Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Svarið við spurningu þessari er alls ekki einhlítt og fer töluvert eftir því hvaða skilning spyrjandinn leggur í orðið „friðarhreyfing“. Afar margir kjósa að kalla sig friðarsinna, enda munu flestir taka frið fram yfir stríð - að minnsta kosti í orði. Þannig hafa grimmilegustu stríð og ofbeldisverk sögunnar verið framin undir því yfirskini að verið væri að „tryggja friðinn“. Og dæmi eru um að öflug hernaðarbandalög hafi skilgreint sig sem friðarhreyfingar.
Til að komast fram hjá slíkum orðaleikjum telja ýmsir rétt að skilgreina friðarhreyfingarhugtakið afar þröngt, þannig að það nái einungis til þeirra hópa og félagasamtaka sem hafna öllu ofbeldi og aðhyllast friðarstefnu. Helsti hugmyndafræðingur friðarstefnunnar telst vera indverski stjórnmálamaðurinn Mahatma Ghandi, en ýmsir aðrir hugsuðir hafa lagt sitt af mörkum til hennar. Samkvæmt þessari skilgreiningu teljast þeir einir friðarsinnar sem vilja algjöra afvopnun og útiloka með öllu beitingu ofbeldis í deilum milli einstaklinga og þjóða.
Ýmsar trúarhreyfingar hafa í gegnum tíðina boðað friðarstefnu og má þar sérstaklega nefna kvekara, sem telja vopnaburð andstæðan trú sinni. Það er þó fyrst um aldamótin 1900 að friðarhreyfingar koma fram í dagsljósið sem pólitískt afl. Ljóst er að málflutningur slíkra hreyfinga hefur oft orðið til að breyta almenningsálitinu í garð einstakra styrjalda og má þar nefna stríð á borð við Búastríðið, fyrri heimsstyrjöldina og Víetnamstríðið.
Hugmyndafræði friðarsinna hefur alla tíð komið við sögu í deilunum um veru bandaríska hersins á Íslandi og aðild landsins að Atlantshafsbandalaginu, en það hefur þó ekki verið einhlítt. Á sjötta og sjöunda áratugnum voru til dæmis þjóðernissinnuð viðhorf mun fyrirferðarmeiri í málflutningi margra andstæðinga hersetunnar en áhersla á almenna friðarstefnu.
Víetnamstríðið og uppgangur kvenréttindahreyfingarinnar á áttunda áratugnum gaf friðarhreyfingum á Vesturlöndum byr undir báða vængi. Hér á landi sá þessa stað í því að málflutningur andstæðinga bandaríska hersins breyttist. Til að mynda tóku þeir að leggja meiri áherslu á þann fjáraustur sem hernaðaruppbyggingunni fylgdi og þær ógnir sem stríð hefðu í för með sér.
Á níunda áratugnum kom nýr þáttur til sögunnar: kjarnorkuógnin. Hröð uppbygging kjarnorkuvopnabúra risaveldanna jók á ótta almennings við gereyðingarstríð og sú hræðsla olli því að milljónir manna fóru að taka þátt í friðaraðgerðum austan hafs og vestan. Á Íslandi spruttu upp friðarhópar einstakra starfstétta og þjóðfélagshópa. Má þar nefna: fóstrur, ömmur, listamenn, framhaldsskólanema, lækna og eðlisfræðinga. Allir héldu þessir hópar úti skipulögðum friðarhreyfingum, sem flestar hafa þó lognast út af.
Þótt færa megi fyrir því rök að síst sé friðvænlegra í heiminum nú um stundir en fyrir tveimur áratugum, þegar friðarhreyfingin var í sem mestum blóma, eru samtök íslenskra friðarsinna færri og um margt veikari en þá var.
Elsta íslenska friðarhreyfingin sem enn starfar eru Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna. Þau voru stofnuð árið 1951 og fögnuðu því hálfrar aldar afmæli á síðasta ári. Eins og nafnið gefur til kynna er MFÍK einungis ætlað konum.
Samtök herstöðvaandstæðinga voru stofnuð árið 1972, en þau eru arftaki eldra félags, Samtaka hernámsandstæðinga frá árinu 1961. Samtök herstöðvaandstæðinga eru langfjölmennasta félag íslenskra friðarsinna og gefa meðal annars út tímaritið Dagfara.
Ýmsir minni friðarhópar eru einnig starfræktir hérlendis og má þar nefna friðarhóp íslenskra búddista og félagsskap leikskólakennara. Þótt starfsemi þeirra sé kannski ekki ýkja mikil, þá taka þeir þátt í sameiginlegum aðgerðum friðarsinna á borð við friðargöngur á Þorláksmessu í nokkrum kaupstöðum landsins og kertafleytingu í ágúst í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hiroshima og Nagasaki.
Loks er rétt að geta um samtökin Frið 2000, en það eru alþjóðleg samtök sem stofnuð voru af Ástþóri Magnússyni, fyrrum forsetaframbjóðanda. Ekki er þó mikið vitað um starfsemi þeirra hérlendis.
Frekari upplýsingar um íslenska friðarsinna má nálgast á Íslenska friðarvefnum, www.fridur.is.
Myndir:
Stefán Pálsson. „Hvaða friðarhreyfingar eru starfandi á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 4. október 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2760.
Stefán Pálsson. (2002, 4. október). Hvaða friðarhreyfingar eru starfandi á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2760
Stefán Pálsson. „Hvaða friðarhreyfingar eru starfandi á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 4. okt. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2760>.