Algengast hér á landi er að tveir eða þrír flokkar myndi samsteypustjórn en dæmi eru um að fleiri flokkar standi að slíkri stjórn. Til dæmis stóðu um tíma fimm flokkar að ríkisstjórninni sem sat frá 1988-1991, það er Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag, Borgaraflokkur og Samtök um jafnrétti og félagshyggju en í síðastnefnda flokknum sat þó aðeins einn þingmaður, Stefán Valgeirsson. Grundvallarregla í íslenskri stjórnskipan er þingræðisreglan en hún á stoð í 1. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir að Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Reglan felur í sér að meirihluti Alþingis verður hverju sinni að styðja eða að minnsta kosti sætta sig við sitjandi ríkisstjórn. Ríkisstjórnir geta því ekki setið í óþökk Alþingis. Samsteypustjórnir styðjast ekki alltaf við þingmeirihluta, þar sem flokkarnir sem mynda slíka stjórn kunna að hafa minnihluta á þingi og kallast stjórnin þá minnihlutastjórn. Þá þurfa stjórnarflokkarnir að treysta á stuðning annarra flokka á þingi, sem eiga þó ekki beina aðild að stjórninni sjálfri. Talað er um að sá flokkur eða þeir flokkar sem styðja stjórnina án þess að eiga sjálfir í henni fulltrúa verji stjórnina falli. Hafa ber þó í huga að einn flokkur getur einnig myndað minnihlutastjórn, sem aðrir flokkar verja falli en í þeim tilvikum væri vitaskuld ekki um samsteypustjórn að ræða. Minnihlutastjórnir eru ekki algengar hér á landi heldur styðjast ríkisstjórnir allajafna við þingmeirihluta. Það er þó ekki algilt og eru fjögur dæmi um minnihlutastjórnir hér á landi en þær hafa þó alltaf setið til bráðabirgða. Í febrúar 2009 tók minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur við völdum en hún sat með stuðningi Framsóknarflokksins. Veturinn 1978-9 sat minnihlutastjórn Alþýðuflokks undir forsæti Benedikts Gröndal til bráðabirgða í um fjóra mánuði fram að kosningum. Árið 1958-59 sat minnihlutastjórn Alþýðuflokksins undir stjórn Emils Jónssonar með stuðningi Sjálfstæðisflokksins í um ellefu mánuði og veturinn 1949-50 leiddi Ólafur Thors minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins í þrjá mánuði.
En þótt minnihlutastjórnir séu sjaldgæfar hér á landi eru þær hins vegar vel þekktar erlendis. Í Danmörku er til dæmis vaninn að ríkisstjórnir séu minnihlutastjórnir og þetta form hefur einnig verið notað í Noregi. Slíkar ríkisstjórnir eru háðar því að ná samkomulagi við aðra flokka um þau mál sem þarf að koma í gegn. Umboð þeirra er því ekki jafnafgerandi og ella og leita þarf samninga og málamiðlana í umdeildum málum. Þetta getur tryggt aukna samstöðu en á móti kemur að slík stjórn getur lent í vandræðum við að koma í gegn þeim málum sem hún leggur áherslu á. Tengt efni á Vísindavefnum:
- Hvað er átt við með þjóðstjórn og utanþingsstjórn? eftir JGÞ.
- Hvað þýðir það að skila auðu í kosningum? eftir JGÞ.
- Hvað er lýðræði? eftir Ólaf Pál Jónsson.
- Mynd frá breska þinginu: TopNews Law. Sótt 26. 6. 2009.
- Mynd af minnihlutastjórn: Politik.is. Sótt 26. 6. 2009.