Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru minnihlutastjórn og samsteypustjórn?

Árni Helgason

Talað er um samsteypustjórn þegar tveir eða fleiri flokkar mynda saman ríkisstjórn. Slíka stjórn þarf allajafna að mynda þegar úrslit kosninga eru á þann veg að enginn einn flokkur hefur náð meirihluta og samvinna milli þeirra flokka sem sitja á þingi þarf að koma til.

Í fjölflokkakerfi er raunar afar sjaldgæft að einn flokkur nái meirihluta og samsteypustjórnir eru algengt stjórnarform. Aftur á móti er hefðin öðruvísi til dæmis í Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem tveggja flokka kerfi hefur fest sig í sessi. Þess má geta að þó Frjálslyndir demókratar hafi náð talsverðu fylgi í breskum stjórnmálum gerir kosningakerfi landsins það að verkum að þingstyrkur þeirra er allajafna lítill miðað við stóru flokkana tvo og flokkurinn hefur verið áhrifalaus við stjórn landsins.



Það er ekki hefð fyrir samsteypustjórn í Bretlandi heldur hafa stóru flokkarnir tveir, Verkamannaflokkurinn og Íhaldsflokkurinn skipst á að vera í stjórn.

Algengast hér á landi er að tveir eða þrír flokkar myndi samsteypustjórn en dæmi eru um að fleiri flokkar standi að slíkri stjórn. Til dæmis stóðu um tíma fimm flokkar að ríkisstjórninni sem sat frá 1988-1991, það er Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag, Borgaraflokkur og Samtök um jafnrétti og félagshyggju en í síðastnefnda flokknum sat þó aðeins einn þingmaður, Stefán Valgeirsson.

Grundvallarregla í íslenskri stjórnskipan er þingræðisreglan en hún á stoð í 1. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir að Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Reglan felur í sér að meirihluti Alþingis verður hverju sinni að styðja eða að minnsta kosti sætta sig við sitjandi ríkisstjórn. Ríkisstjórnir geta því ekki setið í óþökk Alþingis.

Samsteypustjórnir styðjast ekki alltaf við þingmeirihluta, þar sem flokkarnir sem mynda slíka stjórn kunna að hafa minnihluta á þingi og kallast stjórnin þá minnihlutastjórn. Þá þurfa stjórnarflokkarnir að treysta á stuðning annarra flokka á þingi, sem eiga þó ekki beina aðild að stjórninni sjálfri. Talað er um að sá flokkur eða þeir flokkar sem styðja stjórnina án þess að eiga sjálfir í henni fulltrúa verji stjórnina falli. Hafa ber þó í huga að einn flokkur getur einnig myndað minnihlutastjórn, sem aðrir flokkar verja falli en í þeim tilvikum væri vitaskuld ekki um samsteypustjórn að ræða.

Minnihlutastjórnir eru ekki algengar hér á landi heldur styðjast ríkisstjórnir allajafna við þingmeirihluta. Það er þó ekki algilt og eru fjögur dæmi um minnihlutastjórnir hér á landi en þær hafa þó alltaf setið til bráðabirgða. Í febrúar 2009 tók minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur við völdum en hún sat með stuðningi Framsóknarflokksins. Veturinn 1978-9 sat minnihlutastjórn Alþýðuflokks undir forsæti Benedikts Gröndal til bráðabirgða í um fjóra mánuði fram að kosningum. Árið 1958-59 sat minnihlutastjórn Alþýðuflokksins undir stjórn Emils Jónssonar með stuðningi Sjálfstæðisflokksins í um ellefu mánuði og veturinn 1949-50 leiddi Ólafur Thors minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins í þrjá mánuði.



Minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sat frá febrúar til apríl 2009 með stuðningi Framsóknarflokks.

En þótt minnihlutastjórnir séu sjaldgæfar hér á landi eru þær hins vegar vel þekktar erlendis. Í Danmörku er til dæmis vaninn að ríkisstjórnir séu minnihlutastjórnir og þetta form hefur einnig verið notað í Noregi. Slíkar ríkisstjórnir eru háðar því að ná samkomulagi við aðra flokka um þau mál sem þarf að koma í gegn. Umboð þeirra er því ekki jafnafgerandi og ella og leita þarf samninga og málamiðlana í umdeildum málum. Þetta getur tryggt aukna samstöðu en á móti kemur að slík stjórn getur lent í vandræðum við að koma í gegn þeim málum sem hún leggur áherslu á.

Tengt efni á Vísindavefnum:

Myndir:
  • Mynd frá breska þinginu: TopNews Law. Sótt 26. 6. 2009.
  • Mynd af minnihlutastjórn: Politik.is. Sótt 26. 6. 2009.

Höfundur

Árni Helgason

lögfræðingur og fyrrverandi laganemi við HÍ

Útgáfudagur

29.6.2009

Spyrjandi

Silja Elsabet
Kolbrún Eyþórsdóttir

Tilvísun

Árni Helgason. „Hvað eru minnihlutastjórn og samsteypustjórn?“ Vísindavefurinn, 29. júní 2009, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=27461.

Árni Helgason. (2009, 29. júní). Hvað eru minnihlutastjórn og samsteypustjórn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=27461

Árni Helgason. „Hvað eru minnihlutastjórn og samsteypustjórn?“ Vísindavefurinn. 29. jún. 2009. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=27461>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað eru minnihlutastjórn og samsteypustjórn?
Talað er um samsteypustjórn þegar tveir eða fleiri flokkar mynda saman ríkisstjórn. Slíka stjórn þarf allajafna að mynda þegar úrslit kosninga eru á þann veg að enginn einn flokkur hefur náð meirihluta og samvinna milli þeirra flokka sem sitja á þingi þarf að koma til.

Í fjölflokkakerfi er raunar afar sjaldgæft að einn flokkur nái meirihluta og samsteypustjórnir eru algengt stjórnarform. Aftur á móti er hefðin öðruvísi til dæmis í Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem tveggja flokka kerfi hefur fest sig í sessi. Þess má geta að þó Frjálslyndir demókratar hafi náð talsverðu fylgi í breskum stjórnmálum gerir kosningakerfi landsins það að verkum að þingstyrkur þeirra er allajafna lítill miðað við stóru flokkana tvo og flokkurinn hefur verið áhrifalaus við stjórn landsins.



Það er ekki hefð fyrir samsteypustjórn í Bretlandi heldur hafa stóru flokkarnir tveir, Verkamannaflokkurinn og Íhaldsflokkurinn skipst á að vera í stjórn.

Algengast hér á landi er að tveir eða þrír flokkar myndi samsteypustjórn en dæmi eru um að fleiri flokkar standi að slíkri stjórn. Til dæmis stóðu um tíma fimm flokkar að ríkisstjórninni sem sat frá 1988-1991, það er Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag, Borgaraflokkur og Samtök um jafnrétti og félagshyggju en í síðastnefnda flokknum sat þó aðeins einn þingmaður, Stefán Valgeirsson.

Grundvallarregla í íslenskri stjórnskipan er þingræðisreglan en hún á stoð í 1. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir að Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Reglan felur í sér að meirihluti Alþingis verður hverju sinni að styðja eða að minnsta kosti sætta sig við sitjandi ríkisstjórn. Ríkisstjórnir geta því ekki setið í óþökk Alþingis.

Samsteypustjórnir styðjast ekki alltaf við þingmeirihluta, þar sem flokkarnir sem mynda slíka stjórn kunna að hafa minnihluta á þingi og kallast stjórnin þá minnihlutastjórn. Þá þurfa stjórnarflokkarnir að treysta á stuðning annarra flokka á þingi, sem eiga þó ekki beina aðild að stjórninni sjálfri. Talað er um að sá flokkur eða þeir flokkar sem styðja stjórnina án þess að eiga sjálfir í henni fulltrúa verji stjórnina falli. Hafa ber þó í huga að einn flokkur getur einnig myndað minnihlutastjórn, sem aðrir flokkar verja falli en í þeim tilvikum væri vitaskuld ekki um samsteypustjórn að ræða.

Minnihlutastjórnir eru ekki algengar hér á landi heldur styðjast ríkisstjórnir allajafna við þingmeirihluta. Það er þó ekki algilt og eru fjögur dæmi um minnihlutastjórnir hér á landi en þær hafa þó alltaf setið til bráðabirgða. Í febrúar 2009 tók minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur við völdum en hún sat með stuðningi Framsóknarflokksins. Veturinn 1978-9 sat minnihlutastjórn Alþýðuflokks undir forsæti Benedikts Gröndal til bráðabirgða í um fjóra mánuði fram að kosningum. Árið 1958-59 sat minnihlutastjórn Alþýðuflokksins undir stjórn Emils Jónssonar með stuðningi Sjálfstæðisflokksins í um ellefu mánuði og veturinn 1949-50 leiddi Ólafur Thors minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins í þrjá mánuði.



Minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sat frá febrúar til apríl 2009 með stuðningi Framsóknarflokks.

En þótt minnihlutastjórnir séu sjaldgæfar hér á landi eru þær hins vegar vel þekktar erlendis. Í Danmörku er til dæmis vaninn að ríkisstjórnir séu minnihlutastjórnir og þetta form hefur einnig verið notað í Noregi. Slíkar ríkisstjórnir eru háðar því að ná samkomulagi við aðra flokka um þau mál sem þarf að koma í gegn. Umboð þeirra er því ekki jafnafgerandi og ella og leita þarf samninga og málamiðlana í umdeildum málum. Þetta getur tryggt aukna samstöðu en á móti kemur að slík stjórn getur lent í vandræðum við að koma í gegn þeim málum sem hún leggur áherslu á.

Tengt efni á Vísindavefnum:

Myndir:
  • Mynd frá breska þinginu: TopNews Law. Sótt 26. 6. 2009.
  • Mynd af minnihlutastjórn: Politik.is. Sótt 26. 6. 2009.
...