hjá barrtrjám er háð hita sumarsins á undan blómgun. Hversu mikinn hita þarf til að örva blómgun fer eftir aðlögun viðkomandi tegundar að veðurfari í heimkynnum sínum. Sitkagreni er aðlagað sumarsvölu, hafrænu loftslagi eins og á Íslandi og þarf því ekki mjög háan sumarhita til að blómgun þess örvist. Rauðgreni, hvítgreni og blágreni eru hins vegar meginlandstegundir sem þurfa hærri sumarhita til að örva blómgun. Í flestum árum er of svalt á Íslandi á sumrin til að örva teljandi blómgun á þeim tegundum. Þá skiptir sumarhiti einnig máli varðandi fræþroska. Ef blómgunarsumarið er stutt og/eða svalt verður fræið illa þroskað, spírunarþróttur verður lítill og ólíklegt að ungplönturnar lifi. Dreifigeta fræja Fræ grenitegunda eru vængjuð en tiltölulega þung miðað við stærð vængsins. Þau berast því ekki langar leiðir með vindi og flest falla til jarðar skammt frá móðurtrénu. Sjálfsáning er háð því að heppileg fræset séu til staðar nálægt móðurtrjánum. Fræin þurfa að komast í snertingu við mold eða annað álíka rakt undirlag til að spíra. Of mikið gras eða mosi kemur í veg fyrir að fræin nái að komast að moldinni og þau spíra þá ekki. Mest er sjálfsáning í vegaköntum, beðum eða öðrum stöðum þar sem fræin komast í snertingu við mold. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum eftir sama höfund:
- Hvernig myndast árhringir í trjám?
- Hvað þýðir það að tré séu í vetrardvala?
- Af hverju missir lerki ekki barrið á veturna?
- Suðurlandsskógar. Sótt 24. 8. 2010.
Fjölga grenitré sér með sjálfsáningu á Íslandi og ef ekki, af hverju ekki?