Hvers vegna er talið að Flotinn ósigrandi hafi tapað gegn Englendingum 1588, og hvað er hæft í því að Englendingar hafi greitt sjóræningjum fyrir að ræna spænsk silfurskip?Segja má að helsta átakalínan í Evrópu á þessum tíma hafi legið milli Páfastóls og kaþólsku kirkjunnar annars vegar og mótmælenda hins vegar. Á þessum áratugum réðst það, hvaða þjóðlönd eða svæði yrðu áfram kaþólsk og hver yrðu að meirihluta mótmælendatrúar og þá í hvaða trúflokki. Páfinn hafði heiðrað hin frægu konungshjón á Spáni, Ferdínand og Ísabellu, með titlinum "Kaþólsku þjóðhöfðingjarnir" í lok 15. aldar. Þau og afkomendur þeirra tóku það hlutverk mjög alvarlega að vera forysturíkið í að varðveita og útbreiða kaþólska trú í Evrópu og nýlendunum. Filippus II (1556-1598) gekk hart fram í því að berjast við Húgenótta í Frakklandi, mótmælendur í Niðurlöndum og ekki síst mótmælendur í Englandi, þar sem fyrrverandi mágkona hans Elísabet I ríkti. Fjöldi kaþólikka í Englandi biðu eftir hjálp hans, en kaþólsk trú hafði ríkt í landinu meðan eiginkona hans María I (Blóð-María) var þar við völd. Filippus taldi það heilaga skyldu sína að koma þar á kaþólskri trú en Elísabet hafði við valdatöku sína tekið upp mótmælendatrú að hætti föður síns Henriks VIII. Auk þess hafði hann rætt það við páfa að gera aðra dóttur sína að drottningu í Englandi í stað Elísabetar. Það var því ekki lítið í húfi þegar Spánverjar og Bretar tókust á. Til að svara sjálfri spurningunni má í fyrsta lagi nefna að Flotinn ósigrandi átti að sigla árið 1587 en þá kom kappinn mikli Sir Francis Drake (um 1540-1596) og eyðilagði 30 skip í höfninni í Cadiz. Árið 1588 var flotinn tilbúinn á ný með 68 skip, þar af 50 herskip. Englendingar áttu jafnmörg skip en flest þeirra voru kaupskip eða fiskiskip.
Flotaforinginn var hinn óreyndi hertogi af Medina-Sidonia. Hann hafði þó vit á því að skrifa Filippusi bréf í júní 1588 þar sem hann grátbað konung að fresta förinni - honum leist alls ekki á mannskapinn um borð í skipunum. Það þyrfti að fjölga mönnum og þjálfa þá betur. Filippus konungur gaf þá þau fyrirmæli að Medina-Sidonia mætti alls ekki ráðast á England fyrr en hann hefði siglt gegnum Ermarsundið og fengið um borð her prinsins af Parma í Niðurlöndum (sem tilheyrðu Spáni á þessum tíma) til að styrkja flotann. En prinsinum tókst ekki að ná góðri höfn á sitt vald sem gæti tekið á móti flotanum. Þar af leiðandi fékk flotinn hvorki nauðsynlegar vistir né viðbótarhermenn sem staðsettir voru í Flandern. Þetta er talið lykilatriði í atburðarásinni. Spánverjar voru vanmáttugir og vanbúnir. Nú komu Hollendingar Englendingum til aðstoðar enda voru þeir á þessum tíma að losa sig smám saman undan valdi Spánar. Englendingar réðust síðan á flotann við Gravelines og sigruðu. Orrustan stóð í átta tíma í vondu veðri. Eftir ósigurinn þorði Medina ekki að halda aftur gegnum Ermarsundið og valdi þann kost að fara norður fyrir Skotland heim á leið. Óveður var á Atlantshafi og komust aðeins um 40 skip heim til Spánar. Talið er að um 15.000 Spánverjar hafi fallið. Þetta var mikið áfall fyrir Spánverja, einkum Filippus sjálfan sem skildi ekki "reiði guðs". Hann - kaþólski kóngurinn - var að berjast gegn villutrúarmönnum. Erfiðum straumum og óveðri var kennt um. Hins vegar var þetta ekki afgerandi ósigur og var nú allt kapp lagt á að efla spánska flotann. Eins og hinn þekkti sérfræðingur í sögu Spánar, sagnfræðingurinn Henry Kamen, skrifaði nýlega: "The defeat of the Invincible Armada in 1588, far from destroying Spanish power, increased the determination to achieve maritime supremacy..." (Ósigur Flotans ósigrandi varð hreint ekki til að leggja veldi Spánverja í rúst, heldur gerði þá þvert á móti enn staðráðnari í að ná valdi yfir höfunum). Aðrir flotar voru sendir gegn Englandi 1596 og 1597. Við síðari spurningunni er svarið einfaldlega það að víst er að enski flotinn og enskir sjóræningjar voru mjög iðnir við að elta upp gull- og silfurskip Spánverja. Og auðvitað fengu þeir talsvert fyrir sinn snúð. Um heimildir og lesefni:
- Vitnað er í Henry Kamen, Spain 1469-1714: A Society of Conflict. London, 1991.
- Í rannsóknum á Spáni á þessu tímabili eru Henry Kamen og John Elliott þekktastir. Bækur þeirra má nálgast á Háskólabókasafninu í Þjóðarbókhlöðu. Ágætt inngangsrit er: Henry Kamen, Golden Age Spain (1988) .
- Wikipedia.com - Flotinn ósigrandi. Sótt 16.6.2010.