Sturlungaöld er oft lýst sem einu ofbeldisfyllsta tímabili Íslandssögunnar. Eru til heimildir um hversu margir voru vegnir á Sturlungaöld?Nokkuð hefur verið á reiki hvaða tímabil falli innan marka Sturlungaaldar. Hún hefur verið talin hefjast um miðja 12. öld, um 1200, 1220 eða 1230. Lok hennar eru jafnan talin við lok þjóðveldis, 1262 eða 1264. Hér virðst skakka nokkuð miklu þegar Sturlungaöld telst vera í mesta lagi um 114 ár en minnst 32 ár. En Guðbrandur Vigfússon fornritafræðingur taldi saman að um 370 manns hefði fallið í orustum eða verið teknir af lífi í ófriði samkvæmt sögum á tímabilinu 1208–58. Mikill meirihluti þeirra hefur týnt lífi á hinni stuttu Sturlungaöld eftir 1230. Mannskæðasta orustan sem sagt er frá er Haugsnesbardagi í Skagafirði 1246, þar sem þeir áttust við Þórður kakali Sighvatsson og Brandur Kolbeinsson. „Var þetta hin snarpasta orusta, svo að engi hefir slík orðið á Íslandi, bæði að fjölmenni og mannfalli.“ Féllu þar eitthvað rúmlega hundrað manns, nær 40 úr liði Þórðar en 60–70 af Brandi. Í Flóabardaga á Húnaflóa 1242 féllu milli 70 og 80 úr liði Kolbeins unga Arnórssonar (eða milli 50 og 60 samkvæmt sumum handritum) en Þórðar kakali missti „fáa eina“ úr sínu liði. Taldir eru upp með nöfnum þeir sem féllu í Örlygsstaðabardaga í Skagafirði 1238, og eru þeir 56 talsins, 24 úr liði Sturlu Sighvatssonar, 25 úr liði Sighvats Sturlusonar, föður hans, sjö úr liði Gissurar Þorvaldssonar. Enginn er talinn úr liði Kolbeins unga Arnórssonar, og vantar þar líklega í upptalninguna. Í Flugumýrarbrennu í Skagafirði 1253 fórust um 25 manns. Í Þverárbardaga í Eyjafirði 1255 féllu líklega 16 menn, átta úr hvoru liði. Hér er þegar komið um 270 manns.

Haugsnesbardagi 1246 er mannskæðasti bardagi sem háður hefur verið á Íslandi. Hér er bardaginn í túlkun listamannsins Jóhannesar Geirs (1927-2003).
- Gunnar Karlsson: „Frá þjóðveldi til konungsríkis.“ Saga Íslands II (Reykjavík, Bókmenntafélag, 1975), 1–54.
- Gunnar Karlsson: Inngangur að miðöldum. Handbók í íslenskri miðaldasögu I. Reykjavík, Háskólaútgáfan, 2007.
- Sigurður Nordal: Íslenzk menning I. Reykjavík, Mál og menning, 1942.
- Sturlunga Saga, including the Islendinga Saga of Lawman Sturla Thordsson and other works. Edited with Prologamena … by dr. Gudbrand Vigfusson. I. Oxford, Clarendon Press, 1878.
- Sturlunga saga. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn sáu um útgáfuna. I–II. Reykjavík, Sturlunguútgáfan, 1946.
- Mynd: Atburðasyrpa Jóhannesar Geirs - sturlungaslod.is. Myndin er upprunalega úr handbókinni Á Sturlungaslóð í Skagafirði sem kom út árið 2003 á vegum Héraðsskjala- og Byggðasafns Skagfirðinga og Hólaskóla. (Sótt 11. 3. 2014).