Er það til í dæminu að Alzheimers-sjúklingar líti í spegil og þekki ekki sjálfan sig?Stutta svarið við spurningunni er: Já, það getur átt sér stað. Fyrirbærinu var sennilega fyrst lýst árið 1928. Þar var um að ræða tæplega sjötugan karlmann með heilabilun. Þegar hann sá sig í spegli reyndi hann stundum að komast á bak við spegilinn til að tala við karlinn sem hann sá og gefa honum tóbak eða peninga. Þetta fyrirbæri, að þekkja ekki eigin spegilmynd, er það algengt að það hefur verið kallað spegileinkenni (e. mirror sign). Spegileinkenni er hinsvegar ónákvæmt hugtak og segir ekkert um það hvaða erfiðleikar liggja að baki. Skilgreiningin á þessu fyrirbæri virðist einnig stundum á reiki og skyldum fyrirbærum ruglað saman. Það er til dæmis ákveðin skörun milli spegileinkennis og þeirrar haldvillu (e. delusion), eða trúar, að óboðinn gestur hafi tekið sér búsetu á heimili sjúklingsins (e. phantom border syndrome). Það er athyglisvert að sjúklingar sem þekkja ekki sjálfa sig í spegli geta stundum þekkt þá sem standa við hliðina á þeim. Það getur bent til þess að í sumum tilvikum tengist spegileinkenni einhvers konar skerðingu í sjálfsvitund. Mjög líklegt er að skýringar á spegileinkenni séu fleiri en ein og sennilega eru þær ólíkar eftir því á hvaða stigi heilabilunarsjúkdómurinn er. Einnig getur önnur hugræn skerðing átt hlut í erfiðleikunum með ýmsum hætti og þannig getur spegileinkenni orsakast af samspili skerðingar í ýmsum hugrænum þáttum. Oft þekkja einstaklingar með langt genginn Alzheimers-sjúkdóm ekki spegilmynd sína þó slíkt geti einnig komið fram hjá þeim sem hafa vægari sjúkdómseinkenni svo og skerta heilastarfsemi af öðrum orsökum. Nefnt hefur verið að á milli 2 og 10% Alzheimers-sjúklinga þekki ekki sjálfa sig í spegli. Hvað svona tölur þýða er þó óljóst því það skiptir máli á hvaða stigi sjúkdómsins þeir eru sem rannsakaðir eru. Trúlega á meirihluti, ef ekki allir, langt leiddra Alzheimers-sjúklinga í þessum vanda og færri þeirra sem eru minna veikir. Það er ekki venja að meta hvort sjúklingar þekki sig í spegli svo þeir gætu verið fleiri en við höldum. Það getur auðvitað valdið kvíða og æsingi hjá sjúklingi sem hefur alvarlega hugræna skerðingu að sjá fólk sem hann hlýtur að álykta sem svo að séu óboðnir gestir þar sem hann áttar sig ekki á eigin spegilmynd. Það getur því verið nauðsynlegt að hylja eða fjarlæga spegla á heimilum fólks með þetta vandamál. Aðrar meðferðarleiðir hafa verið nefndar en gagnsemi þeirra er óljós. Heimildir:
- Caddell, L. S. og Clare, L. (2010). The impact of dementia on self and identity: A systematic review. Clinical Psychology Review, 30, 113-126.
- Chandra, S. R. og Issac, T. G. (2014). Neurodegeneration and mirror image agnosia. North American Journal of Medical Science, 6(9), 472-477.
- Connors, M. H. og Coltheart, M. (2011). On the behaviour of senile dementia patients vis-à-vis the mirror: Ajuriaguerra, Srejilevitch and Tissot (1963). Neuropsychologia, 49, 1679-1692.
- Mulcare, J.L., Nicolson, S.E., Bisen, V.S. og Sostre, S.O. (2012). The mirror sign: A reflection of cognitive decline? Psychosomatics, 53(2), 188-192.
- Yoshida, T., Yuki, N. og Nakagawa, M. (2006). Complex visual hallucination and mirror sign in posterior cortical atrophy. Acta Psychiatrica Scandinavica, 114, 62-66.
- Man In The Mirror | Flickr - Photo Sharing!. (Sótt 30.01.2015).