Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hversu margir voru vegnir á Sturlungaöld?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:
Sturlungaöld er oft lýst sem einu ofbeldisfyllsta tímabili Íslandssögunnar. Eru til heimildir um hversu margir voru vegnir á Sturlungaöld?

Nokkuð hefur verið á reiki hvaða tímabil falli innan marka Sturlungaaldar. Hún hefur verið talin hefjast um miðja 12. öld, um 1200, 1220 eða 1230. Lok hennar eru jafnan talin við lok þjóðveldis, 1262 eða 1264. Hér virðst skakka nokkuð miklu þegar Sturlungaöld telst vera í mesta lagi um 114 ár en minnst 32 ár. En Guðbrandur Vigfússon fornritafræðingur taldi saman að um 370 manns hefði fallið í orustum eða verið teknir af lífi í ófriði samkvæmt sögum á tímabilinu 1208–58. Mikill meirihluti þeirra hefur týnt lífi á hinni stuttu Sturlungaöld eftir 1230.

Mannskæðasta orustan sem sagt er frá er Haugsnesbardagi í Skagafirði 1246, þar sem þeir áttust við Þórður kakali Sighvatsson og Brandur Kolbeinsson. „Var þetta hin snarpasta orusta, svo að engi hefir slík orðið á Íslandi, bæði að fjölmenni og mannfalli.“ Féllu þar eitthvað rúmlega hundrað manns, nær 40 úr liði Þórðar en 60–70 af Brandi. Í Flóabardaga á Húnaflóa 1242 féllu milli 70 og 80 úr liði Kolbeins unga Arnórssonar (eða milli 50 og 60 samkvæmt sumum handritum) en Þórðar kakali missti „fáa eina“ úr sínu liði. Taldir eru upp með nöfnum þeir sem féllu í Örlygsstaðabardaga í Skagafirði 1238, og eru þeir 56 talsins, 24 úr liði Sturlu Sighvatssonar, 25 úr liði Sighvats Sturlusonar, föður hans, sjö úr liði Gissurar Þorvaldssonar. Enginn er talinn úr liði Kolbeins unga Arnórssonar, og vantar þar líklega í upptalninguna. Í Flugumýrarbrennu í Skagafirði 1253 fórust um 25 manns. Í Þverárbardaga í Eyjafirði 1255 féllu líklega 16 menn, átta úr hvoru liði. Hér er þegar komið um 270 manns.

Haugsnesbardagi 1246 er mannskæðasti bardagi sem háður hefur verið á Íslandi. Hér er bardaginn í túlkun listamannsins Jóhannesar Geirs (1927-2003).

Auðvitað má ekki gera ráð fyrir að Sturlunga saga sé tæmandi skýrsla um allt mannfall í ófriði Sturlungaaldar. En frásögn hennar þekur tímabilið vel og er víða afar nákvæm. Tölurnar hér að framan sýna líka að þar er lögð áhersla á að segja nákvæmlega frá mannfalli. Því er ástæða til að ætla að þeir 370 sem hafa verið taldir út úr Sturlungu (og kannski biskupasögum um sama tíma) séu verulegur hluti þeirra sem urðu ófriðnum að bráð.

Hvað ætli það hafi verið mikið mannfall miðað við íbúafjölda? Við komumst að sjálfsögðu ekki að nákvæmri niðurstöðu um það, en ónákvæm niðurstaða er betri en engin. Gerum ráð fyrir að Íslendingar hafi verið 50 þúsund. Þar af hefur um fjórðungur, 12.500, verið uppkomnir karlmenn (og aðeins í brennum gátu konur og börn verið í verulegri hættu og þó minni en karlmenn). Álíka margir hafa orðið uppkomnir karlmenn á því tímabili sem hér er fjallað um, svo að segja má að 370 manna mannfall eigi að reikna sem hlutfall af 25 þúsundum. Niðurstaðan verður 1,5% mannfall uppkominna karla.

Við getum líka sagt að mannfallið hafi verið rúmlega 7,4 menn á ári að meðaltali, og er það örugglega minna en banaslys á sjó eftir að Íslendingar tóku að róa á vetrarvertíð. Hefur líka verið sagt að Íslendingar hafi ekki verið dýrseldir á frelsi þjóðarinnar ef þeir tóku við valdi Noregskonungs til að hann kæmi á friði. Á blómatíma þjóðernishyggju skrifaði Sigurður Nordal (sem fór raunar ekki hárrétt með tölurnar frá Guðbrandi) að „Íslendingum hefði verið vorkunnarlaust að þrauka enn um skeið og láta skeika að sköpuðu hvort þeir gætu ekki staðið af sér harðara él ef yfir skylli.“ En þá var gert ráð fyrir að vilji þjóða til að búa við sjálfstæði og mynda ríki í eigin landi sé mannkyninu inngrónari en síðar hefur verið talið. Eins verður að taka fram þegar meðal-mannfall er reiknað út að meðaltöl eru mildari en veruleikinn. Fólk í Eyjafirði og Eyjarþingi (Þingeyjarsýslu) sem missti 25 menn árið 1238 og 40 átta árum síðar, eiginmenn, feður, syni, húsbóndaholla vinnumenn, hefur lifað ófriðinn sem óþolandi plágu.

Heimildir og mynd:

  • Gunnar Karlsson: „Frá þjóðveldi til konungsríkis.“ Saga Íslands II (Reykjavík, Bókmenntafélag, 1975), 1–54.
  • Gunnar Karlsson: Inngangur að miðöldum. Handbók í íslenskri miðaldasögu I. Reykjavík, Háskólaútgáfan, 2007.
  • Sigurður Nordal: Íslenzk menning I. Reykjavík, Mál og menning, 1942.
  • Sturlunga Saga, including the Islendinga Saga of Lawman Sturla Thordsson and other works. Edited with Prologamena … by dr. Gudbrand Vigfusson. I. Oxford, Clarendon Press, 1878.
  • Sturlunga saga. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn sáu um útgáfuna. I–II. Reykjavík, Sturlunguútgáfan, 1946.
  • Mynd: Atburðasyrpa Jóhannesar Geirs - sturlungaslod.is. Myndin er upprunalega úr handbókinni Á Sturlungaslóð í Skagafirði sem kom út árið 2003 á vegum Héraðsskjala- og Byggðasafns Skagfirðinga og Hólaskóla. (Sótt 11. 3. 2014).

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

20.3.2014

Spyrjandi

Breki Karlsson

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hversu margir voru vegnir á Sturlungaöld?“ Vísindavefurinn, 20. mars 2014, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=27852.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2014, 20. mars). Hversu margir voru vegnir á Sturlungaöld? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=27852

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hversu margir voru vegnir á Sturlungaöld?“ Vísindavefurinn. 20. mar. 2014. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=27852>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hversu margir voru vegnir á Sturlungaöld?
Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Sturlungaöld er oft lýst sem einu ofbeldisfyllsta tímabili Íslandssögunnar. Eru til heimildir um hversu margir voru vegnir á Sturlungaöld?

Nokkuð hefur verið á reiki hvaða tímabil falli innan marka Sturlungaaldar. Hún hefur verið talin hefjast um miðja 12. öld, um 1200, 1220 eða 1230. Lok hennar eru jafnan talin við lok þjóðveldis, 1262 eða 1264. Hér virðst skakka nokkuð miklu þegar Sturlungaöld telst vera í mesta lagi um 114 ár en minnst 32 ár. En Guðbrandur Vigfússon fornritafræðingur taldi saman að um 370 manns hefði fallið í orustum eða verið teknir af lífi í ófriði samkvæmt sögum á tímabilinu 1208–58. Mikill meirihluti þeirra hefur týnt lífi á hinni stuttu Sturlungaöld eftir 1230.

Mannskæðasta orustan sem sagt er frá er Haugsnesbardagi í Skagafirði 1246, þar sem þeir áttust við Þórður kakali Sighvatsson og Brandur Kolbeinsson. „Var þetta hin snarpasta orusta, svo að engi hefir slík orðið á Íslandi, bæði að fjölmenni og mannfalli.“ Féllu þar eitthvað rúmlega hundrað manns, nær 40 úr liði Þórðar en 60–70 af Brandi. Í Flóabardaga á Húnaflóa 1242 féllu milli 70 og 80 úr liði Kolbeins unga Arnórssonar (eða milli 50 og 60 samkvæmt sumum handritum) en Þórðar kakali missti „fáa eina“ úr sínu liði. Taldir eru upp með nöfnum þeir sem féllu í Örlygsstaðabardaga í Skagafirði 1238, og eru þeir 56 talsins, 24 úr liði Sturlu Sighvatssonar, 25 úr liði Sighvats Sturlusonar, föður hans, sjö úr liði Gissurar Þorvaldssonar. Enginn er talinn úr liði Kolbeins unga Arnórssonar, og vantar þar líklega í upptalninguna. Í Flugumýrarbrennu í Skagafirði 1253 fórust um 25 manns. Í Þverárbardaga í Eyjafirði 1255 féllu líklega 16 menn, átta úr hvoru liði. Hér er þegar komið um 270 manns.

Haugsnesbardagi 1246 er mannskæðasti bardagi sem háður hefur verið á Íslandi. Hér er bardaginn í túlkun listamannsins Jóhannesar Geirs (1927-2003).

Auðvitað má ekki gera ráð fyrir að Sturlunga saga sé tæmandi skýrsla um allt mannfall í ófriði Sturlungaaldar. En frásögn hennar þekur tímabilið vel og er víða afar nákvæm. Tölurnar hér að framan sýna líka að þar er lögð áhersla á að segja nákvæmlega frá mannfalli. Því er ástæða til að ætla að þeir 370 sem hafa verið taldir út úr Sturlungu (og kannski biskupasögum um sama tíma) séu verulegur hluti þeirra sem urðu ófriðnum að bráð.

Hvað ætli það hafi verið mikið mannfall miðað við íbúafjölda? Við komumst að sjálfsögðu ekki að nákvæmri niðurstöðu um það, en ónákvæm niðurstaða er betri en engin. Gerum ráð fyrir að Íslendingar hafi verið 50 þúsund. Þar af hefur um fjórðungur, 12.500, verið uppkomnir karlmenn (og aðeins í brennum gátu konur og börn verið í verulegri hættu og þó minni en karlmenn). Álíka margir hafa orðið uppkomnir karlmenn á því tímabili sem hér er fjallað um, svo að segja má að 370 manna mannfall eigi að reikna sem hlutfall af 25 þúsundum. Niðurstaðan verður 1,5% mannfall uppkominna karla.

Við getum líka sagt að mannfallið hafi verið rúmlega 7,4 menn á ári að meðaltali, og er það örugglega minna en banaslys á sjó eftir að Íslendingar tóku að róa á vetrarvertíð. Hefur líka verið sagt að Íslendingar hafi ekki verið dýrseldir á frelsi þjóðarinnar ef þeir tóku við valdi Noregskonungs til að hann kæmi á friði. Á blómatíma þjóðernishyggju skrifaði Sigurður Nordal (sem fór raunar ekki hárrétt með tölurnar frá Guðbrandi) að „Íslendingum hefði verið vorkunnarlaust að þrauka enn um skeið og láta skeika að sköpuðu hvort þeir gætu ekki staðið af sér harðara él ef yfir skylli.“ En þá var gert ráð fyrir að vilji þjóða til að búa við sjálfstæði og mynda ríki í eigin landi sé mannkyninu inngrónari en síðar hefur verið talið. Eins verður að taka fram þegar meðal-mannfall er reiknað út að meðaltöl eru mildari en veruleikinn. Fólk í Eyjafirði og Eyjarþingi (Þingeyjarsýslu) sem missti 25 menn árið 1238 og 40 átta árum síðar, eiginmenn, feður, syni, húsbóndaholla vinnumenn, hefur lifað ófriðinn sem óþolandi plágu.

Heimildir og mynd:

  • Gunnar Karlsson: „Frá þjóðveldi til konungsríkis.“ Saga Íslands II (Reykjavík, Bókmenntafélag, 1975), 1–54.
  • Gunnar Karlsson: Inngangur að miðöldum. Handbók í íslenskri miðaldasögu I. Reykjavík, Háskólaútgáfan, 2007.
  • Sigurður Nordal: Íslenzk menning I. Reykjavík, Mál og menning, 1942.
  • Sturlunga Saga, including the Islendinga Saga of Lawman Sturla Thordsson and other works. Edited with Prologamena … by dr. Gudbrand Vigfusson. I. Oxford, Clarendon Press, 1878.
  • Sturlunga saga. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn sáu um útgáfuna. I–II. Reykjavík, Sturlunguútgáfan, 1946.
  • Mynd: Atburðasyrpa Jóhannesar Geirs - sturlungaslod.is. Myndin er upprunalega úr handbókinni Á Sturlungaslóð í Skagafirði sem kom út árið 2003 á vegum Héraðsskjala- og Byggðasafns Skagfirðinga og Hólaskóla. (Sótt 11. 3. 2014).
...